Miðvikudagur 31.05.2017 - 16:21 - Lokað fyrir ummæli

Landsréttur og dómaraval

Um langa hríð hefur verið rætt um mikilvægi þess að koma upp millidómsstigi sem yrði e.k. endurskoðunarskrifstofa dómskerfisins á þeim dómum og úrskurðum héraðsdómdómstólanna sem ætlunin er að áfrýja.

Fjölmargir hafa komið að því að mynda samstöðu um nýtt fyrirkomulag. Allir vilja vanda sig vel, t.a.m. við að brjóta ekki jafnréttislög og hæfisskilyrði. Með því að vanda sig má mynda breiða samstöðu um nýjan dómstól og tryggja trúverðugleika hans.

Lögmenn

Lögmannafélagið og fulltrúar þess, þ.e. þess félag sem virðist enn undanþegið félagafrelsi í landinu, virðist ósátt við að ráðherra telji mikilvægt að fjölga konum í dómnum og fjölga þeim, sem þar munu sitja, sem hafa langa dómarareynslu, t.a.m. í sakamálum.

Það að Lögmannafélagið berjist fyrir sína félagsmenn er ekkert óeðlilegt og gerist slíkt einnig hjá fleiri hagsmunahópum. Hins vegar má ætla að löggjafinn hafi með lögum og reglum varðandi val á dómurum gert ráð fyrir því að fulltrúi skattgreiðenda og kjósenda, kjörinn þingmaður sem og skipaður ráðherra fái eitthvað um málið að segja.

Að auki má benda á að stjórn Lögmannafélagsins eru konur í minnihluta þar sem 3 karlar standa vörð um gömul gildi og einn þeirra umsækjandi um dómarastöðuna en var hafnað af ráðherranum sem valdi konu í dóminn í hans stað.

Val dómnefndar á dómurum

Það vekur sérstaka undrun að dómnefndin, sem valdi þá er hún taldi hæfasta, hafi gert fremur lítið úr reynslu af dómarastörfum og valdi aðeins 15 í 15 sæti. Hefði ekki verið hægt að hafa þá hæfu í valinu fleiri? Þeir sem valdir voru skv. frétt visir.is frá 12. þessa mánaðar:

1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
2. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
3. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
4. Eiríkur Jónsson prófessor, við lagadeild Háskóla Íslands
5. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
6. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstréttardómari
7. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
8. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
9. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
10. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
11. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
12. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
13. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
15. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness

Þetta eru 10 karlar og 5 konur.

Landsréttur verði ekki ,,karlaklúbbur“

Í frétt hjá RÚV á vefnum www.ruv.is frá 24. febrúar á þessu ári kom ákall frá minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar að við val á dómurum, þ.e. í meðförum frumvarps um Landsrétt, yrði þannig ákvarðað í lögum að ekki yrði hætta á að Landsréttur yrði að e.k. ,,karlaklúbb“. Lagði minnihlutinn fram breytingatillögu til að tryggja þetta inn í löggjöfina sem meirihlutinn hafnaði. Í fréttinni segir hvað þetta varðar:

Meirihlutinn fellst ekki á breytingartillöguna en leggur áherslu á að ráðherra hafi jafnt kynjahlutfall að markmiði.

Sé miðað við niðurstöðu dómnefndarinnar má ætla að hún hafi farið talsvert á skjön við álit bæði minni- og meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sé litið til þróun málsins á þinginu á sínum tíma. Dómnefndin virðist hafa talið hæfnina fremur byggjast á kynferði og helst karlmennsku en t.d. dómarareynslu viðkomandi. Sama virðist eiga við um fulltrúa Lögmannafélagsins og væntanlega stjórn þess félags.

Hvað með umboðsvanda í svona málum og siðferði þegar barist er fyrir hagsmunum almennings og aukins trúverðugleika dómskerfisins í heildina varðandi val á dómurum?

Að auki segir í framangreindri frétt:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður allsherjarnefndar segir að meirihluta nefndarinnar hafi ekki þótt ráðlegt að bæta við slíkri málsgrein í dómstólalögin án frekari umsagnar og yfirlegu, þar sem það væri skýrt nú þegar að ráðherra skuli fara að jafnréttislögum ef dómnefnd metur tvo eða fleiri jafn hæfa. „Við ákvörðun ráðherra um skipan dómara leggur meirihluti nefndarinnar áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Það er einmitt svo.

Val ráðherra

Svo virðist sem dómnefndin hafi ekki viljað fara að lögum við val á dómurum við hinn nýja Landsrétt eða að eitthvað hafi verið við erindisbréf nefndarinnar að athuga hvað varðar kynjahlutföll og jafnrétti. Ráðherra er kona og ákvað að nýta rétt sinn skv. lögum til þess ekki aðeins að jafna kynjahlutföllinn heldur einnig að fjölga dómurum með reynslu af dómarastörfum.

  1. Aðalsteinn E. Jónasson,
  2. Arnfríður Einarsdóttir,
  3. Ásmundur Helgason,
  4. Davíð Þór Björgvinsson,
  5. Hervör Þorvaldsdóttir,
  6. Ingveldur Einarsdóttir,
  7. Jóhannes Sigurðsson,
  8. Jón Finnbjörnsson,
  9. Kristbjörg Stephensen,
  10. Oddný Mjöll Arnardóttir,
  11. Ragnheiður Bragadóttir,
  12. Ragnheiður Harðardóttir,
  13. Sigurður Tómas Magnússon,
  14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,
  15. Þorgeir Ingi Njálsson.

Hér eru 8 karlar og 7 konur. Þarf maður fleiri vitnana við?

Sé litið til hlutfallsins er það a.m.k. mun hagstæðara konum svona en sé litið hlutfall kvenna í stjórn Lögmannafélags Íslands.

Dæmi svo hver fyrir sig.

 

Flokkar: Jafnréttismál · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur