Laugardagur 7.4.2018 - 11:10 - FB ummæli ()

Þörf á Soffíu frænku í borgarstjórn

Allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að láta enda ná saman í heimilisbókhaldinu.  Okkur er kennt að eyða ekki um efni fram og safna skuldum.  Það kemur að skuldadögum hjá þeim sem slá lán í bankanum.  Í opinberum rekstri kjósa sumir stjórnmálamenn að líta fram hjá þessum lögmálum.  Oftar en ekki eru þeir hins vegar horfnir af sjónarsviðinu þegar afleiðingarnar af slíku háttalagi birtast almenningi.  Skuldasöfnun verður ekki mætt nema með því að auka tekjurnar (hækka skattana og gjöldin) og/eða skera niður útgjöldin (sem oftar en ekki bitnar á þjónustunni).  Hegðun slíkra stjórnmálamanna getur því haft í för með sér vítahring þannig að sífellt fleiri krónur fara ár hvert í greiðslu vaxta og verðbóta.  Sumir stjórnmálamenn eru síðan svo bíræfnir að þeir ákveða að skera niður í viðhaldi, t.d. gatna og skólabygginga, en eyða þess í stað peningunum í gæluverkefni.  Afleiðingarnar af slíkri hegðun dyljast engum.

Því miður eiga þessar lýsingar við um Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur.  Í stjórnartíð hans hefur orðið veruleg aukning á skuldum A-sjóðs Reykjavíkurborgar.  Degi væri nokkur vorkunn ef tekjur borgarinnar hefðu staðið í stað en svo er hins vegar ekki.  Skattar og gjöld hafa hækkað verulega á kjörtímabilinu.  Dagur hefur því haft úr nógu að spila.  Þegar skuldir borgarinnar aukast þrátt fyrir gríðarlega tekjuaukningu þýðir það bara eitt:  Vonlaus fjármálastjórn.

Það er mikilvægt fyrir unga kjósendur að gera sér grein fyrir þessu.  Í framtíðinni þarf fleiri krónur frá ykkur til að borga skuldirnar sem Dagur B. Eggertsson safnar í dag.  Það er því þörf á „Soffíu frænku“ í borgarstjórn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , , ,

Fimmtudagur 22.3.2018 - 12:50 - FB ummæli ()

Steinn úr húsi Kolbrúnar

Í Fréttablaðinu 12. mars sl. heldur Kolbrún Bergþórsdóttir  því fram að ég hafi látið „sérkennileg orð falla um múslima“ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2014.  Þetta hafi leitt til þess að hópur „hatursfólks“ hafi kosið mig.  Þótt forysta Framsóknarflokksins hafi brugðist sé ásýnd flokksins nú orðin „geðþekkari“ og sé það vel.

Það sem ég sagði

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna lýsti ég sem kunnugt er afstöðu minni til þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar að gefa Félagi múslima á Íslandi lóð til að byggja á mosku.  Í viðtali við blaðamann visir.is þann 23. maí 2014 lýsti ég þeirri skoðun að afturkalla ætti lóðarúthlutunina.  Í því sambandi vitnaði ég meðal annars til Sádí-Arabíu og var orðrétt haft eftir mér: „Það myndu koma peningar að utan ef moska yrði byggð hérna. Ekki spurning. Þeir byrja að streyma inn um leið [og] leyfið fyrir moskunni fæst.“  Með þessu vísaði ég til hins alkunna, að Sádí-Arabar hafa verið öðrum þjóðum duglegri að styrkja byggingu moska í Evrópulöndum þar sem breidd er út öfgakennd útgáfa af íslamstrú.

Flestir skildu orð mín sem varnaðarorð þótt Kolbrún kjósi að líta á þau sem hatur.  Fylgir hún þar borgarstjórnarefni Samfylkingarinnar í Reykjavík, Degi B. Eggertssyni, sem vildi ekki gera mikið úr hættunni og lét hafa eftir sér að maður stýrði ekki borg með því að mismuna fólki eftir trúarskoðunum.

Jón og séra Jón

Ég var ekki búinn að vera nema örfáa mánuði í borgarstjórn þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greindi opinberlega frá því að sendiherra Sádí-Araba hefði tjáð honum að Sádí-Arabar hyggðust leggja umtalsvert fé til byggingar mosku í Reykjavík.  Kvaðst forsetinn hafa orðið „hissa og svo lamaður“ og brýndi fyrir Íslendingum að vakna til vitundar um vandann sem fylgdi öfgafullri íslamstrú.  Kvað forsetinn þann vanda ekki verða leystan með barnalegri einfeldni og aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta. Í viðtali sem Kolbrún sjálf tók við forsetann hafði hún orðrétt eftir honum:  „Ég tel líka ástæðu til að árétta að þau öfl sem hafa fóstrað og fjármagnað öfgakennda útgáfu af íslam, stutt staði [lesist „moskur“, innskot S.B.S.] og skóla þar sem ungt fólk, einkum karlmenn, eru aldir upp í öfgakenningum, hafa greinilega ákveðið að Ísland eigi að vera hluti af þeirra athafnasvæði.“  Mér vitanlega hefur Kolbrún ekki gagnrýnt þessi ummæli forsetans enda ekki tilefni til.  Það er því greinilegt að það skiptir Kolbrúnu máli hvaðan varnaðarorðin koma.  Ekki er sama hvort þar á í hlut Jón eða séra Jón.

Borgarstjórarnir á undan og eftir Jóni

Þessar fréttir urðu hins vegar til þess að Dagur B. Eggertsson, sem þá hafði tekið við sem borgarstjóri af Jóni Gnarr, mælti fyrir um rannsókn á fjárframlagi Sádí-Araba.  Í ljós kom að Sádí-Arabar höfðu ákveðið að leggja allt að 350 milljónir króna til að reisa mosku í Reykjavík. Fyrrverandi borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, var ekki skemmt.  Kvað hún sér hljóðs í fjölmiðlum og varaði við því að Sádar yrðu boðnir hingað velkomnir.  Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hún að það væri „fráleit hugmynd að Sádi-Arabía [fengi] að setja fjármagn í byggingu mosku í Reykjavík.“  Það þurfti því fyrrverandi borgarstjóra – konu með bein í nefinu – til að taka af skarið.  Borgarstjórinn á eftir Jóni treysti sér ekki til að biðja um meira en skýrslu.  Eftir það hefur ekki heyrst meira frá honum.

Nýju fötin Kolbrúnar

Vera má að ályktanir Kolbrúnar stafi af vanþekkingu hennar á málefnum Sádí-Araba enda hefur lítið verið sagt af fréttum hér á landi um markmið þeirra með uppbyggingu moska í Evrópu.   Kolbrún, sem hefur á undanförnum missersum starfað sem ritstjóri DV, ætti þó að muna eftir því þegar efni úr skýrslu þýsku leyniþjónustunnar lak í þarlenda fjölmiðla í árslok 2016.  Í skýrslunni kom fram að Sádí-Arabar hefðu stutt öfgahópa í Þýskalandi með því að fjármagna moskur, trúarskóla og trúarleiðtoga.  Það eru síðan ekki nema örfáar vikur frá því að fréttir voru sagðar af því frá Belgíu að Sádi-Arabar hefðu, eftir þrýsting frá þarlendum stjórnvöldum, samþykkt að hætta öllum afskiptum af Stórmoskunni í Brussel.  Í frétt Reuters fréttaskrifstofunnar þar sem fjallað er um þessar vendingar, er Sádí-Aröbum lýst sem útflytjanda öfgakenndrar útgáfu af íslam (e. „a global exporter of an ultra-conservative brand of Islam“).  Varla telur Kolbrún að stefna Sádí-Araba sé önnur hér á landi en á meginlandinu?

Enda þótt Kolbrún sé nú „fastur penni“ Fréttablaðsins þýðir ekkert fyrir hana að reyna að telja lesendum blaðsins trú um að það hafi verið sérkennilegt þegar ég setti mig upp á móti því að hér yrði reist moska með fjármagni frá Sádí-Arabíu.  Það hljómar eins og nýju fötin keisarans.  Það sem er hins vegar„sérkennilegt“ er að slík ummæli skuli koma úr ranni einstaklings, sem þar til nýverið var ritstjóri DV, en á vefmiðlinum dv.is hafa „virkir í athugasemdum“ um árabil fengið, að því er virðist óátalið af hálfu ritstjórans, að spúa hatri yfir múslima og trú þeirra í athugasemdum sem þeir rita við fréttir blaðsins.  Hver er ábyrgð Kolbrúnar á því?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.3.2018 - 13:46 - FB ummæli ()

Enga snjallsíma í skólastofum

Á fundi borgarstjórnar 6. mars sl. lagði ég fram tillögu um að Reykjavíkurborg samþykkti bann við notkun snjallsíma í grunnskólum borgarinnar. Áður hafði ég rætt við fjölmarga kennara um áhrif símanotkunar á skólastarf og nemendur. Þeir kennarar sem ég ræddi við voru almennt þeirrar skoðunar að símanotkun truflaði kennslu og að nemendur væru margir hverjir háðir símunum. Nemendur teldu sér heimilt að nota símana í kennslustundum og algengt væri að upp kæmi ágreiningur milli kennara og nemenda af þeim sökum. Sífellt yrði erfiðara að fanga athygli nemenda. Einn kennaranna kvaðst hafa leitað eftir leiðbeiningum skólastjóra um heimild sína til banna símanotkun og vísa nemendum úr kennslustund en skólastjórinn vísað til þess að ekki væru til reglur í þessum efnum frá skólayfirvöldum.

Skaðleg áhrif símanotkunar á skólastarf

Á undanförnum árum hefur hver rannsóknin á fætur annarri staðfest að símar hafa skaðleg áhrif á nemendur og skólastarf. Þá staðfestir nýleg rannsókn að áhrifin eru ekki bundin við þann nemanda sem notar símann heldur truflar notkun hans jafnframt kennara og samnemendur.

Niðurstöður rannsóknanna eru áhugaverðar. Rannsóknirnar staðfesta að þeir nemendur sem hafa aðgang að síma í skólastofum telja almennt að það efni sem þeir geta nálgast í símanum sé áhugaverðara en það námsefni sem er til umfjöllunar, að þessir nemendur eiga erfiðara með að halda athyglinni á því sem kennarinn segir, að þeir eyða minna tíma en áður í að vinna með námsefnið í skólstofunni og að þeir fá lægri einkunnir og eru óánægðari með frammistöðu kennarans en þeir nemendur sem fá ekki að hafa síma í skólastofunni. Eru þessi áhrif einkum tengd við notkun nemenda á samfélagsmiðlum, svo sem Snapchat, Instagram, Facebook og YouTube. Kemur það ekki á óvart enda viðurkenna hönnuðir þessara samfélagsmiðla að þeir eru hannaðir með það í huga að notandinn verði háður því að nota þá. Það er því engin tilviljun að unga fólkið ánetjast.

Frumkvæði skólayfirvalda skortir

En það eru ekki aðeins kennarar sem bíða eftir frumkvæði skólayfirvalda. Eftir að ég lagði fram tillöguna í borgarstjórn hafa fjölmargir foreldrar haft samband við mig. Það sem einkennir viðhorf foreldranna er að þeir telja að frumkvæðið verði að koma frá skólayfirvöldum og skólastjórnendum. Foreldrarnir benda á að erfitt sé að útskýra fyrir sínu eigin barni að það megi ekki nota símann í skólanum þegar barnið bendi á móti á að önnur börn megi nota símann í skólanum. Ákvörðunin um að banna snjallsíma í grunnskólum verði þess vegna að vera tekin af skólayfirvöldum.

Hver er afstaða borgarstjóra?

Það vakti óneitanlega athygli viðstaddra að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ákvað að taka ekki til máls þegar tillaga mín var tekin til umræðu í borgarstjórn. Það gerðu Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs og Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, ekki heldur. Foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík eru þess vegna engu nær um afstöðu borgarstjóra og skólayfirvalda þegar kemur að símanotkun grunnskólabarna í Reykjavík. Nema að það sé afstaða þeirra að engin þörf sé að setja samræmdar reglur í þessum efnum.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu í dag.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Vinir og fjölskylda

Fimmtudagur 29.6.2017 - 19:25 - FB ummæli ()

Framsalstakmarkanir á lóðum. Er rétt að setja þær á?

Framsókn og flugvallavinir gerðu tillögu á borgarráðsfundi í dag 29. júní 2017 að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hjá borginni og borgarlögmaður útfæri og leggi fyrir borgraráð tillögur og hugmyndir um hvernig hægt er að setja framsalstakmarkanir/kvaðir í nýja lóðarleigusamninga, við endurnýjun lóðarleigusamninga eða breytingar þegar gildandi lóðarskilmálum er breytt, eða nýjir lóðarsamningar gerðir vegna sameininga lóða eða breytinga á lóðarmörkum, þannig að óheimilt sé að framselja lóðir nema að ákveðnu byggingarstigi sé náð, t.d. fokheldi.  Tillögur og hugmyndir skulu liggja fyrir eigi síðar en í lok ágúst 2017.
Rökstuðningur fyrir tillögunni er m.a. þessi:
1.  Byggingalóðir innan Reykjavíkur eru í dag takmörkuð auðlind.  Fasteignaverð í höfuðborginni hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og ekkert lát virðist vera þar á.  Viðvarandi lóðarskortur er m.a. ástæða hækkana. Ekkert hefur gengið að fækka á biðlistum eftir félagslegu húsnæði, hvorki á þessu kjörtímabili né því síðasta og engar íbúðir virðast vera til fyrir Félagsbústaði til að kaupa, þrátt fyrir um 11 milljarða króna hagnað félagsins á síðasta ári.
2.  Borgarfulltrúar sem og aðrir borgarbúar fá endurtekið upplýsingar um framsal á lóðum sem borgin hefur ráðstafað þar sem lóðir eru seldar með miklum hagnaði án þess að byggingarframkvæmdir séu einu sinni hafnar.  Um fasteignamarkaðinn gilda engin lög eða reglugerðir, ólíkt því sem er um verðbréfamarkaðinn þar sem er mikið og flókið regluverk með töluverðri neytendavernd, t.d. ákvæði um fagfjárfesta. Því verða sveitafélög að bregðast við með þeim aðgerðum sem þeim eru tæk til að vernda neytendur (kaupendur fasteigna) og ein af þeim aðgerðum er það sem þessi tillaga snýr að.
3.  Framsókn og flugvallarvinir hafa allt frá upphafi kjörtímabilsins á árinu 2014 bent á þörf á því að koma á framsalstakmörkunum til að koma i veg fyrir óeðlileg viðskipti með lóðir.
4.  Sé litið til verðbólumælinga í maí 2017 þá hafa aðeins tveir liðir hækkað umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og það er húsnæðisliður og opinber þjónusta.  Fagaðilar eins og SA hafa bent á að hækkandi húsnæðisverð má öðru fremur rekja til framboðsskorts á lóðum og húsnæði almennt, en húsnæðisliðurinn hefur hækkað á þessu ári um 15,8%. Þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif til hækkunar á húsnæðislánum íbúa um land allt, ekki aðeins í höfuðborginni.
5.  Þegar slíkur viðvarandi framboðsskortur er á lóðum eins og nú er staðreynd er mikilvægt að sýna ábyrga stjórnsýslu með því m.a. að setja inn framsalstakmarkanir/kvaðir á lóðarsamninga eins og tillagan kveður á um.  Ef breytingar verða á ytri aðstæðum og jafnvægi hefur náðst, hefur Reykjavíkurborg alltaf heimild til að breyta þessu aftur eða falla frá takmörkunum í einstökum tilvikum.
6.  Þá er mikilvægt er að þeir aðilar sem borgin gerir samninga við sýni staðfestu í að klára þau verkefni sem þeir falast eftir með samningum við borgina.
7.  Framsalstakmarkanir hafa verið í lóðarleigusamningum sem gerðir hafa verið af Reykjavíkurborg áður, en horfið var frá þeirri stefnu eftir efnhagshrunið.
8.  Reykjavikurborg er í lófa lagið að bregðast við þeirri húsnæðiseklu sem nú er staðreynd á markaðnum og er þessi tillaga einn liður í þeim efnum.
Núverandi meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata stendur ráðþrota og endutekur bábyljur um að húsnæðisskorturinn sé skuldaleiðréttingunni að kenna.  Önnur eins rökleysa er vandfundin.  Nú er staðan orðin það aðkallandi að minnihlutinn í borgarstjórn sér sig knúinn til leggja fram lausnatillögur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.6.2017 - 16:11 - FB ummæli ()

Þéttingarstefnan. Fyrir hverja?

Viðvarandi lóðarskortur er staðreynd í Reykjavík.  Hann hefur valdið þeim hækkunum fasteignaverðs í borginni, sem aldrei hafa sést áður, þrátt fyrir að oft hafi komið hækkunartímabil.  Um er að kenna þrákelknislegri stefnu um þéttingu byggðar sem byggir á þeirri óraunhæfu framtíðarsýn núverandi meirihluta að í borginni  sé aðeins aukning á ríkum Reykvíkingum sem hafa efni á því að kaupa sér rándýrar lúxusíbúðir á dýrustu þéttingarsvæðum borgarinnar. Aðgerðar- og dugleysi núverandi meirihluta er hrópandi.

Í ársreikningum Reykjvíkurborgar síðustu ár hefur ekki verið að sjá útsvarhækkanir sem gefa til kynna að það sé raunin, heldur frekar þvert á móti þá hafa útsvarstekjur ekki hækkað í takt við íbúafjölgun. Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé þörf á uppbyggingu fleiri lúxusíbúða. Venjulegur borgarbúi hefur ekki tekjur til að kaupa á þéttingarsvæðunum þar sem Dagur vill byggja.

Borgarstjóri hefur digurbarkalega barið sér á brjóst og talið upp íbúðir sem verið er að byggja í höfuðborginni á dýrstu svæðum hennar, þéttingarsvæðum.  Til að halda þeirri þéttingu áfram skal fórna flugvellinum í Vatnsmýrinni, flugvelli alla landsmanna.

Veruleikinn sem borgarbúar þurfa nú að horfast í augu við er að mikið framboð verður næstu misserin á íbúðum sem flestir telja vera lúxusíbúðir og mjög dýrum eignum.  Íbúðir sem aðeins sárafáir hafa efni  á að kaupa á meðan að skortur er á venjulegum íbúðum á ódýrari byggingarsvæðum.   Hagfræðingar hafa nú bent á augljóst tengsl lóðarskorts og vaxtastigs og þar með verðbólgu. Lúxusmarkaðurinn er mettur í Reykjavík en húsnæðiseklan er engu að síður

staðreynd.  Framboð á nýjum eignum er rétt svo helmingur af því sem þarf til að mæta eftirspurn markaðarins og verð á fasteignum í Reykjavík er orðið að lífskjaramáli fyrir þorra borgarbúa.  Það er óhætt að fullyrða að aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk í höfuðborginni að kaupa sér íbúð.  Hvar ætlar unga fólki að búa? Hvar getur unga fólkið búið? Hvar getur fjölskyldufólk búið? Hvar getur eldra fólk búið?

 

Virkt aðhald 

Það er óneitanlega athyglisvert að alvöru umræður um ástæður lóðarskorts, dugleysi núverandi meirihluta til athafna og hinnar miklu hækkana fasteignaverðs má nánast einhliða rekja til virks og gagnrýnis málflutnings borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn síðustu þrjú ár.  Ítrekað höfum við sett á dagakrá biegarstjórnar stöðu á húsnæðismarkaði,  lagt fram fyrirspurnir um framboð lóða, eignaaukningu Félagsbústaða og fl. og vakið athygli meirihlutans á því hvert stefnir.  Á rúmlega 18 mánuðum hafa Framsókn og flugvallarvinir sett níu sinnum á dagskrá borgarstjórnar máler tengjast lóðarskorti og stöðu á húsnæðismarkaði.
Ráðþrota meirihluti 

Núverandi meirihuti er einfaldlega ráðþrota þegar kemur að lausn þessa risavaxna vandamáls sem stækkar með degi hverjum.  Síðustu sjö ár hefur kjarklaus borgarstjórnarmeirihlutinn neitað að horfast í auga við þennan vanda sem hefur aðeins vaxið dag frá degi.  Það verður því aðeins með nýjum meirihluta í borgarstjórn sem setur húsnæðisöryggi Reykjvíkinga í forgang, húsnæðisöryggi allra aldurshópa, sem verður til þess að þessi staða breytist.  Kallað er hástöfum eftir nýrri borgarstjórn sem hefur kjark og þor til að tryggja húsnæðisöryggi og í því efni að klára m.a. skipulag Úlfarsárdalsins svo að sómi verði af og tryggja ný byggingarsvæði innan borgarinnar.  Staðreyndin er sú að byggingarkostnaður í úthverfum er lægri og byggingartíminn er skemmri og það er því eina raunhæfa lausnin til að vinna úr þeirri stöðu sem uppi er.

Framsóknarflokkurinn vann mikinn kosningasigur á landsvísu árið 2013 þegar við hétum því að setja heimilin í forgang og stóð við það. Framsókn og flugvallarvinir munu setja heimilin í forgang í næstu borgarstjórnarkosninga þar sem húsnæðisöryggi og áframhaldandi vera flugvallarins í Vansmýri verða kosningamálin.

 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 1. júní 2017.

 

 

 

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 18.10.2016 - 19:16 - FB ummæli ()

Í bakgarðinum heima

Vill fólk búa hér í Reykjavík?   – já
– vill það búa í miðbæ Reykjavík? – já

Getur fólk búið hér í Reykjavík? – einhverjir já, ekki allir.
– getur ungt fólk búið í miðbæ Reykjavíkur? – nei, sárafáir.

Það að vilja gera eitthvað er ekki það sama og raunverulega að gera eitthvað.  Unga fólkið í borginni hefur því miður ekki launin eða eigið féið til þess.  Meirihlutinn í borgarstjórn verður að skilja að þetta er vandamálið.  Stúdentaíbúðir er nú verið að byggja, en þegar að námi lýkur þá hefur það ekki efni á að búa í miðbænum, því húsnæði er of dýrt.  Fermetraverðið í miðbænum hefur aldrei verið hærra.  Í dag eru 23 2ja herbergja íbúðir í póstnúmeri 101 skráðar á vefinn fasteignir.is og er verðið á þeim frá 29,9 milljónir upp í 76,5 milljónir.  Til að standast greiðslumat fyrir íbúðum á þessu verði dugast sjaldan laun nýútskrifaðs eða ungs fólks.

Þannig að unga fólkið fær ekki tækifæri til að búa í borginni, nema það endi í bakgarðinum heima hjá pabba og mömmu…..sem að öllu líkindum eru löngu flutt úr miðbænum hvort eð er eða íbúðin komin í Airbnb leigu.

Þetta er því miður staðreyndin í dag.

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 27.9.2016 - 11:48 - FB ummæli ()

Meirihlutinn vill ekki að sín eigin hagsmunaskráning sé skoðuð

Verkfælni meirihluta Samfylkingar, Bjartar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í borginni er staðreynd.  Þessi meirihluti er líka sérstaklega ákvarðanatökufælinn eins og stofnun fjölda verkhópa og starfshópa er til vitnis um.  Þeim leiðist  óskaplega að afgreiða tillögur frá okkur í minnihlutanum.  Þeir hafa hvorki kjark né þor til að hafna þeim né samþykkja.  Því velkjast tillögurnar í kerfinu í veikri von um að við í minnihlutanum gleymum þeim hreinlega.

Nú eru liðnir rúmlega 3 mánuðir frá því að óskað var eftir því að samskonar úttekt yrði gerð á öllum borgarfulltrúm eins og gerð var á hagsmunaskráningu minni í borgarstjórn, þannig að skoðað yrði hvort að skráning þeirra á hagsmunaskrá væri rétt, hvort þeir hefðu skráð fjárhagslega tengd félög sér á innherjaskrá, hvort þeir hefðu brotið gegn hæfisreglum sveitastjórnarlaga, hafi brotið siðareglur og fl.

En ekkert bólar á því að ákvörðun sé tekin, hvorki er tillagan samþykkt né henni hafnað.  Ljóst er að jafnræði og gegnsæi á bara við suma en ekki aðra.  Þeir vilja eðli málsins alls ekki láta skoða hagsmunaskráningu sína, enda er ljóst og til eru gögn um það að borgarfulltrúar, Samfylkingarinnar og Bjartar Framtíðar hafa látið sér þetta í léttu rúmi ligga.  En þeim spurningum er enn ósvarðað hvort að fulltrúarnir þessir og aðrir hafi gert brotlegir er þeir skráðu ekki sömu félög á innherjaskrá.  En það er erfitt að kasta steinum úr glerhúsi.  Meirihlutinn hefur gleymt að Framsókn og flugvallarvinir fögnuðu úttekt sem innri endurskoðandi gerði á fjármálum undirritaðrar, hæfi og fl.  En þeir eru ekki eins brattir þegar kemur að leggja mat á þeirra eigið ágæti.

Enginn annar borgarfulltrúi, sveitastjórnarfulltrúi eða alþingismaður, en greinarhöfundur, hefur farið í gegnum jafn ítarlega skoðun hlutlauss aðila, sem innri endurskoðanda  Reykjavíkurborgar  er, á málefnum sínum.

http://reykjavik.is/en/skrifstofaogsvid/innri-endurskodun

Fréttatíminn er eini fjölmiðilinn sem hefur snert á málinu, aðrir hafa þagað þunnu hljóði.
http://www.frettatiminn.is/breyttu-hagsmunaskraningu-eftir-panamaskjolin/

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 8.9.2016 - 09:53 - FB ummæli ()

Á að framkvæma álagspróf á OR áður en arður er greiddur út?

Viðsnúningur hefur orðið á reksti Orkuveitu Reykjavíkur.  Það er jákvætt.  Reykjavíkurborg lánaði rúmlega 12 milljarða til OR sem hluta af „planinu“.  Það lán ber eins og eðlilegt er vexti.  

Hvort á Orkuveitan að lækka gjöld sín til heimilanna eða að greiða út arð til eiganda og þar með til Reykjavíkurborgar?  Svar við þessari spurningu felur í sér afstöðu til þess hvort að við treystum Reykjavíkurborg til að fara með peningana okkar borgarbúa og ráðstafa þeim í þau verkefni sem meirihluti Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænana og Píratatelur, telja mikilvæg, eða hvort að við viljum að íbúar borgarinnar sjálfir, greiðendur orkugjalda fái fleiri krónur á mánuði til að nota sjálfir.  

Framsókn og flugvallarvinir eiga ekki fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar.

Við teljum það ábyrga rekstrarstefnu að álagspróf verði framkvæmt á Orkuveitunni áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um arðgreiðslu til hluthafa eða lækkunar á gjaldskrám.

Álagsprófið skal framkvæmt með tilliti til hvernig OR stenst áföll m.a. í formi gengissveiflna íslensku krónunnar, sveiflna í álverði, virðisrýrnun á eignum og vaxtabreytinga.

Ef ákveðið verður að greiða út arð, eða lækka gjaldskrár án þess að álagspróf fari fram þá verður það að teljast mjög varhugavert í ljósi rekstrarsögu Orkuveitunnar og hversu viðkvæmur rekstur hennar er fyrir gengisbreytingu, vaxtabreytingum og álverði.  

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.8.2016 - 12:18 - FB ummæli ()

Er þitt barn tilbúið í rafræn samræmd próf?

Framsókn og flugvallarvinir hafa lagt fram tillögu um að borgarráð samþykki að senda eftirfarandi áskorun til Menntamálastofnunar:

“Borgarráð krefst þess að grunnskólanemendur verði ekki látnir þreyta samræmd próf með rafrænum hætti skólaárið 2016-2017.”

Ástæðan er fyrst og fremst sú að jafnræðis er ekki gætt á meðal nemenda grunnskólanna þar sem gríðarlegur munur er á milli sveitafélaga og jafnvel skóla innan sveitarfélaganna í tölvuvæðingu og kennslu í tölvufærni og þjálfun í fingrasetningu. Mikil fjárhagsleg hagræðing á skóla- og frístundasviði á síðustu árum hefur meðal annars komið hart niður á því svigrúmi sem skólastjórnendur hafa haft til að fjárfesta nægjanlega í tölvum, uppfærslum og kennslu á þessu sviði. Börnin verða að njóta vafans og forsenda fyrir því að samræmd könnunarpróf verði framkvæmd rafrænt er sú að jafnræðis sé gætt og að allir skólar hafi sambærilegan aðgang að tölvum, ritþjálfun, neti og kennslu í þeim tölvuþáttum sem aðalnámskrá gerir ráð fyrir.

Væri ekki rétt að gefa Reykjavíkurborg og öðrum sveitafélögum og grunnskólum sem í þeim starfa tækifæri til að setja aukið fjármagn í skólakerfið svo að tæknimál verði þannig að börn sitji við sama borð, skólastjórnendur geta þá brugðist við því þennan vetur sem nú er framundan að taka á því og lagfæra sem þar til að nemendur þeirra verði sem best í stakk búin að taka rafræn próf.  Samþykkt var í febrúar 2016 að prófin yrðu rafræn þegar löngu var búin að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 og því gat Reykjavíkurborg t.d. ekki brugðist við með því að auka vægi þessarra þátta í kennslu.

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Óflokkað · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Vinir og fjölskylda
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 11.8.2016 - 12:41 - FB ummæli ()

Formaður innkauparáðs ekki skráður á hagsmunaskrá

Í borgarráði í dag barst svar frá fjármálaskrifstofu borgarinnar um hverjir teljist til fruminnherja.

Ljóst er að nokkrir aðilar gegna pólitískt skipuðum stöðum á vegum Reykjavíkurborgar sem ekki hafa talið að þeir eigi að gera ráð fyrir hagsmunaskráningu sinni eða skrá sig sem innherja sem skv. lögum á að gera. Það vekur óneitanlega athygli að formaður innkauparáðs, Kjartan Valgarðsson (xs) er hvergi skráður á hagsmunaskrá né sem innherji, né heldur Magnea Guðmundsdóttir sem situr með honum í ráðinu en ráðið tekur ákvarðanir í tilteknum innkaupamálum sbr. innkaupareglur Reykjavíkurborgar, mótar innkaupareglur og hefur eftirlit með að innkaupareglum sé fylgt. http://reykjavik.is/radognefndir/innkauparad.  Er slíkt eðlilegt og gegnsætt í stjórnsýslu meirihluta borgarinnar sem þykist ætíð ganga fram með góðu fordæmi.

Framsókn og flugvallarvinum lögðu því fram tillögu í borgarráði í dag þess efnis að þeir aðilar sem gegna formennsku, varaformenn og aðrir fulltrúar sem sitja í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar og eru EKKI kjörnir fulltrúar séu líka skráðir sem fruminnherjar hjá borginni.http://www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/utgefendur-verdbrefa/fruminnherjar/issuer/5302697609

Í framhaldi af þeirri tillögu er ljóst að við munum einnig óska eftir því að þeir geri grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum. Enda er með öllu óeðlilegt að hægt sé að skipa pólitíska fulltrúa í nefnd, en þeir séu undanþegnir kröfum um gegnsæi þegar kemur að hagsmunaskráningu þar sem þeir eru EKKI kjörnir fullrúar. En hér sést hverjir það eru sem eru skráðir hagsmunaskráningu hjá Reykjavíkurborg: http://reykjavik.is/borgarfulltruar-0

Þá hafa áheyrnafulltrúar ekki tekið það sérstaklega til sín að skrá hagsmuni sína, né heldur sem fruminnherja en þeir hafa allan sama rétt að aðgengi að gögnum og trúnaðarupplýsingar eins og aðrir fullrúar nefnda og ráða sem þeir sitja í. Í ráðum og nefndum borgarinnar eru lagðir fram, kynntir og gerðir fjárhagsrammar, fjárhagsáætlanir og uppgjör sem öll snerta viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar um rekstur borgarinnar og verkefni hennar.

Er leynd sumra betri en leynd annarra?

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur