Sunnudagur 26.06.2016 - 12:00 - Lokað fyrir ummæli

Nýkjörinn forseti

Guðni Thorlacius Jóhannesson hefur verið kjörinn 6. forseti Íslands.

Eftir kjördag og kosninganótt ber að líta um öxl.

Kosningabaráttan einkenndist af óreiðu til að byrja með og upphlaupi sem m.a. byggðist á fjölmiðlaárás á forsætisráðherra Íslands. Sú árás miðaði ekki við að lög giltu í landinu um svokölluð lágskattasvæði sem m.a. síðasta vinstri stjórnin hafði sett og útvíkkað til að auka möguleika þeirra sem geyma fjármuni erlendis. Þessi árás einkenndist ekki að því að bjóða þeim sem ráðist var á að svara fyrir sig með eðlilegum hætti og var leikurinn því ekki jafn. Fjölmiðlaárásin miðaðist ekki við að tryggja að hið sanna varðandi skattamálin kæmu fram og varð til þess að skapa úlfúð sem jarðvegur var fyrir og hafði verið sáð í með margvíslegum hætti lengi vel.

Í þessum óróa stóð Ríkissjónvarpið sig ekki vel né aðrir fjölmiðar sem réru undir til að mynda eins mikla sundrungu á meðal íslensku þjóðarinnar eins og kostur var. Hugsanlegt er að þessi samanteknu ráð í fjölmiðlaheiminum, m.a. innan fjölmiðla í Evrópu sem þátt tóku og á heimsvísu, hafi miðast við að nota Ísland því þar hafi aðgangur að þjóðarleiðtogum verið meiri og betri en víða erlendis. Ísland var því misnotað í þessum tilgangi en ekki hefur enn tekist hjá þessum fjölmiðlum, m.a. þýskum og frönskum, að benda réttilega á þá óheftu spillingu sem viðgengst innan Evrópusambandsins (ESB) og sérstaklega innan þessara tveggja ríkja sambandsins. Þar er af mörgu að taka.

Nýkjörin forseti Íslands verður að takast á við umhverfi sem er að breytast hratt. Bretar eru að yfirgefa ESB, líkur eru á að önnur ESB ríki fylgi þar á eftir og fjölmiðlar eru að breytast úr því að vera í sjónvarpi í það að vera á netinu, í hverjum síma og öðrum handfrjálsum búnaði almennings. Unga fólkið er annars staðar en fyrir framan sjónvarpið og les ekki blöð eins og áður. Ríkisútvarpið á að breytast í gagnamiðlun og geymslu í stað þess að reka fréttastofu og gefa öðrum miðlum andrúm til að þróa sig.

Nýkjörinn forseti á að gæta að einkennum Íslands. Eitt af þeim einkennum er nálægð almennings og forseta. Sama á við nálægð forsætisráðherra og almennings og þar hefur trúnaðarsamband verið skert með misnotkun fjölmiðils á þeim trúnaði og trausti. Mögulegt er að forseti verði að takast á við flóknara umhverfi þar sem fjölmiðlar munu ganga lengra enda verða þeir að leita neikvæðra frétta í meira mæli nú en áður sökum þess að flestir þeirra eiga undir högg að sækja, ef ekki vegna skertrar samkeppnisstöðu vegna stöðu RÚV á markaði, þá vegna þess að þar eru breytingar þar sem ungt fólk leitar frétta á öðrum stöðum í öðrum miðlum en áður. Nærast því miðlar meira en áður á neikvæðum fréttum en jákvæðum til að ná athygli. Aðeins einn þáttur getur komið í stað þessa og spilað gegn þessu en það er grínið og gleðin.

Mikilvægt er að nú taki þjóðin höndum saman og standi vörð um lýðræðislega kjörinn forseta. Það að leitast við að gera upp á milli kynslóða, sbr. umfjöllun nýlega varðandi úrslit kosninga um BREXIT, er aðeins gert til þess að veikja lýðræðið, varpa rýrð á það og valda úlfúð. Slíkt ber ekki merki um lýðræðisþroska.

Verður hver og einn að meta þetta fyrir sig og almenningur verður að gæta að náunganum og tryggja réttmæti í umfjöllun hverju sinni. Vonandi munu fjölmiðlar og heitir álitsgjafar gæta sín í framtíðinni þegar nýkjörin forseti fer að taka ákvarðanir eða tekur ákvörðun um aðgerðarleysi sem hugnast þeim ekki. Má þar vísa til þess þegar Ólafur Ragnar Grímsson gekk í gegnum slíkt og stóð sig vel þrátt fyrir umtalsverðar árásir.

Í þessum kosningum má sjá að stjórnarskráin hefur fært þjóð sinni nýjan forseta, hún hefur staðist gríðarlegt álag og eftir miklar breytingar í gegnum árin hefur hún stuðlað að því að mannúð og mannréttindi eru tryggari en áður. Það er vel og ekki ástæða til að bylta henni eða krefjast að stjórnkerfið umturnist.

Framangreint er ekki tæmandi en stendur þó uppúr eftir allt sem á undan er gengið síðustu daga og vikur. Mikilvægt er að halda þessu til haga.

Til hamingju með kjörið Guðni Thorlacius Jóhannesson. Megi þér og fjölskyldu þinni farnast vel á Bessastöðum. Njóttu heill.

 

Flokkar: Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur