Miðvikudagur 30.12.2015 - 12:15 - Lokað fyrir ummæli

Árið 2016

Hugleiðing

Um leið og pistlahöfundur óskar lesendum gleðilegrar hátíðar, árs og friðar er rétt að minnast á það hvernig nýtt ár 2016 ætti að vera í hugum okkar. Árið 2015 var uppfullt af öllu því sem flest ár hafa innifalið í því viðamikla plássi sem tími og rúm gefur okkur. Árið 2016 tekur við og annar tími rennur upp. Sumu getum við stjórnað en öðru ekki. Við eigum að leggja áherslu á að gera okkar nánustu hamingjusama og veita náunganum aðstoð þetta ár rétt eins og öll árin þar á undan. Við eigum að sýna skilning og samkennd.

Við eigum í Guðs friði að sýna öðrum trúarbrögðum og þeim sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða vantrú skilning og taka því fagnandi að fjölbreytt samfélag fái hér að dafna og þroskast til framtíðar. Samhliða hinu andlega verðum við að gæta að hinu veraldlega með því að halda Íslandi í byggð, gæta að því að rafmagn fari ekki af vegna lélegs viðhalds rafstrengja, við eigum að halda við húsum og vegum og varast að hækka vexti um of í litlu hagkerfi þar sem þenslan er á einum stað en vaxtatjónið verður á öðrum stað þar sem engin er þenslan. Við verðum að gæta að því að nota ekki stórtæk vinnutæki heimshagkerfisins í viðkvæmu hagkerfi okkar á Íslandi. Samhliða eigum við ekki að leika stórþjóð heldur vera stórhuga og marka okkur stefnu meðal allra þjóða heims sem við eigum viðskipti við, reyna að skilja þeirra erfiðleika, þeirra baráttu en láta vera að setjast í dómarasæti nema þegar brýtur á og alvarleg mál eiga við.

Hver einstaklingur á rétt á að lifa og njóta hamingjunnar. Hið sama á um fanga sem hafa hlotið dóm. Látum þá taka út sinn tíma lögum samkvæmt og hættum að refsa fólki félagslega hvort heldur það sé selt undir sök eða sé það saklaust.

Höldum friðinn eins og kostur er. Virðum lífið og dauðann eins og þetta líf hefur boðað okkur enda er dauðinn lífsnauðsynlegur. Þannig er náttúran sem okkur ber skylda standa vörð um en einnig nýta af kostgæfni og varúð.

Njótið heil og verði 2016 ykkur gott og gæfuríkt ár.

Flokkar: Heimspeki

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur