Fimmtudagur 28.02.2013 - 12:09 - Lokað fyrir ummæli

Matargerð er list og menningararfur

 

 

 

Í gegnum síðustu áratugina hefur byggst upp á Íslandi fyrsta flokks matar- og vínmenning.

Eldhús íslenskra veitingastaða, sem og þjónusta til borðs, hefur náð mjög langt og er að komast á kortið á heimsvísu þó lengi megi gott bæta. Þetta er allt í áttina og afar ánægjuleg þróun.

Það ryfjast upp sá tími þegar vinir mínir unnu í eldhúsinu hjá Bjarna í Brauðbæ, þ.e. á Óðinsvéum, þar sem nú er hinn heimsborgarlegi veitingastaður SNAPS. Þá var það skáld sem vaskaði upp, mikill vinur minn, og svo kokkarnir sem og vissulega þjónarnir sem reiddu fram dýrindis rétti. Allt var þetta hið skemmtilegasta fólk, fjörugt og gleðin leyndi sér ekki. Það var fjör þarna á bakvið í eldhúsinu.

Fór maður oft á tíðum á Óðinsvé í kaffi á námsárunum og naut þar einnig matar og drykkjar sem var fyrsta flokks. Man einstaklega vel eftir koníaksstofunni í kjallaranum. Þetta er og var í huga mínum allt listafólk sem þarna vann og einnig það fólk sem stundar þessa iðju í dag á veitingahúsum víða um land og um allan heim.

Nú er öldin önnur. Við höfum vaxið í þessum geira Íslendingar, náð lengra og getum nú boðið fyrsta flokks þjónustu og myndað þann anda sem til þarf svo fólk finni sig í stórborg í okkar litlu Reykjavík. Þetta hefur einnig smitast út til sveitarfélaga víða um land en sem dæmi má finna fjölmarga góða veitingastaði á Akureyri.

Nú um helgina er ætlun fjölskyldunnar að líta við hjá henni Hrefnu Rósu Sætran og honum Jonah Kim frá Bandaríkjunum og njóta veitinganna á Fiskmarkaðnum. Það verður spennandi.

Food & fun ber að þakka fjölmörgum en óhætt er að segja framtakið sé eitt af því markverðasta sem rekið hefur á fjörur íslenskra matgæðinga fyrr og síðar. Aðal styrktaraðili hátíðarinnar er Icelandair og hefur það fyrirtæki stuðlað að fjölmörgu áhugaverðu í lista- og menningalífi Íslendinga undanfarin ár. Því ber að fagna.

Hér má því sjá hve vel einkaframtakið getur staðið við bakið á lista- og menningalífi.

Njótið heil og fagnið framtakinu.

Verði ykkur að góðu.

 

Flokkar: Menning og listir · Vinir og fjölskylda

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur