Sunnudagur 17.04.2016 - 19:47 - Lokað fyrir ummæli

Skrattakollar VG og Samfylkingarinnar

Það allra versta sem getur komið fyrir stjórnmálamann er þegar hann er uppvís af ósannsögli eða hræsni. Sama á við um fréttamenn og reyndar hvern sem er í raun og sann.

RÚV er nú að böglast við að klóra í bakkann eftir að hafa snúið fjölmörgum Íslendingum á haus og skapað mikla úlfúð um bæði stjórnarskrá landsins og Alþingi, stjórn landsins og svo auðvitað staðið vörð um e.k. ,,skrattaskjól“. Hefur þetta ríkisrekna opinbera hlutafélag orðið uppvíst að því að segja ósannar fréttir, vélað menn til að leggjast á höggstokk í boði verktaka sem virðast hafa lítið vit á viðfangsefni sínu rétt eins og þeir sem rífa gömul og vernduð hús í viðkvæmu umhverfi.

Þarna starfa viðvaningar innan um annars margt ágætis sárasaklaust starfsfólk sem fær á sig blóðsletturnar við atganginn. Það getur orðið ansi subbulegt og sérstaklega þegar margir kóngar eru vegnir í einu. Því virðist sem sérhæfingin hafi leitt til þess að taka bara einn í einu. Maður þekkti þetta úr vinnunni í blóðinu í sláturhúsinu á Hellu í Rangarþingi hér um árið.

Óbragð í munni

Fyrrum ráðherra VG í síðustu vinstri stjórn Íslands, núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar og vonbiðill til formanns þeirrar fylkingar sem og sá er nú vill kljúfa Samfylkinguna og búa til glænýja breiðfylkingu með fundum í Iðnó en er samt í framboði til formanns hafa tekið beinan þátt í að skattaskjól séu notuð af Íslendingum. Þau hafa ,,vélað“ íslensk fyrirtæki í skattaskjól sjálf og það með eins lögmætum hætti og kostur er. Varla telst það glæpur nema fyrir þær sakir að þau hafa nú verið að segja að þetta sé allt glæpur.

Í síðasta pistli mínum er fjallað um að í mars 2013 hafi Samfylkingin og VG sporðrennt frumvarpi til laga um lágskattasvæði, þ.e. það sem þau kalla mörg í dag skattaskjól. Þar var allt gert heimilt samkvæmt þeim lögum sem VG og Samfylkingin mælti fyrir, lagði fram og afgreiddi með ,,stæl“.

stjorn_lv_2003

Úrklippa úr ársskýrslu Landsvirkjunar frá árinu 2003

Nú er svo komið að makar sumra þessara snillinga hafa afneitað sjálfum sér varðandi stofnun og umsýslu með félög í skattaskjólum og eru fulltrúar VG og Samfylkingarinnar á þingi og utan þess á útopnu að þvo hendur sínar af skattaskjólum sem nú eru sögð rót alls ills. Líklega er heppnin að einhverju hluta með þeim þar sem fjöldi vinstri manna eru nánast ef ekki algjörlega trúlausir og geta því vænst þess að lenda ekki í helvíti þökk sé þeirrar stefnu sem tekin var snemma á uppvaxtarárunum og ríghaldið er í undir öðrum merkjum.

Hins vegar fer ekki óbragðið og það mun lengi dafna eftir þann kæsta framburð sem þessir aðilar hafa haft um menn og málefni á undanförnum misserum.

Stjórn Landsvirkjunnar stofnaði félag í ,,skattaskjóli“

Eins og pistlahöfundur hefur oftar en ekki bent á er ekkert að því að fólk og félög leiti allra leiða til að fá eitthvað ódýrt en öruggt sé slíkt löglegt og tryggt. Landsvirkjun vill hagræða eins og önnur virt félög hér á landi og víða um heim án þess að fara á skjön við lög eða reglur enda starfa þar vel meinandi menn og konur. Sú skilvirkni felst meðal annars í því að stofna félag sem næst virkum tryggingamarkaði til þess að spara og hagræða, leita leiða til að skattfé fari ekki í annars of dýr tryggingafélög sem við erum öll sjálf að amast út í hér heima.

tryggingafelag-bermuda-lv

Úrklippa úr ársskýslu Landsvikjunar frá 2003 – Upplýsingar um stofnun trygginafélags á Bermuda

Bermuda varð fyrir valinu vegna þess að hagsýnir menn innan vébanda Landsvirkjunar voru að vinna heiðarlega og af kostgæfni fyrir skattgreiðendur á Íslandi. Markmiðið var að spara og gæta samt að því að skila því til skattsins sem honum bar og gott betur en það.

Hins vegar voru þarna innanbúðar í stjórn þessa annars ágæta félags aðilar sem eru landsþekktir fyrir hræsni ef ekki lygi. Hver man ekki eftir því þegar SÍA skjölin voru birt en þar var að finna skjöl og skýrslur námsmanna í hinni sósíalísku Austur Evrópu t.a.m. A-Berlín. Þar rituðu þeir niður sannleikan um eymdina en þegar þeir ávörpuðu land og þjóð hér heima lugu þeir flesta fulla. Í þessu efni má í sama mund ryfja upp Svavarssamningana varðandi ICESAVE enda hangir lygin saman á slefberunum og slúðurdrottningunum. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Pistlahöfundur biður RÚV vinsamlegast að hætta að verja þessi ,,skrattaskjól“ þar sem skrattakollar VG og Samfylkingarinnar fela sig og kalla þá fram í sviðsljósið til að svara fyrir þetta brölt sitt. Svo virðist sem að sumir séu komnir í dágóða sláturstærð og gætu hentað vel fyrir Kastljósið.

Stöndum vörð um traustið og trú á fólkið okkar en gerum sanngjarnar kröfur. Höfnum ósannindum og sammælumst um það í hvaða flokki sem við erum.

Lifið heil.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur