Mánudagur 30.04.2018 - 10:57 - FB ummæli ()

Höfðinu stungið í sandinn

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla í Reykjavík, hefur náð frábærum árangri í starfi og nýtur virðingar meðal skólastjórnenda, kennara og foreldra.

Á forsíðu Morgunblaðsins sl. miðvikudag er greint frá því að Jón Pétur hafi ákveðið að hætta eftir tuttugu ára farsælt starf í skólanum. Í viðtali Morgunblaðsins við Jón Pétur kveður hann skort á faglegu samtali og skeytingarleysi skólayfirvalda í Reykjavík í garð skólanna eiga þátt í því að hann ákvað að hætta.

Ekki krafist grunnþekkingar

Gagnrýni Jóns Péturs beinist meðal annars að því að í aðalnámskrá og menntastefnu Reykjavíkurborgar sé ekki minnst á hugtakið þekkingu: Það er ekki talað um ákveðna grunnþekkingu í þessum plöggum, þannig að skólum er í sjálfsvald sett hvað þeir kenna og fyrir vikið koma námsbækurnar til með að stýra meira og minna því sem er kennt. Og Jón Pétur heldur áfram: Í staðinn er alltaf verið að hamra á hugtökum eins og sköpun, gagnrýnni hugsun og frumkvæði en þau lifa ekki í tómarúmi. Til að vera með gagnrýna hugsun þarf að skilja hvað er verið að fjalla um og til þess þarf þekkingu. Jón Pétur kveðst hafa reynt að ræða þetta við Helga Grímsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, og Skúla Helgason, formann skóla- og frístundaráðs, og spurt hvort þeir héldu að hæfni byggðist ekki á undirliggjandi þekkingu. Hann hafi hins vegar afar fá svör fengið og engin frá pólitíkinni.

Misskilningur og ofurtrú

Þessi lýsing Jóns Péturs á samskiptum sínum við skólayfirvöld kemur heim og saman við þau svör sem hann fékk frá Skúla Helgasyni á borgarafundi um skólamál sem fram fór 12. apríl sl. Á fundinum vék Jón Pétur að tregðu skólayfirvalda til að líta til niðurstaðna PISA-kannana, en borgin hefur sem kunnugt er þverskallast við að gera opinberlega grein fyrir niðurstöðum þeirra. Kvaðst Jón Pétur hafa þurft að ýta á að borgin aflaði upplýsinga um niðurstöðurnar og sjálfur þurft að fara til Menntamálastofnunar í því skyni. Svar Skúla var að þetta væri „misskilningur“ hjá Jóni Pétri.

Jón Pétur benti á að niðurstöðurnar væru nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til að þeir gætu áttað sig á því hvað væri gert vel og hvað mætti gera betur. Því miður væri rætt um niðurstöður PISA-kannana eins og „dægurmál“ í menntastefnu borgarinnar. Skúli kannaðist heldur ekki við þetta. Á fundi borgarstjórnar 8. mars 2017 töldu Dagur B. Eggertsson og Skúli engu að síður tilefni til að bóka að ástæðulaust væri að hafa „ofurtrú“ á gildi PISA-kannana. Engu virtist skipta þótt skólastjórnendur bentu á að 20% nemenda gætu ekki lesið sér til gagns.

Skólastjórnendur grátbiðja um samtal

Viðbrögð skólayfirvalda við óskum skólastjórnenda eru þyngri en tárum taki. Það er ábyrgðarhluti að semja menntastefnu sem gerir ekki kröfu um grunnþekkingu. Það er ábyrgðarhluti að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir faglegu samtali um slíka menntastefnu. Það er ábyrgðarhluti að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir samtali til að finna betri lausnir á þeim viðfangsefnum sem eru til komin vegna stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Og það er kjarkleysi að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir samtali til að ræða agavandamál í skólum og notkun nemenda á snjallsímum í skólastofum.

Skoðum hvað má gera betur

Það er hlutverk skólayfirvalda að hlusta á ábendingar skólastjórnenda og kennara og finna lausnir með þeim. Það er hins vegar ekki hlutverk skólayfirvalda að koma í veg fyrir að upplýsingar um árangur í einstökum greinum, sundurgreindar eftir skólum, séu birtar opinberlega. Hlustum á skólastjórnendur. Skoðum hvað er gert vel og hvað má gera betur. Tíminn sem börnin eru í skólanum kemur aldrei aftur. Það er ábyrgðarhluti að láta árin líða án þess að nokkuð sé að gert.

(grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. apríl 2018)

 

Höfundur er oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík og borgarfulltrúi 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur