Þriðjudagur 15.04.2014 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Eiginfjárkrafa ESB

Hertar eiginfjárkröfur ESB á fjármálastofnanir - Klippt út úr Morgunblaðinu 15. apríl 2014

Hertar eiginfjárkröfur ESB á fjármálastofnanir – Klippt út úr Morgunblaðinu 15. apríl 2014

Það er greinilega orðið vandlifað bæði innan og utan Evrópusambandsins (ESB) fyrir evrópusambandssinna sem hafa áttað sig á því að smærri fyrirtæki, eins og fjármálafyrirtæki, geta varla vaxið né dafnað með sífellt hertari tilskipunum frá Brussel. Þetta er því orðið talsvert flóknara og yfirgripsmeira en Lovsamling for Island sem safnað var saman að frumkvæði Jóns forseta á síðari hluta 19. aldar. Á síðum Morgunblaðsins í dag, 15. apríl 2014, er bent á að stjórnarformaður MP banka telji að tilskipanir ESB séu innleiddar helst til of hratt hér á Íslandi um þessar mundir.

Í dag er lögbundið að fjármálafyrirtæki beri að hafa 8% eiginfjár á reikningum sínum og óheimilt er að fara undir það hlutfall ella gæti slíku fyrirtæki að öðrum kosti verið lokað af Fjármálaeftirlitinu (FME). Bent skal á að pistahöfundur gagnrýndi FME og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra (þ.e. fyrri ríkisstjórnar) þegar þeir voru komnir í 16% er benti til þess að þeir ætluðu að ganga alveg frá skuldurum þessa lands og ná bæði gulli og silfri úr tönnum landans rétt eftir hrun. FME og fyrri ríkisstjórn urðu afturreka með þessi áform sín enda voru þau alveg út í hött á þeim tíma sem algjörlega var óljóst hvers virði eignasöfn bankakerfisins var í miðjum dómsmálum um vafasamar lánveitingar fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Hér skal áréttað að FME getur gert ríkari kröfur um hlutfall eigin fjár fjármálafyrirtækja en að framan greinir.

Það er svigrúm sem FME hefur í þessu efni en  innleiðing tilskipunarinnar hækkar lágmarkið lögum samkvæmt sem eykur kröfur um fjárhagslegan styrk sem og leiðir vissulega til kostnaðar sem af því hlýst sem stjórnarformaður MP banka hefur bent réttilega á. Hér fer FME eftir svonefndu SREP-ferli við mat sitt en ef tilskipun ESB nær fram að ganga gæti eiginfjárhlutfall minni fjármálafyrirtækja þurft að vera allt að 20% þó svo að ferli FME mæli það minna.

Fyrir liggur frumvarp á Alþingi Íslendinga um að auka á kröfu um eigið fé í fjármálafyrirtækjum um allt að 2,5% og þá í 10,5% í stað 8%. Þetta er gert m.t.t. til tilskipanna frá ESB sem stjórnarformaður MP banka vildi semja sig undir og hefur staðið fremstur í flokki við að mæra og móta framtíðarsýn heillar þjóðar út frá Kögunarhól, einum lægsta sjónarhól á Suðurlandi. Má ætla að Ingólfur Arnarsson, sem flúði útlegðardóm í Noregi, hefði valið sér betri stað til að líta yfir landið sem hann hafði nýlega numið enda við hann kennt Ingólfsfjall fremur en Kögunarhóll.

Þetta er reyndar skiljanleg krafa frá ESB í ljósi stöðu efnahagsmála þar og líkur eru á að kröfur þar séu háværar um að bankar þar sameinist og verði sterkari. En hentar þetta íslenskum fyrirtækjum og íslenskum aðstæðum? Þetta eykur a.m.k.líkur á að þýskir, franskir og breskir bankar geti tekið upp með ,,kíttispaða“ og hirt ódýrt portúgalska, spænska, gríska, kýpverska ofl. banka á næstu árum eða allt til ársins 2019 þegar búið verður, skv. skilyrðum ESB, að innleiða alla eiginfjáraukana í löggjöf þeirra ríkja sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Það sem þetta þýðir er að bankakerfið þarf að gera hærri ávöxtunarkröfu á rekstur sinn í heildina. Vegin meðalávöxtun (e. weighted average cost of capital – WACC) fjármálafyrirtækja mun því hækka almennt enda er ávöxtunarkrafa eigin fjár hærri en lánsfjár. Þetta þýðir því að bankar verði að sækja meira fé til viðskiptavina sinna svo þeir geti dekkað þennan kostnað. Það gerist með hærra vaxtaálagi, hærri þóknunum osfrv. Tekjumótel stærri banka er talsvert víðtækara og eiga þeir auðveldara með að klípa hér og þar af viðskiptavinum sínum heldur en minni fjármálastofnanir. Því munu bankar eins og MP banki, eins ágætur og hann er og nauðsynlegur í flóru fjármálafyrirtækja á Íslandi, ekki geta keppt við stærri fjármálastofnanir á sama grunni og áður.

Þessi aðgerð ESB er því ekki klæðskrerasaumuð að smærri fjármálafyrirtækjum en það sem þau geta hins vegar gert er að aðgreina sig á markaðnum en slíkt er erfitt á Íslandi sem er lítill markaður og þröngur. Rétt eins og gerðist hjá stóru bönkunum, þegar Dr. Gylfi Magnússon, þá efnahags- og viðskiptaráðherra, ætlaði að hækka eiginfjárhlutfallið í 16% en var afturreka með það (a.m.k. um tíma og kom svo aftur með það fyrir stóru bankana þegar mátti sjá að þeir þoldu það) því að lánasöfn bankana rýrnuðu enda rangt reiknuð sbr. dómsmál, kemur í ljós nú að hið sama er uppi á teningnum hjá MP banka. Lánasafnið reyndist ekki eins gott og menn ætluðu. Eina ráðið við þessu þegar krafan um eigið fé eykst er að auka eigið fé (selja nýja hluti í bankanum) eða selja eignir en ekki biðja þingheim að hætta við lagasetninu til að uppfylla skilyrði skv. tilskipunum frá ESB, eða hvað?

Stjórnarformaður MP banka virðist hafa vaknað af vondum draumi sé litið til yfirlýsingar hans á aðalfundi MP banka nýlega. Væri því ekki ráð að samið yrði frekar við ESB um að við fengjum hægari aðlögun að EES svæðinu í stað þess að við förum í hraðari aðlögun að ESB?

Hvaða skilaboð er verið að senda með þessum tilskipunum frá Brussel til smærri og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi sem og vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi?

Það er greinilega vandlifað í þessum heimi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur