Þriðjudagur 04.04.2017 - 10:50 - Lokað fyrir ummæli

Skattahækkun ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustu

Nýlega kynnti forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, að sú grein sem hefur bjargað fjárhag ríkissjóðs síðustu árin eftir hrun og komið, ásamt öðrum, á þeirri hagsæld sem nú ríkir í landinu yrði skattlögð með því að færa hana úr 11% virðisaukaskatti í 22,5% virðisaukaskatt. Jafnframt fylgi þessari einhliða tilkynningu skýring á því að ætlunin sé að ,,einfalda“ skattkerfið en samt að halda enn áfram með 11% skattþrepið. Ekki er séð að það einfaldi mikið fyrir ferðaþjónustuna í landinu en fulltrúar hennar voru ekki kallaðir að borðinu áður en þetta var ákveðið eða leitað ráðgjafa hjá þeim né umsagna. Þetta eru því frekar slæleg vinnubrögð hjá ríkisstjórn Íslands og það er miður.

Úr því sem komið er virðist sem svo að ekki liggi heldur fyrir í hvað fjármagnið fer sem kemur væntanlega í ríkiskassan vegna þessarar skattahækkunar á eina grein. Ég sé ekki að ætlunin sé að hækka skatta eða veiðigjöld á sjávarútveginn samhliða þessum aðgerðum en báðar þessar greinar eru mikilvægar útflutningsgreinar og mega þola talsverða erfiðleika eftir að krónan styrktist. Hvers vegna stendur Sjálfstæðisflokkurinn að skattahækkunum aðeins á ferðamannaiðnaðinn?

Líkur eru á því að ferðaiðnaðurinn hafi ekki staðið eins vel saman og samtök sjávarútvegsfyrirtækja og eigi ekki hauka í horni eins og sá iðnaður allur sem er rótgróinn. Sjálfur er ég á móti skattahækkunum almennt og vil ekki sjá að Sjálfstæðisflokkurinn gangi þarna á undan með þessum aðgerðum.

Reikna má að krónuvextir fari eitthvað lækkandi og á móti komi líklega fram vaxtahækkun á evrusvæðinu á móti á næstunni. Benda allar spár til þess arna. Verði af þessu má ætla að gengið á krónu gagnvart öðrum myntum gefi eitthvað eftir. Það er hugsanlegt að þetta hjálpi til og komi eitthvað á móti skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Það sem stendur eftir er samráðsleysið við aðila í ferðaþjónustu. Nú liggur beint við að þessir fjármunir fari aðallega í að styrkja innviðina fyrir ferðaþjónustuna og renni m.a. í samgöngur á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að bæta heilbrigðisþjónustuna og gæta sérstaklega að því að tryggja að hún sé örugg og fjölbreytt til að sinna megi almenningi og m.a. ferðamönnum betur og þeirri grein sem kom okkur hér á lappirnar eftir að annað gaf sig.

Tryggjum að fjármagnið renni í réttan farveg ef á annað borð verði farið í þessa skattahækkun. Samtök ferðaþjónustunnar þurfa að fá ábyrgðaryfirlýsingu eða gera greinargott samkomulag við ríkisstjórnina um að fjármagni verði ráðstafað, þ.e. fjármagni sem myndast væntanlega vegna þessarar skattahækkunar, í liði sem skipta ferðaþjónustuna mestu máli í dag.

Að lokum vil ég, að öðrum ólöstuðum, færa öllum þeim sem stunda ferðaþjónustu á Íslandi, beint eða óbeint innilega þakkir fyrir að hafa komið íslensku hagkerfi vel og orðið til þess að auka atvinnu á Íslandi, byggt upp af myndarskap grein sem er komin til að vera og þroskast vel í góðum jarðvegi.

Kærar þakkir ferðaþjónustufólk !

Flokkar: Ferðamál · Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur