Miðvikudagur 05.03.2014 - 12:28 - Lokað fyrir ummæli

Svartstakkar Got Talent

Dómarar Ísland Got Talent

Dómarar Ísland Got Talent

 

,,Got Talent“ keppnin er bresk uppgötvun hins þekkta X Factor dómara Simon Cowell sem hóf göngu sína árið 2005 í spjallþætti Paul O’Grady. Í Bandaríkjunum hóf þessi keppni göngu sína 21. júní 2006.

Nú hefur barnasálfræðingurinn Kolbrún Baldursdóttir, sbr. frétt úr DV, bent á að þátturinn, þar sem fyrrum menntamálaráðherra er dómari ásamt valinkunnu fólki úr samfélaginu, sé ekki beinlínis fyrir börn. Þarna er fyrrum menntamálaráðherra Íslands í dómarasæti þar sem börn eru, líkt og ódýr söluvara fjölmiðils, fengin til að skemmta og taka þátt í keppni með misjöfnum árangri, undir annað hvort harkalegri eða mildri dómgæslu fyrrum ráðherra menntamála og félaga hans. Telur sálfræðingurinn þetta varhugvert enda gæti ,,neiið“ valdið óþroskuðum börnum undir 18 ára aldri áfalli, óþarfa álagi og kvíða.

Fyrrverandi ráðherra menntamála og dómari ungra barna í ,,Got Talent“ á Íslandi ætti frekar að efla íslenska tungu sem dæmi, stærðfræðinám, samstarf atvinnulífs og skóla, læsi og ljóðalestur sé vísað í PISA  (stendur fyrir Programme for International Student Assessment) kannanir sem dómstól er dæmt hefur árangur ráðherrans fyrrverandi í starfi. Á þetta hefur Andreas Schleicher, yfirmaður PISA-kannana hjá OECD, bent.

Tilraunastarf í menntakerfinu síðustu ár með börn hefur fengið falleinkun. Íslenska menntakerfið, sem ráðherrann fyrrverandi hafði forystu um yfir árabil, gaf börnum og gefur enn hærri einkunnir en efni standa til og brottfall úr framhaldsskólum er mikið m.a. vegna áfalls og kvíða þegar börn standast ekki lengur prófin þegar á reynir.

Væri ekki betra fyrir íslensk börn að fá athygli stjórnmálamanna í stað þess að þeirri athygli sé allri beint til Brussel ár eftir ár eftir ár?

Nýlega var þessi fyrrum ráðherra fenginn í spjallþátt á RÚV. Þar dæmdi fyrrverandi ráðherra menntamála og dómari í skemmtiþætti, sem vekur ótta sálfræðinga á Íslandi í dag, fyrrum flokksmenn sína sem Svartstakka er hefðu yfirtekið Sjálfstæðisflokkinn. Á meðan þessi fyrrum ráðherra getur ekki gagnrýnt eigin gerðir og séð í hendi sér að dómgæsla hennar í dag yfir ómótuðum einstaklingum orkar tvímælis er ekki að undra að skólarnir, sem hún hafði yfirumsjón með fyrir Íslendinga um árabil, séu ekki að skila meiru í PISA könnunum.

Þess ber að geta að Bretar, sem eru upphafsmenn ,,Got Talent“ þáttanna, eru svo afhuga Evrópusambandinu að kanslari Þýskalands brá sér bæjarleið til Lundúna og ávarpaði breska þingið fyrst þýskra þjóðarleiðtoga frá því að Austur- og Vestur-Þýskaland voru sameinuð. Þar voru Evrópusambandsmálin efst á baugi því Bretar vilja nú flestir yfirgefa búrókratið í Brussel.

Í stórum og stæðilegum flokki takast öfl á um mikilvæg mál og hefur Sjálfstæðisflokkurinn oft þurft að stýra þjóð sinni út úr erfiðum aðstæðum og í þá átt sem hún hefur hingað til ratað góðu heilli. Eins og fram hefur komið með ítarlegum hætti er ætlunin að kjósa síðar um Evrópusambandsaðild (þ.e. þegar lokið hefur verið við stjórnarskrárbreytingar) en nú þurfum við að fara að kjósa um illa leikið menntakerfi sem skilar flestum börnum óundirbúnum og illa læsum undir próf í framhaldsskólakerfinu, þökk sé m.a. fyrrum ráðherrum þessa málaflokks á Íslandi.

Svartstakkar ,,Got Talent"

Svartstakkar ,,Got Talent“

Það er því augljóst að ,,Svartstakkar“ ,,Got Talent“ en ekki fyrrum menntamálaráðherra sem greinilega hefur fallið á PISA prófinu. Gefum börnum okkar tækifæri og bíðum með Evrópusambandsumræður í bili. Við þurfum að halda fókus og yfirgefa ESB umræðu sem yfirgnæft hefur pólitíska samræðu á Íslandi allt of lengi og tekið athyglina frá öðrum og brýnni verkefnum. Hér er ekki sagt að eigi að hætta umfjöllun um málefni Evrópu, síður en svo.

Við þurfum að huga að kjarnastarfsemi hins opinbera, þ.e. mennta- og heilbrigðismálum sem dæmi.

 

Flokkar: Menning og listir · Skólamál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur