Miðvikudagur 11.05.2016 - 22:26 - Lokað fyrir ummæli

Húrra fyrir Davíð

Um þessar mundir flækist um netheima myndband þar sem Davíð Oddsson hrósar feðgum sem komu til Íslands og keyptu Landsbanka Íslands á sínum tíma, þ.e. árið 2002. Upp spruttu öfundarmenn og margir vildu helst vilja meina að þessum banka væri betur borgið í höndum hins opinbera.

Engu að síður höfðu dæmin sannað að ríkið væri skelfilegur eigandi banka þar sem víxlahólfin í Alþingihúsinu voru orðin fleiri en pósthólf þingmanna sem skrifuðu stöðugt uppá víxla fyrir bændur og búalið utan af landi. Þeir víxlar féllu sjaldan. Viljum við í þessa ríkisvæðingu enn á ný?

Sama á við um RÚV. Þar er stöðugt verið að taka yfirdrátt á reikning skattgreiðenda og hvert horn fullt af góðu fólki í bland við óskaplega undarlegt lið sem skilur ekki orðið ,,umboðsvandi“. Því miður eru þarna mætir einstaklingar sem verða fyrir barðinu á baknaginu, undirmálunum og innbyggðu hatursmynstri sem lesa má nánast í gegnum alla dagskrá RÚV. Þar hefur Stundin okkar ekki verið undanskilin.

Myndbandið

Þó að menn fagni á stundu geta koma aðrar stundir þar sem mönnum snýst hugur. Leita má í margar sagnir um slíkt og eitt gott dæmi er þegar flokksmenn Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og svo Framsóknarflokksins flykktu sér um framboð Ólafs Ragnars Grímssonar núverandi forseta þegar hann bauð sig fyrst fram árið 1996.

Samantekt forsetakosninga 1996 (Heimild: Stjórnmál & Stjórnsýsla)

Samantekt forsetakosninga 1996 (Heimild: Stjórnmál & Stjórnsýsla)

Rétt eins og þessi fjöldi vinstri manna snérist hugur um annars góðan forseta snérist Davíð hugur varðandi umstang Landsbanka Íslands og eigenda hans. Það var ekkert persónulegt eins og varðandi Ólaf Ragnar og gömlu fylgismanna hans í kommastétt og öðrum öngum vinstri manna. Þetta efnahagslegt og grafalvarlegt. Menn gengu fram af sér, lánuðu úr hófi og svo grimmt að stýritæki Seðlabanka Íslands náðu ekki að bíta.

Davíð sagði eftirfarandi í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007

Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar. Við vitum að víða er uppgangur okkar lofti blandaður. Við því er ekkert að segja og það er eðlilegt að þættir eins og óefnislegar eignir séu fyrirferðarmiklar á uppgangstímum þegar vel gengur, en þegar á móti blæs og harðnar á dal, þarf aðeins lítið gat til að loftið leki úr slíkum eignum. Þar er því einnig aðgæslu þörf.

Ræða þessi er bæði innihaldsrík og beinlínis beinskeitt gagnvart öllum sem þá áttu í hlut og störfuðu í bankageiranum. Menn sem ræðunni dreifðu á þessum tíma áttu á hættu að vera reknir úr vinnu. Þannig var nú andrúmsloftið á þessum tímum.

Pistlahöfundur hafði um sumarið 2007 birt grein í Morgunblaðinu sem lauk með þessum orðum:

Ef krónan fellur nú rýrna eignir allra í verði á heimsmarkaði, óstöðugleiki verður viðvarandi, áhætta eykst og fjárfestar forðast landið eða a.m.k. myntina öllum til mikillar skelfingar.

Það þarf enginn að segja pistlahöfundi og honum Davíð blessuðum að við höfðum ekki varað við þessu fjárans rugli. Megnið af listaelítunni var komin inní peningaelítuna og listamenn seldu orðið ómáluð málverk, sódóma gómara gekk vonum framar og flestir sigldu að feigðarósi fagnandi dýrðinni.

Þvílíkt vitleysa, þvílík upphafning og þvílík sögufölsun !

Því er birting þessa myndbands ekki að lýsa viðhorfum Davíðs nema á þeim tímapunkti þegar hann gladdist að menn hefðu keypt bankann eftir einkavæðingu sem var þó greitt fyrir. Það er annað en þegar vinstri stjórnin gaf bankana kröfuhöfum og hundelti almenning svo þar á eftir eins og vel þjálfaðir veiðihundar.

Minnið skekkt – Sagan brengluð af sagnfræðing

Er ekki í lagi að mönnum snúist hugur en því miður eru ekki til gömul fyllerísmyndbönd af þeim sem nú dreifa myndbandi með kolrangri söguskírskotun til þess að byggja undir annars sæmilegan sagnfræðing fyrir næstu kosningar.

Reyndar kemur að því að maður þarf að líta á þá sagnfræði sem á þeim bæ hefur verið boðuð og virðist gera fremur lítið úr Þorskastríðunum, sigrum okkar sjófarenda, skipherra og jafnvel forvera innan eigin stéttar. Allt er nú gert til að fá nýjan styrk og punkta í fræðigreinarnar á leið sinni upp í prófessorsstöðuna.

Þar virðist og dregin fjöður yfir ICESAVE söguna alla og ESB afstöðuna. Það verður og að halda úti lífheimi borðtuskunnar svo vísað sé í smásögu Þórarins Eldjárns sem kom út árið 1981 í bókinni Ofsögum sagt.

Þó óþefurinn sé mikill verður að halda sögufölsuninni gangandi og gæta sín að halda lífi í því að ICESAVE hafi verið í lagi og þá ESB aðildarferlið einnig. Ekki er einhver frambjóðandi sem vogaði sér að ganga í þessa átt og ætlar svo að standa vörð um þessa þjóð eftir slíkan málflutning?

Komum að því síðar enda af nægu að taka.

Hefndin er sæt

Þeir sem kusu ICESAVE eins og blindir kettlingar reyna að draga dulu yfir þau fáránlegu mistök sín nú. Þeir eru feimnir. Þeir og kusu margir Ólaf Ragnar Grímsson 1996. Margir hverjir eru dæmigerðir fyrir það að hafa snúist í 360 gráður a.m.k. þrisvar ef ekki oftar, þ.e. í marga hringi.

Sumir segja að flautaþyrill sé sá sem er fljótfær og með gassagang. Það á vel við þá sem núna eiga aðeins hefndina eftir í farteskinu og þeyta lúðra sem engin rök innihalda, aðeins hávaða.

Eitt af þessu er að slíta hlutina úr samhengi og birta myndbönd sem lýsa engan vegin því sem raunin er og varð. Viðskipti eru ekkert grín og sá árangur sem menn hafa náð í þeim oft vanmetin. Öfundin er djúpstæð á Íslandi og jaðrar við hatur á þeim sem aflað hafa meira en aðrir.

Viðskipti eru sífelld undir áhættu seld og það munu fræðimenn, sem engin hafa viðskiptin stundað, aldrei skilja. Þetta er ólagndi haf, þetta eru oft erfið stríð, átök, glatað fé, sigrar og sorg.

Fræðimenn, eins ágætir og þeir kunna að vera, hafa m.a. tekið að sér ráðherradóm og sumir gert það eitt að þvæla um löggjöf sem enga stoð hafði í stjórnarskrá og endaði svo fyrir Hæstarétti sem ólög enda var markmiðið að mjólka heimili landsins sem ekkert höfðu til saka unnið.

Drykkja á sætri hefndinni og ofneysla á öfundinni er ekki holl nokkrum manni eða samfélagi.

Sögufölsun

Fyrirsagnastíll internetsins hefur yfirgnæft gaumgæfilegrar athugunar og rannsóknir á raunveruleikanum. Þar virðist þrífast mjög svo illvíg samkeppni við að sóða út samfélagsmiðla með efni sem hvorki hefur sér stoð í raunveruleikanum né hefur fræðilega skírskotun í ritrýnt efni. Jafnvel margir fræðimenn hafa reynt að setja sig í þessi spor og leitast við að endurskrifa sögu heillar þjóðar og leitast við að gera sjálfa sig að goðsögn á kostnað löngu látinna goðsagna.

Sumir fá jafnvel styrk fyrir viðvikið.

Hins vegar stendur uppúr að beggja vegna hrunsins hefur Davíð Oddsson tekist að berjast fyrir því að gera ríkissjóð skuldlausan og tekist það í bæði skiptin, einu sinni sem forsætisráðherra Íslands og í annað sinn sem ritstjóri Morgunblaðsins. Geri aðrir betur.

Húrra fyrir Davíð.

 

Flokkar: Heimspeki · Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur