Sunnudagur 08.05.2016 - 09:05 - Lokað fyrir ummæli

Forseti Íslands

Þann 20. júní næstkomandi verða haldnar forsetakosningar. Á síðustu árum hefur embættið þróast hraðar en fyrstu áratugina frá stofnun lýðveldisins. Núverandi forseti, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, hefur virkjað ákvæði stjórnarskrár Íslands þar sem tekur á því að forseta er heimilt að neita því að staðfesta lög frá Alþingi með undirritun sinni. Þrátt fyrir að lögin taki engu að síður gildi virkjar forseti ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar með neitun sinni þar sem þess er getið að lögin skulu borin undir þjóðaratkvæði til samþykkis eða synjunar.

Þetta vald forseta hafði ekki verið vikjað þar til að hr. Ólafur Ragnar Grímsson gerði það með því að neita að skrifa undir ný fjölmiðlalög árið 2004. Voru þau borin undir þjóðina og þeim hafnað. Sama gerði hann varðandi lög um ICESAVE samninga í tvígang. Fyrst varðaði það lög nr. 1/2010 og síðar lög nr. 13/2011.

Reynslan og styrkurinn

Þrátt fyrir fremur alþýðlega og ágæta forseta frá stofnun lýðveldisins er ljóst að hr. Ólafur Ragnar Grímsson var sá eini og sá fyrsti sem valdi þá leið að treysta þjóð sinni til ákvarðanna. Jafnframt lagði hann eigið embætti á vogarskálarnar og treysti á að þjóðin myndi kjósa rétt. Það er flestra mat að það hafi hún gert.

Því er ekki fyrirséð að aðrir meðframbjóðendur hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar og yfirgripsmikið sjálfstraust, muni gera slíkt hið sama á réttu augnarblikinu, með innsýn í stöðu mála byggða á reynslu víða að úr stjórnkerfi landsins.

Þetta snýr að áhættu, pólitískri áhættu þegar ríður á og komið er að ögurstundu. Þá reynir á þolrifin í fólki og sá einstaklingur sem verður fyrir valinu sem forseti Íslands verður að geta staðið undir áreiti, árásum og undirmálum nákvæmlega á þeim tímapunkti sem á reynir. Það reynir á í ólgusjó.

Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson hefur sýnt og sannað að hann býr yfir þeirri getu sem til þarf, styrk, reynslu og áræði. Hér er þetta fullyrt að öðrum meðframbjóðendum hans ólöstuðum. Nú hefur hr. Davíð Oddsson gefið kost á sér og er þar kominn sterkur aðili sem hefur mikla yfirburði umfram aðra frambjóðendur til embættisins.

Það hafa því aðrir einnig mikla reynslu og hafa nú nýlega komið fram sem geta sómað sér vel í embætti forseta Íslands.

Þingræðið og misnotkun forsetavalds

Yfirboð um þessar mundir virðast ansi algengi. Fjölmargar kosningar eru framundan. Það er verið að skipta um forystusveit í Samfylkingunni, kosningar til Alþingis framundan auk þess að vænta megi að skipt verði um formann í Framsóknarflokknum.

Frá stofnun lýðveldisins hefur íslensk þjóð þurft að þola mikla vaxtaverki þar sem hún hefur þotið beinlínis úr örbyrgð yfir í alsnægtir. Hins vegar hefur þetta ferli ekki tekið það stuttan tíma að ungt fólk í dag þekki söguna vel hvað varðar ömurleikan hér á árunum í upphafi 20. aldarinnar. Eldra fólkið man þá tíð og þeir sem betur eru lesnir en margur annar.

Sagnfræðin er lykill að þekkingu um liðna tíð. Hluti sagnfræðinnar metur einnig hagvöxt og áhrif efnahagslífs á velferð þjóðar. Þar mætast fræðigreinar á við sagnfræði, stjórnmálafræði og hagfræði. Allar þessar fræðigreinar hafa fullyrt að það hafi skipt máli hverjir hafi stjórnað Íslandi þegar á reyndi og mótmælt var við Alþingi t.a.m. árið 1949 þegar Íslands gerðist stofnaðili að mesta friðarbandalagi heims, NATO.

Einstakir meðframbjóðendur hr. Ólafs Ragnars Grímssonar hafa stokkið á vagn mótmælenda og reynt að ríða óánægjuöldurnar inn í embætti forseta Íslands og reyna það enn. Þrátt fyrir að hr. Ólafur Ragnar Grímsson hafi tekið þátt í mótmælagöngum til Keflavíkur hefur hann séð hvað máli skiptir fyrir þessa þjóð. Þó að hann hafi ekki gengið alla leið heldur tekið leigubifreið til Reykjavíkur má víst vera að gangan og ræðan hafi komið sér vel fyrir vinstri menn á þeim tímapunkti.

Það er ekki aðeins eitt mál sem mestu máli skiptir heldur fjölmörg mál og flókið samspil hverju sinni. Hins vegar stendur uppúr að það hefur einmitt verið styrkur þingræðisins sem valdið hefur því hve vel okkur hefur gengið frá stofnun lýðveldsisins og síðustu áratugina fyrir hrun hagkerfisins árið 2008 þegar kerfið brást á mörgum sviðum.

Það var svo öryggisventill stjórnarskrárinnar sem virkjaður var í tvígang vegna ICESAVE sem er undantekningin frá reglunni. Það gerði hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Það er fyrir hans tilstuðlan að Íslendingar eru ekki skuldum vafnir í dag. Það skiptir orðið mun meira máli hver situr í þessu embætti í dag. Það er orðið valdameira en áður var.

Annar aðili sem miklu máli skipti á ögurstundu fyrir heimilin í landinu var hr. Davíð Oddsson en það var undir hans ríkisstjórn sem lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu voru sett og slóu síðar skjaldborg um heimilin sbr. dóm Hæstaréttar í svokölluðum gengistryggðu lánum árið 2010 og síðar.

Það að sumir meðframbjóðendur hr. Ólafs Ragnars Grímssonar séu nú með yfirboð um að ætla að senda hitt og þetta málið í þjóðaratkvæði er ávísun á pólitískan óstöðugleika á Íslandi sem mun hafa áhrif m.a. á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, lánshæfismat Íslands og áhuga erlendra aðila á því að fjárfesta á Íslandi. Mikilvægt er að frambjóðendur til forseta Íslands geri sér nú grein fyrir því að þeir verða aldrei hr. Ólafur Ragnar Grímsson nema aðeins einn og það er hann sjálfur. Svo eru aðrir sem hafa ekki áhuga á því að líkjast honum á nokkurn hátt og geta gert betur. Fullyrða má að hr. Davíð Oddson er sá maður.

Aðrir verða að bjóða eitthvað nýtt, eitthvað annað sem þeir hafa ekki gert til þessa. Aðeins er um innihaldslaus yfirboð að ræða með vísan í það sem hr. Ólafur Ragnar gerði best.

Sáttin, samkeppnishæfni þjóðar og Davíð Oddsson

Á sama tíma og RÚV reynir að rjúfa sáttina í samfélaginu með undirmálum í öllum sínum miðlum og af margvíslegum toga er þjóðinni mikilvægt að ná sátt við sjálfa sig og aðra erlendis. Það er ekki gert með því að forsetaframbjóðendur lofi nú að senda hvert og eitt mál sem kemur frá Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu eða að lofa því að vera betri en sá síðasti í embætti. Það verður mjög erfitt, þ.e. að verða betri kostur en hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Þó má ætla að einstaklingur eins og hr. Davíð Oddsson muni vera mun betri kostur en hr. Ólafur Ragnar.

Sáttin næst með því að byggja aftur upp styrk þingræðisins og koma því í fyrra horf ásamt því að byggja upp traust á Alþingi Íslendinga. Auk þess verður að tryggja að fjármálakerfið fari að haga sér betur á markaði og fái löggjöf sem á við fyrirtæki í samkeppnisrekstri en ekki niðurgreidda löggjöf sem er aðeins eitt form niðurgreiðslu frá hinu opinbera.

Sátt við þessa þjóð er fólgin í því að hún sjálf horfi í eigin barm og meti það hvort hún sjálf sé að haga sér eins og best verður á kosið. Hver hefur tekið við fjármunum án greiðslu skatts og hver hefur unnið án þess að gefa slíkt upp til skatts? Lengi má böl bæta. Öfundargenið er sterkt í Íslendingum en það má ekki verða til þess að gera landið ósamkeppnishæft enda verða fjármunir að hafa frelsi hér á landi ella koma þeir ekki til landsins til uppbyggingar. Ekki viljum við að fjármunir forðist Ísland eins og heitan eldin í iðrum jarðar. Við höfum ekki efni á því. Þetta verður þjóðin að skilja og átta sig á mikilvægi þess að skattar séu ekki óhóflegir heldur skili sér lögum samkvæmt.

Þar má nefna samkeppnishæfni íslensku þjóðarinnar til lengri tíma. Í menntakerfinu er Ísland ekki að standa sig vel og PISA rannsóknir sýna að þessi þjóð verður ekki samkeppnishæf á næstu áratugum verði ekkert að gert. Án læsis og lesskilnings koma sagnfræðingar að litlu gagni eða stjórnmálamenn framtíðarinnar. Það fækkar þeim sem skilja þá.

Í fjármálakerfinu er ljóst að engin samkeppni ríkir og í umræðu dagsins í dag er gert lítið úr ríkjum sem eru með lága skatta. Gleymum því ekki, við þau sem erum ósatt við ofurskatta vinstri stjórna í gegnum tíðina, að það eru einmitt lágskattasvæðin sem er eina aðhaldið gagnvart skattavinum ríkisstjórna hverju sinni. Ef þeirra nýtur ekki geta komið hér til valda stjórnvöld sem telja sig geta hækkað skatta út í það óendanlega og byggt upp kommúnisma af nýrri gráðu og verri.

Sáttin verður einnig að byggja á því að þjóðin fái vitneskju um efni máls hið fyrsta en ekki að legið sé á upplýsingum til að skapa ótta, ógn og upplausn sbr. Panamskjölin sem fréttahaukar fjórða valdsins hafa geymt og mjatlað út eftir eigin hag. Það lítur út fyrir að þar verði bætt úr á næstunni og vonandi skilur fólk betur hvað þetta gengur allt út á. Einnig er möguleiki á því að misskilningurinn verði lesskilningnum yfirsterkari.

Hvern á að kjósa og kosningamál

Þrátt fyrir að margir meðframbjóðendur hr. Ólafs Ragnars Grímssonar séu afar mætir einstaklingar og hafa komið víða við stendur forseti Íslands mörgum þeirra framar hvað reynslu varðar. Sagnfræðin getur staðfest það. Hins vegar hefur framboð hr. Davíðs Oddssonar breytt stöðunni umtalsvert og ber að fagna því.

Helsta kosningamál til embættis forseta Íslands á að varða aukin lesskilningi barna á Íslandi til framtíðar og stöðugleika í stjórnmálum.

Börnin í dag er sú kynslóð sem tekur við landinu og ef hún kann ekki að lesa sér til gagns versnar hagur lands og þjóðar til lengri tíma samhliða óstöðugleika í stjórnmálum. Menntakerfið virðist ekki skila vel læsum börnum með lesskilningi á við það sem best gerist hjá nágrönnum okkar. Börnunum þessa lands eigum við að bjóða það besta. Það er ámælisvert og mjög alvarlegt hvernig þessi mál eru að þróast. Öflugar kynslóðir barna og ungs fólks gefa okkur þó vonir um framtíð lands og þjóðar.

Ef fram heldur sem horfir og heilu kynslóðirnar kunna ekki að lesa sér til gagns virkjum við ekki lýðræðið heldur ógnum við tilvist þess, stöðugleika og virkni.

Það á að gæta að náttúru lands og þjóðar, menningu og tryggja að stjórnskipun landsins verði ekki bylt. Samhliða verður þjóðin að gæta að komandi kynslóðum, gæta að því að verða ekki sjálfhverf og eigingjörn til handa eigin kynslóð hverju sinni. Það verður að horfa á heildarmyndina og virkni samfélags með vel meinandi þegnum í sátt við sjálfa sig og aðra.

Pistlahöfundur treystir þjóð sinni að velja hið eina rétta og mun vissulega sættast á þá niðustöðu sem þjóðin tekur að lokum. Margt má bæta en það er óþarfi að bylta.

Pistlahöfundur mun greiða hr. Davíð Oddsyni sitt atkvæði enda er hann hæfastur allra þeirra sem eru nú í framboði til embættis forseta Íslands.

 

 

Ó, fögur er vor fósturjörð
Ó, fögur er vor fósturjörð

um fríða sumardaga,

er laufin grænu litka börð,

og leikur hjörð í haga;

En dalur lyftir blárri brún

mót blíðum sólarloga,

og glitrar flötur glóir tún

og gyllir sunna voga.

 

Og vegleg jörð vor áa er

með ísi þakta tinda.

Um heiðrík kvöld að höfði sér

nær hnýtir gullna linda

og logagneistum stjörnur strá

um strindi hulið svellum,

en hoppa álfar hjarni á,

svo heyrist duna í fellum.

 

Þú fóstur jörðin fríð og kær,

sem feðra hlúir beinum,

og lífi ungu frjóvi fær

hjá fornum bautasteinum.

Ó, blessuð vertu fagra fold

og fjöldi þinna barna,

á meðan gróa grös í mold

og glóir nokkur stjarna.

Höfundur texta:
Jón Thoroddsen
Ort:  1933

Flokkar: Menning og listir · Sagnfræði · Skólamál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur