Föstudagur 19.08.2016 - 06:51 - Lokað fyrir ummæli

Jafnrétti kynja og foreldrastarf

Í fjölbreyttum heimi, a.m.k. hér á vesturlöndum, er orðið sjálfsagt að gera ráð fyrir umræðu varðandi jafnrétti kvenna og karla. Á síðustu árum hafa orðið byltingar í jafnrétti almennt og opnun á umræðu varðandi kynjamisrétti og kynhneigð. Það er af hinu góða. Samhliða þessari umræðu hafa akveðnir aðilar náð að sannfæra sjálfan sig að þeir séu einhverjir sérstakir verndarar þessarar umræðu og riddarar götunar hvað varðar alla sýn á þróun hennar. Pistlahöfundur er faðir tveggja stúlkna. Feður sem horfa á dætur sínar vaxa og dafna í dag sjá fram á að þurfa að leggja sig fram til að tryggja að jafnrétti dætra þeirra verði varanlegt til lengri framtíðar. Með því að stuðla að því að börn geti menntað sig og hvatt þau til að fara í langskólanám eða iðngreinar sem henta er lagður grunnur að betra samfélagi. Konur fara nú orðið meira í iðngreinar en áður og við sjáum ungt fólk af erlendum uppruna slá í gegn í skólakerfinu. Þetta er fagnaðarefni.

Feður í foreldrastarf

Til að feður taki á þessum málum er mikilvægt að þeir taki meiri þátt í skólastarfi og foreldrastarfi en láti ekki mæðrunum einum um það eins og tíðkast víðar. Með því sýna feður fram á áhuga þeirra fyrir námi barna sinna og þá dætra sinna. Það er ekki þar með séð að allir séu áhugalausir um nám barnanna taki þeir ekki þátt heldur er hér bent á að þeir geta mótað stefnu í skólastarfinu, tryggt að tækjabúnaður sé í lagi og til staðar í þeim stofum sem kenna t.a.m. eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, smíði, föndri osfrv. Það er einmitt þess vegna sem pistlahöfundur hefur tekið þátt í foreldrastarfi í grunnskóla. Þetta hefur tekist vel og með áræðni og dugnaði má bæta úr tækjabúnaði og efla skólana, standa vörð um þá og tryggja starfsgrundvöll sem styrkir skólastjórnendur og veitir aðhald.

Mæður standa sig frábærlega

Það er ekki heldur verið að segja hér að þær mæður, og þeir feður, sem starfa nú innan foreldrafélaga víða um land séu ekki að standa sig. Svo er ekki en það má hvetja feður, sérstaklega feður stúlkna, til að starfa enn meira í foreldrafélögum, taka virkan þátt og sýna dætrum sínum að þeim er hreinlega ekki sama. Það er ekki sjálfsagt að tækjabúnaður í skólum sé í lagi, að bókakostur sé til staðar og endurnýjun hans tryggi ferskustu hugmyndir þess tíma og nýjungar.

Sjálfstraustið skiptir megin máli og viðurkenningin

Jafnrétti felst því ekki aðeins í því að konur fái hærri laun og að við karlarnir stöndum framarlega í því að tryggja að dætur okkar njóti jafnræðis til lengri framtíðar. Jafnrétti felst einnig í því að það þyki sjálfsagt að feður taki virkan þátt í foreldrastarfi allt frá grunnskólaaldri barnanna. Þannig sýnum við feður það sem við höfum að geyma og við eigum ekki að fela það. Við viljum börnum okkur allt það besta og við viljum standa við hlið eiginkvenna okkar þegar við tölum einum rómi um það sem vantar og hvað þarf að bæta auk þess að gleyma því ekki að hrósa kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki skólakerfisins sem er að gera sitt besta og vill vel. Við erum og verðum aðhaldið og til stuðnings þessu fólki í að ná enn betri árangi og þróa jafnréttið, tryggja það og efla svo börn okkar geti lifað í sátt og samlyndi og notið ávaxtana af trjánum í jöfnum mæli.

Ungt fólk í dag veit betur og getur betur

Jafnrétti byrjar þegar börn eru ung og það að finna fyrir að stúlkubarn er með sjálfstraust og getu til að tjá sig, svara fyrir sig og segja manni til um karlrembu eða launamál áður en grunnskóla lýkur er hreint út sagt frábært. Það er þetta sem mun tryggja jafnrétti til framtíðar og að stúlkur geti borið hönd fyrir höfuð sér í þessum efnum og geta talað tæpitungulaust um það allt frá unga aldri. Ungir drengir í dag skilja þetta, viðurkenna og þykir þetta sjálfsagt mál. Það er því af sem áður var þökk sé ungu og upprennandi fólki í dag. Því verður pistlahöfundur ávallt með þetta í huga, þ.e. að jafnrétti kynja skiptir máli og er sjálfsagt.

 

Njótið helgarinnar í blíðskaparveðri.

Flokkar: Jafnréttismál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur