Fimmtudagur 04.08.2016 - 13:42 - Lokað fyrir ummæli

Nýkommúnismi

Síðustu ár og misseri hefur þróast á Íslandi kæruleysislegt viðhorf til samfélagsins þar sem völd og ábyrgðarleysi fara saman, óábyrgar yfirlýsingar án innihalds, þörf á að þröngva lífsháttum eins upp á annan og veruleikafirrt neikvæð umræða um annars ágætt samfélag fólks er byggir á frelsi einstaklingsins, einkaframtakinu, sáttmála um velferð og umhyggju fyrir ungbörnum, öldruðum, fólki sem á bágt og náttúru lands og sjávar.

Þegar fólk er flokkað niður ber að gæta varúðar enda gæti sá er stundar slíka iðju fengið dóm fyrir og það all harðan. Vandinn sem felst í þessu er að geta afmarkað viðfangsefnið og greint stöðuna. Ljóst er engu að síður að upp er sprottinn Nýkommúnismi á Íslandi. Blómið er eldrautt og heillandi sem fyrr en illa þefjandi.

Nýkommúnismi

Í grunnin eru fylgjendurnir stéttir fólks sem hafa orðið undir í samfélaginu, farið illa út úr kreppunni og hruninu. Þarna fer saman ungt fólk, öryrkjar og aldraðir. Þetta er ansi stór hópur sem er vonsvikinn og kennir öðrum um sínar ófarir. Þeir sem svara eftirspurninni eru oft vel menntaðir, vel meinandi og gera það eitt að kynda undir þessari óánægju og beina spjótum sínum að ráðamönnum hvar sem þá er að finna. Rökin eru, rétt eins og hjá móður allra kommúnisma, tæknileg, ígrunduð en þau ganga ekki upp. Rökin hins vegar falla í frjóan jarðveg almennrar óánægju með eigið hlutskipti.

En mun þessi Nýkommúnismi ná okkur upp úr öldudalnum? Nei, hann mun ekki gera það.

Stefna Nýkommúnismans

Sem fyrr er stefna Nýkommúnismans að taka frá öðrum og afhenda einhverjum sem þeir telja að eigi rétt á að nota eða eiga eitthvað sem annar á í dag eða hefur aðgang að. Þannig að með þessari aðferð er leitast við að skapa réttlæti, jöfnuð og svara eftirspurn. Nota á ríkisvaldið til þess arna, gjörbylta stjórnarskrá viðkomandi ríkis og draga úr atvinnufrelsi til að tryggja megi að hið opinbera nái að sjá um allan rekstur. Frelsi til athafna og þróunar verður skert og ríkið látið vaxa og vaxa með tilsvarandi úthlutun gæða án þess að lögmál markaðarins verði látin ráða för.

Nokkur stefnumál sem þegar hafa komið fram:

  1. Takmörkun atvinnufrelsis í landinu
  2. Ríkisbankar áfram ríkisbankar
  3. Heilbrigðisþjónusta algjörlega ríkisvædd
  4. Skattar hækkaðir
  5. Aukning við vaxtabætur þó svo að það hækki vexti
  6. Aukning við húsaleigubætur þó slíkt hækki leigu
  7. Eignarréttur takmarkaður og jafnvel afnuminn algjörlega
  8. Höfundarréttur af efni ekki verndaður
  9. Viðameiri og aukin ríkisafskipti
  10. Breytingar þar sem leitast er við að lífsmynstur Nýkommúnista sé gert algilt og öðrum beri að fylgja því
  11. Ofurtrú á miðstýringu
  12. Vantrú á markaðslögmálum
  13. Almenn trú á að trúleysi sé algild lausn til friðarumleitanna
  14. Algjör opnun landamæra án þess að tekið sé tillit til þess að burðavirki samfélagsins standi undir slíku
  15. Fjölgun vinstri manna í landinu
  16. Fækka þeim sem eiga eigin fasteign og mæla fremur fyrir leiguliðakerfi
  17. Fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna til að varpa ábyrgð frá kjörnum fulltrúum við ákvarðanatökur
  18. Aðild að miðstýrðu Evrópusambandi

Það er af mörgu að taka og listinn er ekki tæmandi.

Hvar eru Nýkommúnistar í dag?

Það er eins með Nýkommúnista og aðrar hópa sem aðhyllast ýmsar stefnur almennt, þ.e. að þar er misjafn sauður í mörgu fé. Hins vegar virðist nú svo komið að Nýkommúnistar eru fremur dreifðir, villuráfandi og leitandi. Stór hluti þeirra hafa komið sér saman um að Píratar sé rétti vettvangurinn til að klekja út egg sín. Hins vegar, sé litið á vefsetur Pírata, eru þeir nokkuð frjálslegir, vilja ekki fara í ESB eins og Samfylkingin, nema aðeins ef slík áform fari fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu. Píratar eru með mjög mörg góð mál í farvatninu en þá kemur að því að ná þeim fram. Með hverjum tekst það? Mörg þessara frjálslyndu mála nást örugglega ekki fram nema með því að þeir starfi með Sjálfstæðisflokknum en þeir hafa nú útilokað það, a.m.k. vinstri hluti Pírata.

Þannig má vænta að frjálslyndir Píratar, sem virðast mjög svo frjóir í hugsun, séu þegar að verða  undir varðandi sín stefnumál enda orðið opinbert að þeir vilji aðeins starfa með öðrum en Sjálfstæðisflokknum. Þá eru eftir aðeins Nýkommúnískir flokkar og Framsóknarflokkurinn. Því munu Nýkommúnistar innan vébanda Pírata frá frítt borð gegn frjálslyndum og ferskum skoðunum innan þeirra sem þegar hafa komið fram.

Því má ætla að Nýkommúnistar séu aðallega innan vébanda Pírata innan um frjálslynda óánægða einstaklinga sem eru vel meinandi og hugsandi fólk með vilja til að hugsa á gagnrýnin hátt, leita tæknilegra lausna til að upplýsa almenning í stað þess að fela, deila og drottna.

Innan Samfylkingarinnar eru fleiri tækifærissinnar en eðalkratar. Samfylkingin angar af gömlu kommunum og áhrifalausum Nýkommúnistum. Þeir urðu undir eftir að hafa leitast við að fara undan í flæmingi og hverfa margir inn í framtíðina, þ.e. björtu framtíðina. Eðalkratar urðu undir en þeir eru í raun svipaðir í hugsun og hinir ungu frjálslyndu sem eru innan Pírata og fá þar engu ráðið. Hinir hávaðasömu, bæði innan Pírata og Samfylkingarinnar, eru kommúnistar í grunninn og í dulargervi. Hins vegar hafa fjölmargir Nýkommúnistar látið sínar skoðanir berlega í ljós og flestir þeirra virðast, eins og áður segir, vera innan vébanda Pírata.

VG er uppfullur af gömlu kommunum. Þeir eru ekkert að fara og halda áfram að fara í bakið á sínum kjósendum, selja sálu sína hæstbjóðanda og leggjast lágt eins og þeim er von og vísa.

Næstu misserin og framtíðarsýn Nýkommúnismans

Framtíðarsýn  Nýkommúnismans virðist því björt. Þarna hefur þeim enn og aftur tekist að ramma inn mikinn hóp af óánægjufylgi og náð tökum á stjórn Pírata rétt eins og gömlu kommúnistarnir gerðu með Samfylkinguna. Þeir draga því hóp af fólki inn, ná fylgi og komast í stjórn. Svo hægt og bítandi fá hinar frjálslyndu skoðanir að fjúka og Nýkommúnisminn tekur völdin. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík tilraun er gerð, þ.e. að þjóð kýs sér gengi sem á 4 árum eða skemur nær að eyðileggja árangur fyrri ára með afgerandi hætti. Nýkommúnisminn nýtir alla möguleika til að dreifa auði frá hinu opinbera og fólki með eignir og spara. Þessi ismi safnar almennt miklum skuldum og hækkar skatta því eyðslugleðin, svo halda megi völdunum, er Jörvagleði á háu stigi. Nýkommúnisminn mun örugglega draga mikið súrefni frá atvinnulífinu og leita allra leiða til að draga tennurnar úr sterkustu iðngreinum landsins.

Þetta er ekki borulegt en svona fer þetta verður ekki eitthvað gert í málinu. Nýkommúnisminn er því ekkert annað en skelfileg stefna sem mun sigla undir fölsku flaggi og hugsanlega taka völdin á Íslandi. Svo deyr hann út ásamt tilraunadýrum sínum, þ.e. þeim sem ekki komast undan og geta ekki varið hendur sínar.

Eru Íslendingar tilbúnir fyrir tilraunastofur Nýkommúnismanns?

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur