Mánudagur 29.04.2013 - 16:47 - Lokað fyrir ummæli

Mesta áhætta Framsóknar

Í pistli hér á Eyjunni hefur ritstjórinn sjálfur talið sig þess umkominn að geta sagt að stærsti flokkur þjóðarinnar eigi ekki að fá umboð til stjórnarmyndunar á Íslandi. Í kjölfarið fer Össur Skarphéðinsson mikinn, maður sem glatað hefur þingmönnum úr þingflokki sínum í hlutfalli sem ekki hefur mælst áður frá stofnun lýðveldis á Íslandi, og belgir sig út eins og hann hafi eitthvað um stjórnarmyndun að segja.

Eru þessir menn veruleikafirrtir?

Það er rétt að Framsókn sópaði að sér óánægjufylgi frá Samfylkingunni sem gat ekki hugsað sér að kjósa þessa sameiningargrúbbu alþýðu er aldrei hefur virkað vel eða komið einhverju með viti í framkvæmd. Þar má nefna lög á lán landsmanna sem dæmd voru ólögmæt, milliríkjasamninga sem detta úr sambandi sé gengið í ESB og margt fleira. Reyndar mun líklega ekki verða af ESB aðild sem betur fer en verkin tala sínu máli þó mörg þverstæðukennd séu.

Ekki tókst einu sinni að koma ESB málinu í gegn og átti þar Össur hlut að máli. Það var og er allt bölvað klúður og tóm vitleysa. Sama má segja um ICESAVE.

Þrátt fyrir að það geti verið freisting í anda Rómaveldis á tímum Neró að fara í e.k. vinstri stjórn með Samfylkingunni er það mikið hættuspil fyrir Framsókn. Þjóðin sagði NEI við Samfylkingunni og ESB þvælunni. Það er allt í lagi að ljúka viðræðum en það má örugglega gera með meiri hraða en Össur hefur náð að reka sína hesta hingað til.

Það væri og að þetta endaði eins og í Róm forðum þegar bróðir Neró gerði Incitatus að ráðherra sínum í ríkisstjórn. Það yrði mesta áhætta Framsóknar fyrr og síðar og Íslendingum váleg tíðindi ef þróun mála æxluðust á þann veginn. Vænta má að svo verði ekki sem betur fer enda Forseti Íslands ansi glöggur maður.

Nei, nú skulu þeir sem hafa glatað trúnaði þjóðar sinnar taka þau sæti sem þeim hafa verið skipuð og hætta þessu rausi hér á vefsíðum Eyjunnar.

Í guðanna bænum komið nú niður á jörðina kæru vinstri menn.

Það er nóg komið af ykkar stjórnsýslu hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur