Þriðjudagur 08.04.2014 - 22:43 - Lokað fyrir ummæli

Gröf óþekkta embættismannsins

Óþekkti embættismaðurinn - Listaverk eftir listamanninnn Magnús Tómasson

Óþekkti embættismaðurinn – Listaverk eftir listamanninnn Magnús Tómasson

Skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við ESB kom út í gær 7. apríl 2014 og var kynnt sérstaklega á Grand Hótel. Var skýrslan  unnin fyrir Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Skýrslan er 134 síður og flokkast í eftirfarandi aðalkafla:

  • Aðildarviðræður við ESB
  • Efnahags- og peningamál
  • Sjávarútvegsmál
  • Landbúnaðarmál
  • Staða og framtíð EES

Óhætt er að segja að mikil vinna hefur farið í þessa skýrslu og haldið í ferðir erlendis og þá sérstaklega til Brussel. Í 2. kafla skýrslunar er tekur á helstu niðurstöðum skýrslunar segir m.a.:

Háttsettur embættismaður hjá stækkunardeild ESB benti samt sem áður á að það væru fordæmi fyrir því að nýjar grundvallarreglur (f. acquis communautaire) væru skrifaðar inn í aðildarsamning til að leysa erfið mál í aðildarviðræðum. Um leið og aðildarsamningur tekur gildi verða allar sérlausnir sem hann tekur til hluti af grundvallarreglum ESB, sem ekki verður breytt nema með samþykki allra aðildarríkja. Að mati téðs embættismanns væri vel mögulegt að sníða lausnir sem skiluðu því sem Ísland sæktist eftir en færu ekki gegn grundvallarreglum ESB. Mótun slíkra sérlausna taki aftur á móti tíma í samningaviðræðum.

Fyrir utan það að segja lítið annað en það sem vitað er, þ.e. hvað ESB getur samið um varðandi undanþágur sem verða aldrei varanlegar, segir þessi klásúla í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands ekkert að ráði en eins öfugsnúið sem það kann að vera segir hún einnig allt sem segja þarf. Hér er vitnað í óþekkan embættismann í Brussel.  Gæti t.a.m. sá embættismaður, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands vitnar í, alveg eins hafa fallið frá fyrir mörgum árum enda innleggið sígilt og afar uppörvandi áhugasömum.

Það er löngu vitað að við getum fengið undanþágur en þær verða ekki varanlegar nema hugsanlega ef þær væru skýrt og skilmerkilega orðaðar eins og Dr. Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hefur nú áréttað með ítarlegri bók um sama viðfangsefni, þ.e. viðræður við ESB. Dæmi um slíkt yrði að við gætum hugsanlega fengið að tilgreina í samningi við ESB 200 mílna fiskveiðilögsögu enda afar skýrt og skiljanlegt. Þetta eru grundvallar réttindi strandríkja sem við Íslendingar unnum baki brotnu fyrir að fá samþykkt af samfélagi þjóðanna og börðumst fyrir fyrst þjóða og aðrir hermdu svo eftir áratugum þar á eftir með vísan í fræði er nefnast á enskri tungu ,,law of the sea“.

Það virðist engu skipta þegar um átrúnað er að ræða. Erfitt er að koma staðreyndum að þegar trúboðið er sterkt og vel fjármagnað. Hér gilda því sömu lögmál og innan trúarhreyfinga. Þar eru hinir heilögu ósnertanlegir, þeir verða óþekktar persónur og dulafullir leikendur. Fjarðlægðin gerir einnig fjöllin blá og mennina mikla. Kirkjan er stór og mikil með gríðarstóru hvolfþaki.

En hvert fara þeir allir, hermenn ESB?

Where have all the flowers gone…

Því er eina ráð þeirra sem vilja leita heimildarmanna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands að leita frekar uppi grafreiti í Brussel og spyrja hina föllnu hermenn ESB rétt eins og pistlahöfundur leitaði að gröf átrúnaðargoðsins Jim Morrisson og fann í Père Lachaise kirkjugarðinum í París. Í kirkjugörðum og við minningarreiti fær maður aðeins eitt svar. Það svar er skýrt og skilmerkilegt sem enginn dregur í efa óháð trúarhreyfingum, stjórnmálaskoðunum og gang himintungla.

Munurinn á milli pílagrímaferðanna væri líklega sá að átrúnaðargoð ESB-sinna yrði líklega að finna í gröf óþekkta embættismannsins í Brussel rétt eins og finna má minnismerki óþekkta hermannsins í Moksvu rétt fyrir utan dyrnar að Kreml.

Það er mjög svipað sem báðir þessir óþekktu hermenn höfðu barist fyrir og lögðu margt í sölurnar svo ná mætti að miðstýra sem mestu af eins mörgum og kostur var. En hverju mun það skila?

Almennt má segja að lestur úttektar Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands var fróðlegur en minnti reyndar óneitanlega á draugasögur Jóns Árnasonar.

Gamalt efni en sígilt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur