Mánudagur 21.04.2014 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Fótboltinn og Nýji Flokkurinn

5 leikir - 0 unnir og enn kenna þeir dómaranum um ófarirnar

5 leikir – 0 unnir og enn kenna þeir dómaranum um ófarirnar

Nýjar og mátulega staðfestar heimildir DV herma að búið sé að stofna dulda fésbókarsíðu ,,Nýja Sjálfstæðisflokksins“. Aðrar heimildir herma að aðstandendum framboðsins hafi áskotnast fjölda meðlima í kjölfar hrakfara Manchester United í meistaradeildinni í fótbolta á Englandi. Áhugi Manchester United stuðningsmanna á fótbolta dvínar ört á meðan sagt sé að fylgi hins nýja flokks vaxi ómælt. Þar sem einhverjir áhangendur Manchester United á Íslandi hafa orðið fremur lítið að gera þessa stundina hefur hluta af þessum ofur-virka hóp tekist að sameinast undir merkjum hins ,,Nýja Sjálfstæðisflokks“.

Það er þekkt úr knattspyrnunni að félög á Englandi hafa náð umtalsverðum árangri eftir gríðarlega innspýtingu fjármagns frá Rússlandi, arabaheiminum og svo Asíu. Hefur þetta fé verið notað til að kaupa bæði leikmenn og áhangendur sem eru orðnir ótrúlega margir á Íslandi. Það sem vekur athygli í knattspyrnuheiminum er að samhliða því að bestu félagslið heims séu á Englandi gengur landsliði Englendinga skelfilega.

Eins og flestir vita hefur mannskapurinn, sem skipar forystusveit ,,Nýja Sjálfstæðisflokksins“, á að skipa mönnum sem vilja ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur eytt umtalsverðu fé til að markaðssetja sig á Íslandi svo árum skiptir. Gekk Evrópusambandið lengra en félagsliðið Manchester United og setti yfir landið sendiherra. Leiða má líkum að því að það hafi verið gert m.a. vegna þess að skattlagningavald aðildarríkjanna gerir það að verkum að pumpa má mun meira fé út úr skattborgurum ESB ríkjanna til að fjármagna slíka útrás en Manchester United gat gert þegar kom að miðasölu og auglýsingum til áhangenda sinna.

Það er einnig vel þekkt að Evrópusambandið er búið að styrkja fjölda listafólks, fræðimanna og stuðlað að margvíslegum verkefnum hér á landi til að auglýsa sambandið m.a. á meðal embættismanna og blaðamanna. Sumir höfnuðu þessum fjármunum á meðan aðrir þáðu.

Sama gerðist þegar gekk vel hjá Manchester United. Það fór allskonar fólk að styðja þetta sögufræga lið þegar vel gekk og það er eðlilegt enda fær það lið sem hefur bestu leikmenn vallarins mestu athyglina og vinnur flesta leikina. Þá þurfti reyndar fjármagn til, ötula og fjáða stuðningsmenn og skipti oft litlu hvaðan þeir komu og hverjir þeir voru.

Nú gengur Manchester United illa eins og Evrópusambandinu. Því eru sterkar líkur á að þessi öfl geti sameinast enda þar að finna fjölmarga dugmikla einstaklinga sem geta fengið til sín fjölda fólks sé eitt og aðeins eitt tryggt en það er fjármagn. Svo þarf að fara að velja leikmenn sem geta unnið leiki og skorað mörk. Möguleiki er því á að þessi ,,Nýji Sjálfstæðisflokkur“ geti náð í úrvalsdeildina fyrr eða síðar.

Spurningin er samt sú hvort dómaranum verði kennt um gangi þeim ekki vel.

Áfram Liverpool !

Flokkar: Íþróttir · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur