Mánudagur 03.04.2017 - 23:23 - FB ummæli ()

Matseðill í stað lyfseðils

Það hefur verið gríðarlega mikil umræða um mataræði á síðustu árum í tengslum við heilsu og heilbrigði. Þá ekki síst þegar verið er að ræða svokallaða lífsstílssjúkdóma og vitum við að það getur skipt sköpum hvers konar fæðu einstaklingar taka til sín. Margvísleg æði hafa gripið um sig og kúrar sem fólk hleypur á eftir og nær mismiklum eða jafnvel engum árangri koma og fara. Sumir ganga í endurnýjun lífdaga og það mataræði sem hefur undanfarið fengið mesta athygli er einmitt að hluta til í slíku ferli og kallast lág-kolvetna, há-fitu mataræði (LCHF = Low Carb High Fat). Heilmikið er enn rifist um það sem og önnur viðlíka, má segja að líklega eru ekki enn öll kurl komin til grafar og til að gæta sanngirni eru fræðimenn á öndverðum meiði. Leiðbeiningar hafa ekki breyst svo mikið og klóra menn sér í hausnum og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga með að gefa ráðleggingar til sjúklinga sinna. Ég er sannfærður um það að ekki er ein lausn á þessum vanda og að einstaklingsbundin nálgun hljóti að verða niðurstaðan í framtíðinni. Til þess þurfum við nákvæmari mælingar, genaprófíl einstaklings, þarmaflóru hans og sitthvað fleira sem gerir stöðuna flókna en spennandi um leið. Ég er viss um það að við munum koma okkur saman  um það að nota aðrar aðferðir en við höfum gert hingað til. Ein af þeim nýjungum í meðferð sjúklinga mun verða matseðill í stað lyfseðils. Vísindaleg nálgun á einstaklinginn um það hvernig honum geti farnast best, ekki one size fits all nálgun. Það er alveg ljóst í mínum huga að ekki frekar en að sömu lyfjaskammtar dugi jafn vel fyrir alla, eða skilgreind þjálfun skili jafn miklum árangri fyrir alla, þá hentar ekki sama mataræði öllum. Það ætti því að vinna hörðum höndum að því að þróa matseðil líkt og hreyfiseðil eða hinn gamla lyfseðil sem meðferðarmöguleika og form í læknisþjónustu framtíðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Teitur Guðmundsson
Nánar um höfund ...

Læknir með áhuga á heilbrigðismálum, forvörnum, heilsueflingu og svo auðvitað öllu mögulegu milli himins og jarðar. Ég hef ritað um nokkurra ára skeið greinar og fræðsluefni í blöð og á vefi víða. Hér vil ég gjarnan nota tækifærið til að taka þátt í umræðu á annan hátt en ég hef gert. Vona að þið hafið gaman af..
RSS straumur: RSS straumur