Fimmtudagur 27.02.2014 - 10:23 - Lokað fyrir ummæli

Pólitískir flóttamenn

Yarmouk flóttamannabúðirnar í Damaskus, Sýrlandi

Yarmouk flóttamannabúðirnar í Damaskus, Sýrlandi

 

Síðustu misseri hefur verið umtalsvert fjallað um flóttamenn á Íslandi, meðferð persónuupplýsinga þeirra hjá opinberum aðilum og almennt um aðbúnað þeirra. Fullyrða má að enginn vill vera flóttamaður og flestir vilja búa og alast upp í heimabyggð. Þetta þekkja Íslendingar vel og sérstaklega þeir sem flúðu Ísland til Norður-Ameríku á árabilinu 1870-1914. Um 15 þúsund Íslendingar settust að í Norður-Ameríku og var þetta hluti af stórfelldum þjóðflutningum sem áttu sér stað í Evrópu til Ameríku á þessum tíma en talið var að um 52 milljónir hafi flust yfir hafið frá 1846 til 1914. Ástæður fyrir þessu voru fjölmargar og þar má m.a. nefna fátækt, þröngbýli, ófrelsi og jafnvel hungur.

Á þessum tíma geysuðu á Íslandi mikil harðindi og má m.a. geta þess að eldgos í Öskju árið 1875 varð til þess að vesturförum fjölgaði mikið árið þar á eftir. Samhliða hefur verið bent á að meginástæðan hafi verið að íslensku þjóðinni fjölgaði mikið á 19. öld án þess að atvinnulífið efldist að sama skapi. Gátu þeir framleiðsluþættir sem tíðkuðust til sveita ekki brauðfætt alla landsmenn. Á þessum tíma tóku sjávarþorp að myndast um sunnan- og vestanvert landið.

Í dag á Íslandi má sjá að yfirvöld taka hart á flóttamönnum er sækja landið heim í leit að því sama er Íslendingar vildu finna í nýja heiminum. Þar tóku nátturuöflin harkalega á móti landanum og þá sérstaklega í frosthörkum sem þekkjast vel í Alberta fylki Kanada. Hér á landi tekur snúið og oft óyfirstíganlegt regluverk á móti flóttamönnum, regluverk sem gefur fólki ekki tækifæri sem illa hefur verið farið með í heimalandi þeirra. Einnig, sé flutningur flóttamanna til landsins á forsendum hins opinbera, er tekið vel á móti fólki sem þarf að takast á við tungumálið og fordóma. Þarna er vandrataður vegur fyrir þau yfirvöld sem eiga að stýra þessum málum þannig að ekki fréttist til flóttamannabúða að Ísland sé góður staður til að flýja til.

Það er mikilvægt að girða vel utan um landamæri Íslands til að tryggja að ekki komi til landsins stórglæpamenn eða glæpagengi. Í þessu efni verða lögregluyfirvöld á Íslandi að meta hvert tilvik fyrir sig og Útlendingastofnun að taka á hvaða máli fyrir sig og gæta að réttri málsmeðferð og að bið flóttamanna við úrlausn mála verði ekki löng. Það er vel þekkt að flóttamenn sem hingað hafa komið hafi fengið landvistarleyfi og eru jafnvel orðnir ríkisborgarar, t.a.m. með vísan í mannúðarsjónarmið. Lítið fer af fréttum um það á öldum ljósvakans eða í netmiðlum það sem vel er gert. Það er miður og mætti vera meira um það.

Varðandi flóttamannabúðirnar í Sýrlandi verður íslensk þjóð að meta vel hvað hún getur gert til að hjálpa. Íslendingar eru hjálpsamir í eðli sínu. Flestir Íslendingar vilja samt sem áður forgangsraða og gæta að eigin þegnum áður en lagt er á ráðin um að veita þróunaraðstoð og uppfylla þannig skilyrði sem Ísland hefur gengist undir með alþjóðasamningum. Þessar flóttamannabúðir eru að mati pistahöfundar skýrt dæmi um að pólitík Evrópusambandsins (ESB) varðandi utanríkismál í næsta nágrenni sambandsins er ekki að virka. Sama mætti segja um arabíska vorið og nú spillingu innan Tyrklands, kollega Íslands í umsóknarferli að ESB. Yarmouk búðirnar urði til á 4. og 5. áratug síðustu aldar og hefur fljóttamannastraumurinn frá Sýrlandi nú sprengt allt stjórnkerfi búðanna sem hefur ekki við. Stærstu samtökin sem þar starfa til hjálpar eru frá Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu.

Þegar rætt er um hvaða leiðir flóttamenn leita til að skjóta rótum eru aðrar leiðir farnar í dag en á öldum áður þegar menn byrjuðu að rækta sinn akur eftir mikinn frostavetur í Alberta fylki í Kanada. Nú reyna flóttamenn allt til að uppfylla lagaleg skilyrði og að hylja slóð sína sé hún ekki sannfærandi eða óheppileg saga afbrota. Fjöldi fljóttamanna hafa afar góðan málstað að verja en oft reynist þeim erfitt að afla gagna frá heimalandi sínu þar sem óeirðir geysa, stjórnleysi, fordómar, spilling og glæpir. Þetta er allt mjög svo vandasamt og mikilvægt að almenningur sé tilbúinn að styðja við málstað þeirra sem minna mega sín en verða samt að velja á milli og láta ekki glepjast af áróðri eða tilfinningaklámi sem reynt er að viðhafa um einstök mál.

Það er nefnilega þannig að við getum ekki tekið á móti öllum og munum alltaf þurfa að velja á milli. Regluverkið miðar við að velja þá sem eiga bágt og hafa ekki brotið af sér, vilja vel og gætu þurft að sæta ofbeldi í heimalandi sínu væru þeir sendir til baka. Vill pistlahöfundur leggja áherslu á að um þessar mundir ætti Útlendingastofnun að leggja sig í framkróka við að aðstoða flóttamenn, sem hingað flýja heimaland sitt vegna kynhneigðar sinnar, með að fá dvalarleyfi á Íslandi. Ísland á að vera skjól fyrir þannig fólk og annað vel meinandi og gott fólk.

Varðandi Sýrland skal áréttað að það er svo stórt verkefni ásamt Úkraínu að það er ESB að sjá um að hjálpa þar fólki fyrrum nýlendna aðildarríkja þeirra og landa sem og hafa sprottið upp og fallið m.a. vegna hugmyndafræði fædda á götum Berlínar, kaffihúsum Parísar og á börum Lundúnarborgar á árabilinu 1836 til 14. mars 1883 á meðan landar okkar flúðu sult og seyru á Íslandi til nýja heimsins.

Hverjir verða pólitískir flóttamenn framtíðar?

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur