Miðvikudagur 06.03.2013 - 11:20 - Lokað fyrir ummæli

Sortinn og ríkisstjórn Íslands

Af vef www.visir.is í dag miðvikudaginn 6. mars 2013 - Vesturlandsvegur

 

Í dag hefur fólk kvartað talsvert yfir því að skólar hafi ekki tilkynnt að þeir yrðu lokaðir í dag. Hins vegar brugðust stjórnendur skóla þannig við á höfuðborgarsvæðinu að vara foreldra við og hvöttu þau að meta ástandið.

Fyrir hrun hvöttu fjölmargir almenning til að vara sig á hvað framundan var og að gæta sín í fjármálum, trúa ekki gylliboðum og tryggja sig og fjölskyldu sína fyrir áföllum.

Nú er allt orðið vitlaust vegna veðurs rétt eins og í hruninu og eftir það. Allir kenna einhverjum öðrum um og ætlast til þess að platónskar uppeldisstofnanir gefi út leiðbeiningar til foreldra sem virðast ekki geta lengur farið á vef Veðurstofu Íslands og leitað sér upplýsinga um hvað framundan er. Veðurstofan hefur einmitt varað við óveðrinu. Hið sama á við þegar fjölmargir vöruðu almenning við þeirri vá sem framundan var á árabilinu frá 2004 til hruns.

Fáir hlustuðu en urðu svo snælduvitlausir þegar í óefni var komið.

Nú eru fjölmargir sjálfboðaliðar að aðstoða fólk út úr ógöngum sem það hefur komið sér í bæði vegna skorts á upplýsingum og þekkingu á veðurfari á Íslandi. Einnig hefur einhver ferðaskrifstofa boðið e.k. sólalandaferðir til Íslands og einn sárasaklaus Breti farinn að tjalda undir Stóra Dímon rétt við Eyjafjöll þar sem spáð er nú versta veðrinu á landinu í dag. Minnir þetta okkur ekki aðeins á ICESAVE? Líkur eru því nú á að ekki verði aðeins fjármunaeignir Breta frystar hér á landi á næstunni.

Svo er það ríkisstjórn Íslands sem virðist alveg frosin inni með þetta stjórnarskrárfrumvarp sitt á Alþingi og hann Stefán blessaður Ólafsson hlýtur bara að geta reiknað það út að þetta óveður sé krónunni að kenna. Á meðan Stefán mærir ríkið og rekstur þess horfir íslenska þjóðin út í sortann í leit sinni að nýrri ríkisstjórn.

Er þetta allt krónunni að kenna? Hafnarfjarðarvegur 6. mars 2013 - Fengið af www.visir.is

Þeir sem vonast eftir skjótri lausn varðandi veður og vá er bent á hinar ýmsu vúdú leiðir Stefáns Ólafssonar sem virtist bjóða upp á sína þjónustu í pistli sínum í dag.

Vonum nú að þessu veðri sloti og fólk komist allt heilu og höldnu heim.

Þakkir til björgunarsveita landsins og lögreglu – frábært fólk þar á ferð !

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur