Fimmtudagur 22.06.2017 - 17:14 - Lokað fyrir ummæli

Tíu þúsund krónur

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Fjármálaráðherra er frjór hugmynda. Nýleg hugdetta hans til að halda aftur af skattaundanskotum á Íslandi er að takmarka notkun á reiðufé og beina viðskiptum í meira mæli til kortafyrirtækja sem í dag geta greint hvort þú sért í yfirvigt eða ekki, hvar þú ert og hvert þú ert að fara. Svo má ekki gleyma þeim sem vilja fá frið á öldurhúsum borgarinnar fyrir óendanlegri eftirlitsþörf kortafyrirtækja, banka og fjölmargra greiningaraðila sem vilja vita hvað við erum að gera.

Þjóðverjar vilja fá frið

Það er þekkt í Þýskalandi þessi umræða um seðla og kort. Þjóðverjar vilja fá frið fyrir yfirvöldum og bönkum þegar kemur að því að eiga í viðskiptum og vilja því fremur nota seðla og mynt en annað. Í dag er enn gefin út 500 evru seðill og það þykir nú ekki há fjárhæð sé miðað við svissnenskan franka en þar er til seðill sem er mun verðmætari og nær því að vera allt að 100.000 krónum að verðmæti.

Þetta snýr ekki endilega að svörtu hagkerfi og að koma í veg fyrir skattaundanskot. Þetta snýr að friðhelgi einkalífs og það á því það sama við okkur hér á Íslandi eins og aðra að við viljum fá frið.

Evrusinninn Benedikt Jóhannesson

 

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Hver þekkir ekki til áhuga Benedikts Jóhannessonar á evrunni. Hann vill að Íslendingar taki upp evru. Fyrsta baráttumálið hans verður væntanlega, sæki Ísland einhverntíman um aðild, að fá Evrópusambandið ofan af því að gefa út 500 evru seðilinn.

Mér sýnist sem svo að með þær kröfur að leiðarljósi og áeggjan til samninganefnda Íslands muni aðild að Evrópusambandinu ekki verða að veruleika. Benedikt er því nú með sínu óútreiknanlegu hugarflugi sínu að gera endanlega út af við umsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir allt. Það er vel en eftir stendur að vitlausar hugmyndir, hans hvað framangreint varðar, eru alveg jafn skaðlegar Íslendingum eins og þeim sem innan evrusvæðisins búa. Þær eru einnig alveg jafn heimskulegar.

Lækkum skatta og einföldum kerfið

Í stað þess að pína fólk í að drattast með haug af þúsund krónu seðlum á milli staða og þvinga viðkomandi inn í greiðslufyrirkomulag með símum, kortum eða öðru rafrænu á að lækka skatta. Svo á að tryggja að það sem við borgum í skatta sé algjörlega gagnsætt, þ.e. að við getum séð í hvað fjármunirnir fara. Beinum frekar kröftum okkur að þessum lausnum og einföldun skattkerfisins í stað þess að þvinga fólk til viðskipta við þá sem Benedikt Jóhannessyni þóknast.

Ég vil hafa val. Ég vil fá frið fyrir eftirliti með minni neyslu og hegðan. Ég vil hafa frelsi og er viss um að þú lesandi góður ert á sama máli.

Nýtum tæknina við að einfalda kerfið, gera það gagnsærra, rekjanlegt og skilvirkara. Þá mun fleira fólk borga skatta með glöðu geði rétt eins og ég geri nú þegar í dag.

Hins vegar renna á mann tvær grímur ef hluti þess skattfjár fer í að halda uppi annarri eins opinberri þvælu eins og hæstvirtur fjármálaráðherra hefur nú orðið uppvís að.

 

Flokkar: Hagmál · Siðferði · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur