Miðvikudagur 27.6.2018 - 08:30 - Rita ummæli

LANDSLIÐIÐ ÍSLAND

Íslenska landsliðið er á leiðinni heim. Eftir einstaka frammistöðu og skemmtun koma strákarnir heim. Þeim tókst að gera ótrúlega hluti og er sumt nokkuð sem þeir vonandi átta sig á – og aðrir einnig – að var gert af með þátttöku sinni á HM.

Fágun og prúðmennska var slík að eftir var tekið af heimspressunni. Kappsamir og algjörlega á jörðinni fóru þeir á stærsta viðburð í heimi. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tókst að sigra heiminn með þeim hætti að allt er mögulegt.

En hvað gerðu þeir fleira?
Liðið ásamt KSÍ hefur þegar hafið einu mestu landkynningu sem hægt er að fá. Við höfðum „Eyjafjallajökulgosið“ sem gott dæmi um áhrif til ferðamanna að ferðast til Íslands. Við erum enn að uppskera þá athygli, ef hægt er segja svo. Allt snérist okkur í hag og aukning ferðaþjónustunnar var slík að hún er einstök enn í dag. Landsliðið hefur skrifað annan kafla sem mun nýtast okkur alla tíð.

En það sem stendur uppúr að mínu mati eru þessi atriði;
Þjóðin sameinaðist og var óhrædd að sýna íslenska fánann og nota hann. Hvert sem litið var var búið að stilla upp íslenska fánanum. Við notuðum fánann okkar sýndum stolt okkar að vera íslendingar. Við tókum þátt og við sameinuðumst, við sungum og glöddumst saman.

Annað dæmi um áhrif landsliðsins er sú mikla fyrirmynd sem þeir eru fyrir ungt fólk og við höfum nú kynslóð sem man eftir fyrstu þátttöku íslenska landsliðsins á stærstu mótum heims. Við eigum minningar sem alltaf munu lifa. Þessi árangur mun aldrei gleymast!

Að lokum þá tel ég að við sem þjóð hafi þurft þessa þjóðkennd og að upplifa þennan ákveðna sigur liðsins sem tókst að gera einstaka hluti og góðan árangur. Því miður er þessi þjóðkennd oft barin niður og afbökuð. Um allt Ísland sameinuðumst við, út um allan heim komu íslendingar saman og við sigruðum – á okkar hátt!

Ég hlakka til að sjá árangur íslenskra íþróttamanna enn frekar. Landslið kvenna í knattspyrnu hefur sýnt einstakan árangur og það verður gaman að fylgjast með þeim. Sama á við landslið í handbolta sem einnig hefur komist í að vera með því besta í heimi. Þessi árangur íþróttamanna sýnir að við eigum að bæta enn frekar í að efla þátttöku og iðkun á íþróttum.

Okkur tekst það sem við ætlum okkur – sem þjóð – sem landsliðið Ísland – áfram við!

Takk!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.6.2018 - 12:11 - 1 ummæli

BÖRNIN FRÁ MEXÍKÓ

Um internetið æða fram myndir af börnum á bakvið rimla og eru sagðar af börnunum sem aðskilin hafa verið frá foreldrum sínum sem komu ólöglega til Bandaríkjanna. Ég hef séð nokkrar myndir og jafnvel er fullyrt að sé frá vettvangi en reynist svo ekki vera.

Ég ætla að setja upp hvað ég myndi gera ef ég myndi lenda í samskonar aðstæðum og foreldrar frá Mexíkó eru sum að upplifa;

Ég myndi fyrir það fyrsta aldrei leggja þessa áhættu á börnin mín. En segjum að aðstæður séu óumflýjanlegar og að ég yrði að gera þetta.  Ég myndi hreinlega sturlast að vita til þess að börnin mín væru sett í fangelsi og aðskilin frá mér. Ég myndi líklega verða barinn niður fyrir að reyna að komast til barnanna minna, af þeim sem eiga að gæta mín, ég yrði múlbundinn niður. Ég myndi ALDREI hætta að mótmæla, ég elska börnin mín óendanlega og ég myndi gera allt til að breyta stöðunni.

Ég myndi vonast til þess að yfirvöld beri virðingu fyrir barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, að alþjóðasamfélagið myndi taka við baráttu minni fyrir börnunum mínum og réttlætinu. Ég myndi treysta því að trúsystkini mín myndu hjálpa mér og ég bæði Guð um styrk til að halda ró og yfirvegun, því foreldri sem sviptur er börnum sínum með óréttmætum hætti verður vitstola og berst fyrir hinu sanna.

Nú lesum við þessar fréttir um stöðuna í Bandaríkjunum og aðgerðir þeirra um eftirlit sem þarlend yfirvöld eiga eflaust rétt á. En ég get ekki samþykkt þessar aðferðir. Ég get ekki, sem foreldri horft uppá að alþjóðasamfélagið virði ekki mannréttindi barna. Ef yfirvöld hér á Íslandi bregðast ekki við og tryggja það að öryggi og aðbúnaður barnanna sé ekki eins og hjá skepnum í búri, að gætt sé að því að þvingun játning foreldranna sé ekki vegna þess að börnin voru tekin af þeim, að gildi manneskjunnar og hins eiginlega kærleika sé viðhafður, þá eru íslensk yfirvöld að samþykkja þessi vinnubrögð bandarískra yfirvalda.

Að lokum – þá geri ég mér vel grein fyrir því að „stóri bróðir“ vaktar og les færsluna mína og stílfærir á sinn hátt. Það er í lagi því þeir vita þá hug milljónir manna sem blöskrar aðferðirnar því árið er 2018.

Ég hvet íslensk stjórnvöld til að bregðast við tafarlaust!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2018 - 12:11 - Rita ummæli

AFHROÐ VG

VG skilur ekkert í því  að þeir hafi beðið afhroð í sveitastjórnarkosningum nú nýlega og að forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir fái ekki traust þjóðar og því síður frá stuðningsmönnum sínum innan raða VG enda uppvís að segja eitt og gera annað.

Steingrímur J. er arkitekt á hruni VG í dag og flokkurinn sem kennir sig við umhverfisvernd og velferð er fyrir löngu komin í aðra pólitíska átt. Líklega er það verst fyrir VG fólk að sjá núverandi formann sinn tala á skjön við stefnu og ætlan flokksins en ekkert er gert nema Steingrímur J. segi já við því.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.6.2018 - 09:49 - Rita ummæli

BÖRNIN, EÐA LÆKKUN Á VEIÐIGJALDI?

Frá áramótum hefur ungt fólk látist vegna eiturlyfjanotkunar. Með óútskýrðum hætti komast börn og ungt fólk í sterk morfínskyld lyf útgefin af læknum. Vandi sem allir vita um – læknar líka – en fátt er gert til að breyta hlutunum, engin kallaður til ábyrgðar. Læknadóp, eftirlit með því og ávísun er svo ábótavant að stór hópur hefur tekjur af því að selja, m.a. börnum sem svo hafa dáið. Allir vita, ráðherra, landlæknir, allir vita – ekkert breytist!

Vandi barna sem eru olnbogabörn í kerfinu er skelfilegur. Foreldrar og fjölskylda þeirra missir þrek og kraft hægt og ákveðið. Baklandið, kerfið er að bregðast og vill ekki takast á við vandann, nefndir og starfshópar eru stofnaðir og málið er svæft í kerfinu. Á meðan erum við í baráttu við að börnin okkar fái hjálp þá klukkustundina, að þau lifi og séu ekki endanlega tekin frá okkur. Húsnæði fyrir meðferðarúrræði er ekki nýtt og boltanum er kastað í burtu og við fáum ekki að vera með, vera með í lífinu og fá aðstoð frá kerfinu.

Á meðan við leitum að börnunum okkar og berjumst við flækjustig kerfisins er ríkisstjórnin að velta því fyrir sér hvort lækka eigi veiðigjöld til útgerðarinnar og auðvelda róður hennar.

Útgerðin

Guðmundur Kristjánsson, sem oft er kenndur við útgerðarfyrirtækið Brim, keypti sumarið 2017 eina dýrustu glæsikerru landsins, Mercedes-Benz AMG G 63 á tæplega 31 milljón króna.

Útgerðarfélagið HB Grandi hagnaðist um þrjá milljarða króna á síðasta ári, litlu minna en í fyrra þegar hagnaðurinn var 3,2 milljarðar króna. Stjórn félagsins lagði til að hluthafar fái 1.270 milljónir króna í arð.

Ríkisstjórnin

Og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ætlar að lækka veiðigjöld á útgerðina, en fyrir kosningar og áður en hún fór í ríkisstjórn og var gerð að forsætisráðherra þá var hún á því að hækka veiðigjöldin.

Á meðan bíðum við eftir lausn fyrir börnin okkar, olnbogabörnin sem fáir vilja vita af. Á meðan aka útgerðarmenn á lúxusbílum og vilja að veiðigjöldin séu lækkuð.

 

Á meðan…bíðum við…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.6.2018 - 11:53 - Rita ummæli

TAKK KSÍ – VIÐ ERUM Í SAMA LIÐINU!

Ísland mætti Noregi á Laugardalsvelli í fyrri æfingaleik Íslands fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar. Þegar leikmenn gengu inn á völlinn „leiddu þeir inn á“ eins og það er kallað, en í því hlutverki eru oftast nær börn.

Það er mikil upphefð fyrir börn að fá þann heiður að koma með inná völlinn.

Einhver umræða hefur verið um það að fötluð börn hafi verið beðin um að leiða. Í fyrsta lagi átta ég mig ekki hvers vegna það sé yfir höfuð einhverjar vangaveltur um það.

Fötluð börn búa við mismunun, sem samfélgið er sem betur fer að brjóta niður múra þess. Í öllum þáttum lífsins berjumst við fyrir börnin okkar að þau hafi sömu lífsgæði og önnur börn. Fyrir okkur er baráttan oft harðari. Ein af hindrunum samfélagsins eru fordómar og fáfræði.

KSÍ og leikmenn landsliðsins hafa brotið niður mikinn vegg með því að fara út fyrir rammann og breyta til, fara úr fastmótuðu formi lífsins. Þessu fagna ég mikið því við erum öll í sama liðinu.

Ég vona jafnframt að við sem samfélag höldum áfram að breyta, bæta, og fara óhefðbundnar leiðir hvernig sem staða okkar er í lífinu.

Ég hvet íþróttafólk, félög og leikmenn að fara oftar út fyrir rammann. Mörg þeirra hafa þegar gert það. Bestu þakkir til KSÍ og landsliðsins.

Áfram Ísland…áfram við!
🇮🇸

Undirritaður er 2 varaborgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík og situr í aðalstjórn ÍR.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.5.2018 - 11:02 - Rita ummæli

ÁR LIÐIÐ – MESTA SKÖMM MANNLEGRAR VIRÐINGAR

Um þessar mundir er liðið eitt ár frá því að ég fór í skyndi í flug til Svíþjóðar þar sem bróðursonur minn Einar Óli gekkst undir mikla aðgerð við heila. Í Karolinska sjúkrahúsinu breyttist allt líf okkar.

Nú ári síðar er ömurlegt til þess að vita að Einar Óli er í verri stöðu. Kappsmál yfirvalda, sveitarfélaganna sem snerta mál hans Mosfellsbær og Reykjavík og ríkisins, er að koma honum á hjúkrunarheimili. Mesta skömm mannlegrar virðingar eru okkur sýnd og þvarg stjórnmálanna sem ráða er staðreynd. Við sem erum í þessu með Einari mínum munum aldrei láta bjóða okkur svona vinnubrögð. Við erum pappír á borði í þeirra huga. Einar Óli er enn á Grensás og er ekki komin með heimili.

Ég mótmæli þessu!

Mestu skömm fyrir aðgerðaleysi fá bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ, ríkisstjórn Íslands og heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra, og forsætisráðherra fyrir að ýta málum sem þessum í burtu. Fráfarandi borgarstjóri hefur haft nægan tíma til að bæta úr í málum og málefnum fatlaðra. Mannréttindi eru að engu virt!

Skammist ykkar!

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, aðstandandi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.5.2018 - 22:47 - Rita ummæli

EKKI GLEYMA

Á meðan grunnþjónusta borgarinnar er svelt og hirðuleysið er endalaust með húseignir, þjónustu, gatnakerfi og samgöngur, þá ætlar Samfylkingin að fara í Borgarlínu!

Fráfarandi meirihluti í borgarstjórn hefur setið í fjögur ár og sumir í meira en átta ár. Þegar ég horfi til baka þá minni ég mig á það að ég má ekki gleyma.

Ég má ekki gleyma fuglahúsum við Hofsvallagötu sem voru gæluverkefni og hafa kostað borgarbúa mikla peninga. Ég get ekki gleymt þrengingu við Grensásveginn. Handónýtt gatnakerfi sem hefur kostað slys, óvenjulegt slit á bílum og skapað hættu og valdið tjóni.

Ég get ekki gleymt viðhaldsleysi á húsnæðum borgarinnar, sparnaði í skólakerfinu sem hefur skilað miklu álagi á nemendur og kennara. Almennum þrifum á beðum, slætti og umhirða hefur verið sparað og skilað hæstu mælingum með frjókorn og valdið óþarfa veikindum hjá viðkvæmum einstaklingum.

Ég ætla ekki að gleyma því að borgarstjóri hefur orsakað og á stóran þátt í því að húsaleigumarkaður hefur magnast vegna lóðaskorts sem viljandi hefur skilað skálmöld á leigumarkaði og ýtt undir ólöglegar íbúðir og mikinn vanda fjölskyldna sem berjast við okurleigu.

Ég mun ekki gleyma því glapræði að skapa óvissu og hættuástand í öryggi á sjúkraflugi fyrir alla landsmenn vegna lokunar á neyðarbrautinni. Að borgarstjóri hefur stefnt fólki og sjúklingum í neyðarflugi í hættu vegna hagsmuna um svæði flugvallarins sem eru taldir óeðlilegir og munu örugglega verða rannsakaðir einn daginn.

Ég ætla ekki að gleyma því að borgarstjóri hefur skert þjónustu við aldraða og umhirða húseigna og híbýla þeirra sem eru í húsnæðum borgarinnar eru fyrir löngu komnar á viðhald. Mötuneytin eru skert og matur skammtaður naumlega.

Ég ætla ekki að gleyma því að borgarstjóri og fráfarandi meirihluti vill steypa borginni í algjörar skuldir fyrir draumóra um Borgarlínu, brjálæði sem mun bitna á borgarbúum – fjölskyldum – okkur öllum!

Þann 26. maí munu kjósendur fá tækifæri til að muna eftir verkum borgarstjóra. Ef þú kjósandi góður vilt breytingar og fá þann möguleika á að borgin sé fyrir okkur öll þá bið ég um þinn stuðning.

Tökum til – það er komin tími á það…

Settu X við M
Miðflokkurinn í Reykjavík

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson

3. sæti í Reykjavík fyrir Miðflokkinn 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.5.2018 - 10:55 - Rita ummæli

Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni

Miðflokkurinn svo og 75% þjóðarinnar vill að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni og verði tafarlaust endurbættur til að þjóna betur innanlandsflugi og sem varaflugvöllur millilandaflugs því hann getur núna tekið á móti 24 þotum í neyðartilvikum. Þá verða lendingarbrautir lagfærðar og neyðarbrautin tekin í aftur í notkun.

Þessi tillaga núverandi meirihluta í Reykjavík í samgöngumálum ganga út frá að nýr flugvöllurinn verði fjármagnaðar í samgönguáætlun ríkissjóðs en ekki af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga. Landsmenn allir eiga sem sagt að taka á sig fjármögnun þessa dýra samgöngugæluverkefnis en ekki má gleyma að Reykvíkingar greiða einnig skatta í ríkissjóð.

Það er alveg ljóst að það er ekki áhugi á Alþingi Íslendinga fyrir þessu óskynsamlega samgöngugæluverkefni Dags B. Eggertssonar borgarstjóra því það er tugur annarra samgönguverkefna sem eru meir aðkallandi um land allt eins og lagning og viðhald vega, fækkun einbreiðra brúa, jarðgöng eins og Sundagöng. Í flugmálum eru einnig meir aðkallandi verkefni tengd öryggismálum eins og viðhald og stækkun flugvalla á Akureyri og Egilstöðum vegna alþjóðlegra flugsamgangna og til að þjóna sem varaflugvellir millilandaflugs með nútíma GPS staðsetningar- og lendingarkerfum, stækkun flughlaða fyrir fleirri og stærri vélar svo og lengingu og fjölgun flugbrauta. Einnig lagfæring minni flugvalla um land allt vegna sjúkra- og útsýnisflugs. Þá er bygging samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll á áætlun.

Ofannefnt 200 milljarða samgöngugæluverkefni núverandi meirihluta Reykjavíkurborgar er því óskynsamlegt, óraunhæft og ofloforð í aðdraganda borgarstjórnarkosninga.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
3. sæti í Reykjavík fyrir Miðflokkinn

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.5.2018 - 14:33 - 2 ummæli

Seljahlíð í Breiðholti

Gluggar eru illa farnir og sumstaðar lekur inn

Seljahlíð við Hjallasel í Breiðholti var á sínum tíma eitt glæsilegasta hjúkrunarheimilið í Reykjavík. Á sínum tíma var Seljahlíð eins og listigarður með tjörn skammt frá, fallega hirta lóð og húsnæðið var vel við haldið. Fyrir stuttu heimsótti ég íbúa að Seljahlíð. Í huga minn kom; „nú er hún Snorrabúð stekkur.“

Seljahlíð er nú undir rekstri hjá Félagsbústöðum og í algjörri óþökk íbúa tóku Félagsbústaðir við rekstri og eigninni, hækkuðu leiguna, og höfðu áætlun um að taka allt í gegn. Starfsmenn fengu fyrirmæli um að skrifa niður lista og benda á það sem má lagfæra og í það yrði farið strax. Það er skemmst frá því að segja að ekkert hefur verið gert. Húsaleiga hefur hækkað, umhirða hússins er engin, gluggar leka og eru margir skemmdir. Sérstakt aukagjald vegna læknisþjónustu var sett á og að mati íbúa er aðeins um aukna gjaldtöku að ræða. Íbúar eru búnir að lýsa áhyggjum sínum lengi en engin hlustar. Starfsmenn hafa með alúð lagt mikla vinnu í að gera sem best úr breytingunum og stutt íbúa – því ber að þakka!

Seljahlíð var glæsilegt hús og vel við haldið. Lóðin var vel hirt og íbúum og nágrönnum þótti vænt um þetta reisulega hjúkrunarheimili í Breiðholtinu. Það er ljóst að fráfarandi borgarstjóri hefur algjörlega brugðist. Umhirða og viðhaldi er fyrir löngu orðið þarft, það er skömm að bjóða íbúum uppá ástand sem þetta. Mér þykir vænt um hverfið mitt og ég ætla ekki að láta svona lagað gerast.

Okkur í Miðflokknum blöskrar við að sjá stöðuna eins og hún er með Seljahlíð, en víða eru byggingar borgarinnar í algjöru viðhaldsleysi. Það er fyrir löngu komin tími á breytingar og tiltekt í Reykjavík og við Seljahlíð þarf hin virðulega sýn að eiga sér stað á ný og hlusta þarf á íbúa.

Með því að bæta borgina, setja markvissa vinnu í viðhald og þrífa borgina, þá verðum við að fá tækifæri til þess 26. maí næstkomandi.

Settu X við M
Miðflokkurinn í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.5.2018 - 12:22 - 1 ummæli

EFTIRBREYTNI MEÐFERÐAR OG BETRUNAR

Á landsþingi Miðflokksins sem fór fram helgina 21.-22. apríl í Hörpu samþykkti flokkurinn meðal annars ályktun um málefni fanga, en í ályktun flokksins um þessi mál segir:
„Stytta skal biðtíma fanga eftir afplánun. Auka þarf úrræði eins og samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit til að auka möguleika fangelsisstofnana til að styðja fanga til betrunar. Leggja þarf aukna áherslu á eftirfylgni við fanga og fjölskyldur þeirra, fyrir, á meðan og eftir að afplánun er lokið.
Dómarar skulu ákvarða um reynslulausn, ekki fangelsismálastofnum.“

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að koma á fót virkniúrræði fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð eða betrunarvist. Þetta er á stefnuskrá flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar þann 26. maí. Miðflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur á stefnuskrá sinni og sem kosningamál aðstæður þeirra sem ljúka betrunarvist eða meðferð.
Málefni þessi eru oft á tíðum falin og stimplað sem vandamál. Við teljum mikilvægt að huga að betrun til batnaðar og jákvæðri uppbyggingu, að samfélagið veiti hjálparhönd til þeirra sem sýna betrun og bæta sig með meðferð og uppbyggingu. Til þess að það sé hægt þarf fyrst að opna á þá staðreynd að hver manneskja þarf að fá tækifæri á ný. Í umræðunni gleymist þáttur aðstandenda og fjölskyldur einstaklinganna. Virkur stuðningur og markviss uppbygging og eftirfylgni er mikilvægt skref til bata.

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að hefja þessa vinnu strax eftir kosningar, en til þess þurfum við stuðning þegar kosið eru nú þann 26. maí.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
3. sæti Miðflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir

Færslusafn

Flokkar