Miðvikudagur 18.07.2018 - 11:04 - Rita ummæli

Að fagna með hégómanum: Aldarafmæli fullveldis Íslands á Þingvöllum

Í dag mun alþingi fagna 100 ára afmæli fullveldi Íslands í einkaveislu á Þingvöllum og þjóðin er ekki með. Á Þingvöllum mun ríkisstjórn Íslands fagna hégóma sínum og sýndarmennsku í verki og viti. Undanfarnar vikur hefur altari Mammon verið reist upp, þyrlur flogið með tæki og tól á viðkvæmt svæði Þingvalla og ágangur verið mikill. Svæðið mun taka sinn tíma í að fara í sama horf, ef það tekst. Uppgefin kostnaður við vinnuna er sagður 80 milljónir. Nærri lagi erum við að tala um 150 milljónir í það minnsta, ef tekið er mið af öllu því starfsfólki sem er að sinna þessu afmæli sem er í boði alþingis.

Ægir Þór er sex ára drengur með DMD-vöðva­rýrnunar­sjúk­dóm. Honum hefur verið neitað um lyf sem seinkað gæti lömun hans og bætt líf hans til muna. Litli drengurinn og fjölskylda hans eru í kappi við tímann. Heilbrigðisráðherra og samflokkssystir forsætisráðherrann í Vinstri grænum sem kennir sig við að vera vinstri velferðarflokk horfir á og bregst ekki við. Í kosningunum talaði VG um að „hindra að hér festist í sessi tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustunni.“ Þetta var sagt árið 2017- í dag árið 2018 hefur heilbrigðisráðherra ekki svarað fjölskyldu Ægis Þórs – í dag hefur ríkisstjórn Íslands og alþingi Íslands eytt fleiri tugi milljarða í einkaveislu, og þjóðin er ekki höfð með!

Í dag er að skapast hættuástand á Landspítalanum vegna verkfalls ljósmæðra en fjármálaráðherra hefur í hroka sínum neitað að semja við ljósmæður og ýtt í burtu þessum hóp sem alltaf stendur vaktina og biður nú um leiðréttingu á kjörum sínum. Í yfirspenntu embættismannakerfi ríkisstjórnarinnar og botnlausri eyðslu í hégóma, er alþingi að hittast á Þingvöllum í yfir 150 milljón króna einkaveislu.

Í dag er geðdeildum lokað vegna sumarleyfa og manneklu og stjórnunarlegra mistaka. Heilbrigðisráðherra telur að geðsjúkdómar fari í frí á sumrin. Einnig sjáum við algjört glapræði og stóra hættu í stöðu áfengis- og vímuefnasjúklinga. Biðlistar eru miklir og fólk er að deyja. Á meðan fagnar alþingi á Þingvöllum.

Í textanum Öxar við ána segir að þjóðlið eigi að rísa og skipast í sveit. Að við eigum að fara fram og aldrei að víkja. Það segir einnig að við eigum að taka saman höndum og berjast. Já ,við eigum að berjast fyrir réttlætinu!

Í dag fagnar alþingi íslendinga með hégómlegum hætti og þjóðin er ekki með. Á Þingvöllum mun ríkisstjórn Íslands fagna þessum hégóma við 150 milljón króna altari Mammon. Á meðan bíður lítill drengur eftir lyfjum sínum, ljósmæður bíða eftir bættum kjörum, og hinn raunverulegi heimur okkar íslendinga er sá að þjóðinni er skipt út – aftur – af stjórnmálaflokkum sem kenna sig við félagshyggju og velferð en svíkja blákalt stefnu sína og ætlan. Í einni svipan er velferðinni eytt fyrir völdin. Þessi völd koma saman á Þingvöllum í dag!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar