Mánudagur 04.03.2013 - 20:20 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnarskrá lýðveldisins

 

Alþingishúsið við Austurvöll

Við Íslendingar erum með stjórnarskrá, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 1944.

Margir hafa rætt fjálglega um ,,aðra“ stjórnarskrá en það er bara ekki til önnur stjórnarskrá en þessi. Svo er nú málum háttað og því verður ekki breytt nema samkvæmt stjórnarskránni. Þar eiga ekki einhver hókus-pókus hrossakaup eða klækjastjórnmál að eiga hlut að máli eins og manni virðist sem formaður Samfylkingarinnar og e.k. varaforsætisráðherra hafi verið að fullyrða í Kastljósi nú rétt í þessu.Maður er nýlega búinn að þurfa að hlusta á talsmann neytenda í Silfri Egils í gær og svo þessi ósköp því til viðbótar í dag.

Gerir þetta blessaða fólk sér ekki grein fyrir því að þjóðin er þeim bara alls ekki öll sammála. Í hvaða heimi eru þessir blessuðu ríkissstjórnarþingmenn eiginlega og talsmenn þeirra?

Þar segir í 1. mgr. 79. gr:

Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.

Í 2. mgr. 79. gr segir:

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Ríkisstjórnarflokkarnir, VG og Samfylkingin, settu á oddinn fyrir síðustu kosningar að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hvað sem það kostaði.

Nú er þetta allt í uppnámi en einhverjir hafa hreyft við því að nú sé (m.a. vegna tafanna, klúðursins og lögbrota) bara ekkert mál að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis að næsta þing geti keyrt breytingarnar í gegn.

Enn og aftur þarf að tyggja ofan í þetta ágæta fólk að þetta virkar bara ekki svona. Það þýðir ekki að fara sífellt gegn lögum í þessu landi eða finna hjáleiðir. Það er búið að brjóta jafnréttislög á þessu kjörtímabili, lög á fólki sem tók lán hjá bönkum, kosningalög og svo má lengi telja. Nú á að freista þess að fara að semja um það á milli formanna flokka á Alþingi, fyrir atbeina ,,nýja“ varaforsætisráðherrans, hvernig eigi nú að fara á skjön við gildandi stjórnarskrá svo hægt verði að breyta henni og binda næsta þing í báða skó hvað það varðar.

Það var og. Þessi endaleysa virðist ekki ríða við einteyming.

Auðvitað á Alþingi að taka það frumvarp, sem fyrir liggur (og afgreitt hefur verið úr nefnd ásamt breytingatillögum), og ræða það og afgreiða, hafna því eða samþykkja. Annað verður að bíða eða óska afbrigða vegna tafanna til að ljúka öðrum málum með sæmd.

Umboð þessa þings er senn á enda, sem betur fer. Mótmælum þessu framferði þingmanna sem eru flestir að missa umboð sitt sem fulltrúar þjóðarinnar á þingi.

Þjóðin mun brátt fá valdið í sínar hendur og kjósa nýtt þing.

Kæru landar, vöndum þá valið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur