Laugardagur 04.06.2016 - 19:15 - Lokað fyrir ummæli

208 milljarðar ei meir á morgun 5. júní 2016

Á morgun, 5. júní 2016, hefðum við Íslendingar þurft að borga fyrstu afborgun af 208 milljarða vaxtagreiðslu vegna ICESAVE hefði Svavarssamningurinn verið samþykktur. Þetta var ,,lán“ sem Bretar og Hollendingar bjuggu til fyrir sig og sumir töldu bara í góðu lagi. Undir þennan samning vildu sumir forsetaframbjóðendur, sem nú eru í framboði til forseta Íslands, skrifa ásamt því að bylta stjórnarskránni sem gerði þeim sjálfum og öðrum Íslendingum ekkert illt. Allt var reynt til að þóknast ESB í aðildarviðræðum og aðlögun að því ríkjasambandi sem nú er í molum.

Til að bíta höfuðið af skömminni var haldinn fyrirlestur á Bifröst 2013 þar sem lítið var gert úr baráttu Íslendinga við að öðlast yfirráðarétt yfir auðlindum hafsins í kringum landið og 200 mílna landhelgi. Höfðu Bretar búið til ,,landhelgi“ fyrir sig þar sem þeir ætluðu að sópa upp úr auðlindum okkar og borga hvorki veiðigjald né skatta fyrir. Í kjölfar höfnunar Íslendinga á ICESAVE var leitast við að draga fjöður yfir skömmina með framangreindum fyrirlestri á Bifröst 2013. Þann 1. júní sl. voru einmitt 40 ár liðin síðan Bretar samþykktu þessa útvíkkun á landhelgi okkar allra eftir mikla baráttu og þóf um árabil.

Skilja íslenskir fjölmiðlar þetta ekki? Eru þeir margir svo skini skroppnir að ímynda sér að það sé fólk í landinu sem hefur gleymt þessu? Yfir 98% þjóðarinnar hafnaði ICESAVE í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni um það mál á sínum tíma. Er almenningur búinn að gleyma því? Eru þetta íslenskir fjölmiðlar sem svona haga sér af yfirgripsmiklum dómgreindarskorti? Þeim ber að taka af meiri festu á þessum málum og þæfa ekki umræðuefnið sem lýsir alvarlegum dómgreindarbresti þeirra sem ekki sjá og svara fyrir gjörðir sínar er miðuðu að því að ganga að slíkum afarkostum sem þessi ICESAVE samningur var.

Til hamingju Íslendingar með þessi tímamót.

Til hamingju með samstöðuna.

Flokkar: Hagmál · Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur