Laugardagur 04.05.2013 - 08:48 - Lokað fyrir ummæli

Nýr stjórnarsáttmáli og fjármálastöðugleiki

 

Í pistli þann 30. apríl sl. fjallaði ég um loforð Framsóknarflokksins og stöðu þjóðarbúsins í samhengi við nýtt hefti um fjármálastöðugleika sem Seðlabanki Íslands gefur út. Í þeim pistli segir m.a.:

Talandi um kosningaloforð. Í dag kom t.a.m. berlega í ljós í hefti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að leið Framsóknar varðandi skuldaleiðréttingu heimila gengur ekki upp. Það er frétt dagsins í dag en ekki það að formanni þessa ágæta flokks hafi verið veitt umboð til stjórnarmyndunar. Ekki er að undra að fjölmiðlar hafi ekki náð þessu enda greinilega fáir sem telja það henta í dag að minnast á þessa hlið málsins og þá augljósu staðreynd sem  bankinn hefur nú staðfest.

Í dag 4. maí ritar Þorsteinn Pálsson, fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, um einmitt sama efni í Fréttablaðið og bendir réttilega á þá erfiðleika sem blasa við hér á landi um þessar mundir.

Þeir sem vilja láta taka sig alvarlega og vilja tryggja stöðugleika á næstu árum verða að öllum líkindum að hafa seðlabankastjóra sér við hlið í stjórnarmyndunarviðræðum á næstu dögum. Seðlabanki Íslands er og verður burðarás í stjórnvaldsaðgerðum næstu missera og ára.

Það að leiða hjá sér varnaðarorð sem koma fram í fjármálastöðugleikahefti Seðlabanka Íslands yrði ámælisvert og gæti einmitt skapað úlfuð og alvarlegan ágreining á milli sjálfstæðs seðlabanka og ríkisvalds.

Einnig er rétt hjá Þorsteini að hér á landi eru enn til þeir leiðtogar sem gefa því gaum sem máli skiptir varðandi stöðugleika í þjóðarbúinu og eru tilbúnir að taka á þeim brýnu og erfiðu málum sem liggja fyrir. Það er mikið fagnaðarefni fyrir íslenska þjóð.

Rétt er að ítreka þetta í ljósi þess að væntanlega verður nýr stjórnarsáttmáli dreginn upp á næstu dögum.

Góð lesning og ábyrg afstaða sem rýna má nú sem fyrr af Kögunarhóli Þorsteins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur