Þriðjudagur 31.05.2016 - 11:31 - Lokað fyrir ummæli

Dygðirnar, Davíð og rætnin

Davíð Oddsson

Davíð Oddsson

Um þessar mundir stendur yfir kosningabarátta um embætti forseta Íslands. Margir góðir kostir eru í boði en fremstur meðal jafningja er Davíð Oddsson. Hér skal tíundað hvers vegna.

Dygðir viskunnar

Þegar litið er til þess að aðeins 34 ára var Davíð Oddsson kjörinn borgarstjóri Reykjavíkur er það eitt og sér ábending um að þar hafi farið ungur maður með miklar hugsjónir, þekkingu og visku. Hann var ungur að árum og skilningur hans og hyggindi varðandi mál borgarbúa greiddu götu hans áfram sem borgarstjóra.

Hinar vitrænu dygðir eru einmitt skilningur, þekking, viska og hyggindi. Maður þarf ekki að vera hár í loftinu til að skilja þetta og að sjá ungan mann hljóta þessa upphefð var mikil upplyfting á þessum árum. Davíð braut blað í sögunni.

Davíð Oddsson er listamaður

Ég vil fullyrða að alla sína tíð hefur Davíð Oddsson ekki verið stjórnmálamaður. Davíð Oddsson hefur ávallt verið listamaður. Listamenn, hvar sem þá er að finna, hafa þann einlæga hæfileika að geta sýnt hugrekki og stundað list sína af hugrekki. Á tímum kaldastríðsáranna voru það listamenn umfram alla aðra sem flúðu ríkjasambönd eins og Varsjárbandalagið og Sovétríkin, sögðu sögu og sátu oft inni í verstu fangeslum veraldar fyrir vikið. Davíð Oddsson er þessi maður. Hann sýnir hugrekki og víkur ekki þó á móti blási og einnig þó að hann kunni að lúta í lægra haldi. Það er einmitt Davíð.

Davíð er stórlyndur maður

Þegar hann var borgarstjóri og sem forsætisáðherra hefur Davíð sýnt fólki víða mikið stórlyndi. Hann fer ekki hátt með slíkt og hrópar ekki á torgum um slík efni eða auglýsir það til að stæra sig. Davíð hefur sýnt hófstillingu hvað orðaval varðar en hann er fastur fyrir. Hann segir ekki aðra skorta sómatilfinningu þó svo að hann kunni að geta fært rök fyrir slíku þegar menn segja sumir ósatt í hita leiksins. Þegar Davíð var borgarstjóri gekk hann oft fram fyrir skjöldu og opnaði fólki dyr sem voru þeim lokaðar. Það sýnir mikið veglyndi og vilja til að greiða götu t.d. listamanna og listarinnar. Það gerði hann m.a. með því að spara í rekstri Reykjavíkurborgar og safna fyrir Borgarleikhúsinu. Með því framtaki sínu sýndi Davíð mikillæti.

Davíð hefur nú í kosningabaráttunni lýst því yfir að hann muni taka því sem að höndum ber í þessari kosningabaráttu og er hófstilltur hvað launakjör sín varðar. Hann ætlar að spara áfram og gæta að fjármunir nýtist vel. Hann hefur einnig lagt áherslu á að hann hafi mátulegan metnað fyrir því að vera kjörinn, hann er í framboði og ef fólk æskir þess að kjósa hann, er það í boði. Vilji þjóðinn einhvern annan er slíkt vissulega í boði. En þá er rétt að spyrja hver sá aðili er, hvaðan hann kemur og hvaða kosti hann hefur umfram Davíð Oddsson eða einhvern annan frambjóðandann. Allt er þetta prýðis fólk en þjóðin þarf að þekkja forseta sinn.

Háttvísi Davíðs og rökræður

Í viðtökum sýnir Davíð háttvísi. Allt tal um annað er ósatt og það eru of margir sem eru ekki vanir því að rökræða og telja að rökræða sé af hinu vonda. Grikkir kenndu okkur rökræðuna og að það er dygðin sannsögli sem skiptir miklu máli þegar rökræður eru annars vegar. Rökræður eru ekki skammir, rökræður eru leið til að ná hinu sanna fram og leitin að því rétta og hinu sanna.

Einnig er það réttlætið, réttlætið sem verður að tryggja að sé það sem við leitum eftir. Það er ekkert réttlæti í því að gera lítið úr störfum manna á tímum þorskastríðsáranna enda hafa hinir sömu engin tök á að koma sér til varnar.

Vináttan og aðrar dygðir Davíðs

Vinátta og tryggð milli fólks er ein höfuðdygðana. Davíð er sagður traustur vinur vina sinna. Hins vegar er helsti vinur Davíðs þjóðin og þeir sem munu nú stíga fram og styðja Davíð Oddsson í embætti forseta Íslands.

Helstu siðrænu dygðinar eru einmitt hugrekki, hófstilling, veglyndi, stórlyndi, mikillæti, mátulegur metnaður, háttvísi, sannsögli, vinátta og réttlæti.

Kjósum mann sem hefur þessa kosti og gefum ekki afslátt af því þegar við göngum til kosninga um æðsta embætti Íslendinga. Vil ég þar helst minnast á dygðina sannsögli í því efni.

Rætnin

Rætnin, sem er viðhöfð af mörgu fólki um þessar mundir, er ekki dygð svo því sé haldið til haga. Rætnin er löstur. Rætnin lýsir best þeim sem hana viðhafa og þeim málstað sem varinn er með henni.

Stöndum saman, stígum fram og styðjum Davíð !

Stöndum saman sem þjóð og kjósum Davíð Oddsson sem forseta lýðveldisins Íslands.

Flokkar: Heimspeki

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur