Sunnudagur 28.08.2016 - 13:15 - Lokað fyrir ummæli

Einsmálsflokkar í tísku á Íslandi

Sveinn Óskar2Munið eftir bumbubananum sem Guðni Ágústsson keypti fyrir kosningar, hjólaskautunum á miðju diskótímabilinu, línuskautunum sem komu svo á undan hjólreiðaævintýrinu? Sodastreamið á 80s tímabilinu var alveg yndælt fyrirbæri og ekki má gleyma fótanuddtækinu sem gerði fólki kleyft að horfa á sjónvarpið og fá nudd í leiðinni. Allt kom þetta inn á heimili okkar, þótti vinsælt en var svo sett inn í geymslu og er það hugsanlega enn og safnar bara ryki. Reyndar hefur Sorpa og þróun í flokkun á endunýjanlegu sorpi orðið til þess að fjölmargt af þessu má endurnýta. Það er gott og vel enda ávallt þörf á einhverju til að selja, svara þörfum markaðarins og bráðnauðsynlegu viðhaldi á líkama og sál.

Flokkar og málefni

Frægasta málefni líðandi stundar og allt frá því nokkuð fyrir hrun er málefni Evrópusambandsins. Flokkar frá vinstri að miðju sameinuðust í Samfylkingunni sem svo sundraðist. Vinstri grænir reyndu að halda í þá trú að forystumenn þeirra myndu ekki selja Ísland í síðustu stjórn en þeir reyndu það engu að síður gegn bæði sannfæringu sinni og loforðum til kjósenda. Samfylkingin varð að einsmálsflokki sem vildi aðeins inn í Evrópusambandið og Vinstri grænir voru fjölmálaflokkur með ráðherra á sínum vegum í síðustu ríkisstjórn sem var fjöldamálaráðherra enda stýrði hann fleirri ráðuneytum á tímabili en þekkt hefur verið lengi í íslenskri stjórnmálasögu. Hann gerði það reyndar illa en gerði það engu að síður. Forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar reyndi að koma mörgum málum að á sínum stjórnmálaferli en náði á þeim tíma að eyðileggja verkamannabústaðakerfið og ganga af því dauðu. Jóhanna og Steingrímur eru gott fólk en verkin hafa einhvern vegin spilast þannig úr að það er ekki einu sinni hægt að endurnýja það sorp sem ríkisstjórn þeirra skóp í fleti sínu þau fjögur ár sem liðu frá hruni hagkerfisins. Þau m.a. lögleiddu lágskattasvæði, afnámu svarta lista vegna Panama og fleirri slíkra skattaskjóla og fóru ekki eftir umsögn Ríkisskattstjóra sem einn sendi inn umgögn vegna málsins í meðförum þess á Alþingi rétt fyrir kosningar 2013. Svo var skammast í mér þegar ég minnstist á það í pistli hér á Eyjunni góðu. Í dag eru hins vegar sögulegir atburðir að gerast á Íslandi. Aldrei hefur kaupmáttur launa sem og ráðstöfunartekna vaxið eins mikið eins og undir stjórn núverandi stjórnarflokka. Hvergi er minnst á það á meðan Evrópusambandið logar stafna á milli.

Pavel, Kári Stefánsson, Svandís Svavars, Birgitta og einsmálsflokkar

Framleiðsla á einsmálsflokkum hefur verið hálf brösugleg á Íslandi upp á síðkastið. Björt framtíð, sem lagði ríka áherslu á Evrópusambandsaðild, stefnir í að hverfa eða þá að hinn sómakæri þingmaður, Óttarr Proppé, verði einn eftir í þeim þingflokki. Verður þá sá flokkur ekki aðeins einsmálsflokkur heldur einnig einsmannsþingflokkur. Ekki veit ég að slíkt hafi komið upp lengi á Alþingi Íslendinga frá því að Stefán Valgeirson frá Auðbrekku í Hörgárdal sat á þingi. Það sem ég held þó að Óttarr Proppé muni hafa umfram Stefán er sönghæfileikin og frábærir listrænir hæfileikar. Það er því fullvíst að endurnýta má þá hæfileika þó síðar verði.

Pawel og Sjálfstæðisflokkurinn

Pawel Bartoszek er mikill hæfileikamaður og frábær penni. Hann fullyrðir að hann myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn hefði Sjálfstæðisflokkurinn eitt mál á sinni stefnuskrá sem reyndar er þar ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er. Þetta mál er aðild að Evrópusambandinu. Þess í stað vill hann vera í Viðreisn sem er einsmálsflokkur rétt eins og Samfylkingin. Viðreisn er því samansafn af ágætu og vel meinandi fólki sem er að fara inn á miðjuna, taka yfir kratafylgi Samfylkingarinnar og mynda e.k. hægri sinnaðan einsmálsflokk. Flest annað, svo fylla megi upp í málefnafæðina, er fengið úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins rétt eins og Samfylkingin fékk margvíslegt frá Krötum nema lagið hans Stebba Hilmars, 18 rauðar rósir. Það fylgdi ekki með.

Kári og Bjarni Kári Stefánsson, rétt eins og Pawel og Óttar, er frábær maður og virðingarvert hve hann hefur ötullega byggt hér upp hátækni og skapað hátæknistörf. Það er lofsvert. Nú hefur hann ákveðið að herja á formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra Íslands. Megin ástæðan er fyrir því er sú að Bjarni þarf að gæta að buddunni, þ.e. ríkisbuddunni og hefur m.a. ekki náð að keyra á uppbyggingu hátæknisjúkrahúss.

Sú uppbygging er reyndar hafin og einnig verið að byggja yfir hina frábæru gjöf Kára, þ.e. yfir jáeindaskannan góða. Hvers vegna ætli það sé? Ekki gleyma að Vaðlaheiðagöngin, rétt eins og DeCode, fékk ríkisveð og þegar borað var í heiðina kom sjóðheitt vatn niður svo að menn urðu að vera helst naktir við vinnu þar í móðurkviði fjallkonunnar nyrðra. Þetta kostar allt pening (eða ,,pjéning“ eins og félagar mínir sumir og vinir bera það fram). Bjarni vill vel. Hann er að borga skuldir. Hann vill öldruðum og öryrkjum vel og ef hann er kóngulóamaðurinn hans Kára, nú þá er það gott og blessað. Hann er iðninn og áræðinn hann Bjarni. Hann kann því að prjóna (hugsanlega ekki eins flóknar lopapeysur og Bjarni Ármanns hér forðum) og sé hann fjármálaráðherra má ætla að vefur þess ráðuneytis sé til þess gerður að vera sterkur, áreiðanlegur og ábyrgur fyrir því að afla tekna til þess einmitt að skaffa það fjármagn sem til þarf.

Þá er einmitt óþolandi þegar vinstri menn birtast í þessu ráðuneyti og byrja að eyðileggja vefinn og veiða í hann sárasaklausan almenning með gengistryggðum lánum, fléttum til að hirða eignir af fólki og skila þeim aldrei aftur. Það gerði síðasta ríkisstjórn en hann Bjarni, hann er að skila fólki auknum kaupmætti og ríkisstjóð með afgangi.

Svandís og nei-flokkurinn hennar

Svandís Svavarsdóttir er ágæt manneskja en vill vaða í garðinn minn og segja að ég megi ekki setja niður blóm hér heldur þar. Hún vill ekki að ég helluleggi planið mitt og telur farsælast fyrir mig að ég leggi bílnum mínum farri húsi mínu og gangi svo heim hvernig sem viðrar. Hún vill mér vel, það er ekki málið.

Hún er bara að vasast í málum sem henni kemur bara ekkert við. Svandís telur sig bara vita betur en ég og betur en þú, lesandi góður, velur svo ríkið til þess að þvinga okkur til aðgerða í eigin garði, eigin rekstri og á ferðum okkar um landið. Það gengur ekki. Þetta, þrátt fyrir góðan vilja, er alveg hreint út sagt óþolandi.

Svona er þetta þegar fólk telur sig vita betur. Vinstri grænir hennar Svandísar eru því nei-flokkurinn gagnvart framkvæmdum og framþróun. Það passar mjög vel og þetta er því einsmálsflokkur sem stundar reyndar samhliða hentistefnupólitík.

Birgitta og afmælisveislurnar

Birgitta Jónsdóttir er listakona, frábær að ræða við en getur orðið ósátt við mann sé maður ekki á sama máli.

Ég tel hana alveg getað náð sönsum í mörgum málum og hef fulla trú á því en þegar fólk er ekki viss sjálft á því hvað á að gera þá er kallað til þjóðaratkvæðagreiðslu til að leysa úr vanda sem viðkomandi veit ekki sjálfur hvernig á að leysa og var kjörinn til að leysa. Líkur eru því á því að ef ég myndi halda fimmtugsafmæli mitt á næstu árum gæti ég safnað saman um 200 manns til að mótmæla á Austurvelli og ná í gegn stjórnarskrárbreytingu.

Reyndar hef ég ekki í huga hvaða breytingu ætti að gera á stjórnarskránni en í fljótu bragði virðast afmælisveislur henta Pírötum vel til að ná saman ,,friends, fools and family“ og þvinga þau til pólitískrar þátttöku í krafti þrengsla við útidyrnar á veislusal eða í heimahúsi. Birgitta kom á sínum tíma í Iðnó þegar ég fjallaði þar um rannsókn mína á nauðungarsölum. Það gerði einnig píratinn Þór vinur minn Saari. Þau vilja vel en eru öll á hreyfingu. Það ríkir óstöðugleiki og engin festa. Þetta eru því fulltrúar hins fljótandi fylgis.

Endurvinnslan

Málefni sem ekki fá að fylgja með í viðamikilli stefnuskrá um margvísleg þjóðmál eru því kippt út af einstaklingum inna þroskaðra flokka og fjöldahreyfinga. Síðan er gerð tilraun til að kalla saman hóp manna sem fellur þetta eina mál í geð. Þetta getur verið kynslóð, sbr. með hjólaskautana og línuskautana sem féllu að fótum mismunandi kynslóða. Þessir flokkar eru því tískufyrirbæri en fela ekki í sér langtímafestu til að tryggja í landinu atvinnu, velferð og samtryggingu á sviði heilsugæslu. Þau mál virðast því algjört aukaatriði og uppfyllingaefni hjá þessu ágæta fólki. Það virðist vera því það er þetta ,,eina mál“ sem öllu máli skiptir. Svo fer allur tíminn í þetta, öll athyglin og gríðarlegt fjármagn.

Hver man ekki þá tíð þegar ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu réð ríkjum á Íslandi? Stjórnkerfið var allt í e.k. aðlögun að Evrópusambandinu í stað þess að aðstoða við uppbyggingu innviða eftir hrun. Endurvinnsla stjórnmálamanna og málaflokka virðist því falla vel að tískusveiflum hjá framangreindum aðilum. Stjórn landsmála, í þeirra huga, virðist ekki vera víðtæk, fyrirferðamikil og margvísleg.

Einsmálsflokkar munu hugsanlega áfram poppa upp á Íslandi og ekkert við slíkt að athuga. Við búum við lýðræði. Hins vegar felst í þessu mikil sóun á mannviti og tíma þjóðarinnar við að byggja upp annars gott og afkastamikið samfélag sem við reyndar erum nú orðin. Það þarf herslumunin nú til að ljúka skuldauppgjörum og ganga svo að því vísu að framkvæmdir hins opinbera verði ekki til að stefna hagvexti og verðlagsmálum í hættu. Það er þetta sem skiptir máli og mun ég, verði ég kosinn á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, leggja mitt á vogarskálarnar, þekkingu mína, reynslu og menntun, til að ramma inn það sem er til skiptana og gæta að því að sanngjörn skipting þess miðist að því að stöðugleiki ríki, kaupmáttur aukist og tryggt sé að heilbrigðismál, öldrunarmál og málefni barnafólks verði ekki útundan.

Þessu munu einsmálsflokkar einnig lofa en þegar kemur að störfum þeirra á Alþingi má ætla að þeir 24 tímar, sem þeir hafa í sólahringnum, að megninu til fara í þetta eina mál sitt á meðan Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á alla málaflokka sem skiptir íslenska þjóð öllu máli.

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur