Miðvikudagur 29.03.2017 - 18:40 - Lokað fyrir ummæli

Ný rannsóknarskýrsla um kaup á Búnaðarbanka Íslands

Árið 2003 keyptu aðilar 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Það komu aðilar sem buðu hæst og ríkið seldi þeim bankann fyrir það verð og átti hluti þess m.a. að renna í það að byggja nýjan Landspítala rétt eins og átti að gera með þá fjármuni sem fengust fyrir söluna á hlut ríkisins í Símanum, þ.e. Landsímanum. Ekkert varð úr byggingu á nýjum Landspítala.

Árið 2017 er gefin út skýrsla þar sem lýst er viðskiptafléttu þar sem þýskur banki, sem allir vissu árið 2003 að væri til, hefði verið milligönguaðili um kaup á Búnaðarbanka Íslands en ekki hinn ,,raunverulegi“ framtíðareigandi og ,,kjölfesta“. Mér er spurn hvað ríkinu kemur það við, árið 2003 eða síðar, hverjum þessi þýski banki seldi hlut sinn síðar eftir að hafa keypt hann og íslenska ríkið hafi selt hann?

Það að Ólafur Ólafsson, sem sjálfsagt hefði mátt fara mýkri höndum um verkefnið, hafi staðið að þessari ,,fléttu“ lýsir fremur ákveðinni aðferðafræði í því að gera verðmæti úr engu heldur en að það eigi að vera að karpa um það að hann sé eini skúrkurinn í málinu. Það er vitað að hið opinbera, í þessu tilviki íslenska ríkið, fer yfirleitt illa með fé almennings og kann ekki vel að semja nema hugsanlega þegar kemur að milliríkjasamningum. Það er þó háð því hver mótaðilinn er eins og í öðrum samningum.

Reyndar mátti sjá að ICESAVE samningarnir voru lélegir og eru þeir gott dæmi ef það á að ræða um skelfilega samninga hins opinbera og fulltrúa hins opinbera á Íslandi. Það ber enginn ábyrgð, sem greiddi „JÁ“, á því í dag. Ríkið kann illa að reka eigin stofnanir, eiga í viðskiptum og sinna innkaupum. Því vekur það svo sem enga undrun að Ólafur Ólafsson hafi getað búið til ,,fléttu“ sem leiddi til þess að hann hagnaðist persónulega vel á kaupum þessa þýska banka á 45,8% hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. ,,Fléttan“ gekk því upp og úr varð talsvert viðskiptaveldi. Því er ekki hægt að neita. Þannig gerðust kaupin á Eyrinni við Eyjafjörð hér forðum daga og fátt nýtt þar undir sólinni.

Þó svo að Ólafur Ólafsson kunni að hafa brotið af sér einhvern tíman síðar, t.d. í þessu Al Thani máli,  er ekki séð að hann hafi brotið af sér við kaup þýsks banka á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands. Því þykir manni undrum sæta að þegar kemur út skýrsla um klúður íslenska ríkisins og lélegt eftirlit þar á bæ að ergelsinu af því öllu sé velt á einstakling sem er að sitja af sér dóm í dag. Það er vel þekkt orðið að íslenskir viðskiptamenn margir segja ekki allt og ef eitthvað er það helst ósatt. Sama má segja um fjölmarga stjórnmálamenn.

Hvers vegna eru þeir sem að þessu stóðu ekki inntir eftir þessu öllu saman og kannað hvar hundurinn lá þarna grafinn? Ekki kom Ólafur Ólafsson að erindisbréfi þeirrar eins manns nefndar sem nú skilaði af sér og mótaði þannig í hvaða horn yrði leitað upplýsinga. Sagt er að stjórnmálamenn eigi að bera pólitíska ábyrgð og að sumir hafi þegar gert það. En hvað með stöðu dagsins í dag?

Það stendur því eftir að almenningur þarf að geta treyst því nú að þegar vélað er um sölu á Arion banka og sölu á öðrum hlutum á Íslandi sem er í beinu eða óbeinu eignarhaldi ríkisins að vel sé að því staðið. Það er of seint að leita lausna í málum og endurreikna verðmiða þegar áratugir eru liðnir. Erum við Íslendingar í skjóli gagnvart ægivaldi því sem mun taka hér við fjármálakerfinu á næstu misserum?

Það er örðugt að spæla eggið eftir suðu.

Flokkar: Sagnfræði · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur