Laugardagur 22.10.2016 - 03:28 - Lokað fyrir ummæli

X-D gegn vinstri vá

Hér stendur maður enn á ný á kínverskri grundu.

Það kvað vera fallegt í Kína.

Keisarans hallir skína

hvítar við safírsænum.

En er nokkuð yndislegra

– leit auga þitt nokkuð fegra –

en vorkvöld í vesturbænum?

Þannig orti Tómas Guðmundsson en hér lýsir skáldið einum fegursta bæjarhluta Reykjavíkur og yndisleik Kína sem enn má fynna hér í ,,vesturbænum“ í Peking, þ.e. í bæjarhlutanum Sanlitun. Hér í Kína þrengja vinstrimenn reyndar ekki göturnar eins og heima á Íslandi.

Laugardaginn 29. október næstkomandi ganga Íslendingar að kjörborðinu, sem reyndar er ekki í boði hér í Kína, a.m.k. ekki enn sem komið er, og kjósa sér fólk til setu á Alþingi. Ófáir sem eru framboði hafa boðað byltingu, æft sig í margvíslegum vopnaburði fyrir þessi átök sem nú standa yfir en þó oftar en ekki eru þau vopn okkar ástkæra ylhýra, penninn og rökfræðin.

Það eru þó ófáir frambjóðendur nú sem eru tilbúnir í enn frekari átök, atlögu að kjarna íslenskrar þjóðmenningar. Ætlunin er að misbeita valdinu, gjörbylta stjórnarskránni og ná völdum til frambúðar með það að leiðarljósi að ná fram sínum hugmyndum um vinstra Ísland, nýkommúnisma með tilsvarandi blekkingum og óhróðri. Til þess arna vilja þessir aðilar fjölga vinstri mönnum með því að hækka eymdarvísitöluna eins og kostur er og tryggja að eymdinni sé dreift jafnt á milli manna, þ.e. karla og kvenna, barnafólks og aldraðra. Það eiga því allir að ,,njóta“ eymdarinnar jafnt.

RÚV hefur riðið á vaðið á þessu ári og nú rétt fyrir kosningar var Kastljós með hundgamalt innlegg en setti það í annan búning til að tryggja enn frekari óhróður til að koma byltingunni á, breytingum sem geta valdið straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum. Þar verður frelsið undir, eignarrétturinn og súrefni sogað frá atvinnulífinu.

Það er þekkt að það fyrsta sem byltingarmenn taka yfir eru sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Það er löngu orðið ljóst hvert stefnir. Fjölmargir lepja þetta upp og það er með ólíkindum hve margir fylgja vinstri öflum nú að máli. Það er ógn við öryggið í landinu, ógn við viðskiptaumhverfið, stöðugleikan og framtíðaruppbygginu á Íslandi.

Byltingin á Íslandi er rétt að hefjast en hverjir munu mæta á kjörstað nú og standa vörð um frelsið, árangurinn, lýðræðið, lýðveldið og menningu okkar?

Mætið á kjörstað eða missið verðmæti ykkar ella.

Árangurinn sem náðst hefur er ekki og var ekki sjálfsagður hlutur. Ekki mun bylting á stjórnarskrá ná verðbólgunni neðar eða lækka vexti, tolla, gjöld og aðra skatta.

Hinir mætustu einstaklingar eru ataðir auri, reknir af vellinum með sóðaummælum sem engar stoðir eru fyrir en efnið sett í áróðursbúning sem við værum öll búsett í Norður Kóreu en ekki í Kína. Íslensk fjölmiðlun er lömuð og léleg. Fjölmiðlamenn margir hverjir skilja ekki áhættuna sem í þessu felst. Efnafræði stjórnmálanna verkar á fólk rétt eins og hvarfgjörn efni neðarlega í lotukerfinu. Séu óvitar að verki eru meiri líkur á að illa fari.

Íslensk fjölmiðlun er orðin öllu verri en í Kína þar sem Keisarans hallir skína. Það er þó einhver gleði innan um allt ruglið. Enginn er nú keisarinn og hallirnar vart sjáanlegar fyrir mengun. Við búum við mengun af öðru tagi á Íslandi í dag. Sú mengun stafar af strompleiknum á RÚV. Fólk er þar tekið af lífi pólitískt og það opinberlega af ríkisfjölmiðli og oftar en ekki í beinni útsendingu. Lögreglan er lömuð og öll öryggissjónarmið dregin í efa, dómstólar talaðir niður og grunnstoðir aðrar veikburða.

Eigum við að gera aðra tilraun á Íslendingum og hleypa nú óvitunum að stjórnartaumunum? Vinstri menn stjórna ESB, Venesúela, Vesturbænum og einnig Kína. Vinstri menn stjórna RÚV og verkalýðshreyfingum Íslands. Vænta má að þeir stjórni brátt Alþingi Íslendinga.

Hvað munt þú gera gegn vinstri vá?

Nú kýst þú Sjálfstæðisflokkinn.

Áfram Ísland !

Með kveðju frá Peking.

PS. Höfundur er á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir næstkomandi kosningar. Kosið var utankjörfundar áður en haldið var til Kína og hér með er skorað á alla að mæta og kjósa utankjörfundar verði fólk ekki heimavið á kjördag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur