Mánudagur 10.04.2017 - 10:54 - FB ummæli ()

Öldrunarþjónusta, hvernig á að leysa vandann?

Við heyrum nær daglega fréttir af því að það gangi erfiðlega að útskrifa aldraða sjúklinga sem eru búnir að ljúka meðferð á Landspítala. Orðið fráflæðivandi er oft notað í þessu samhengi. Þar er verið að vísa til þess að það vantar pláss og úrræði í öldrunarþjónustunni til að taka við þessum einstaklingum. Fyrir utan þennan vanda Landspítala eru fjölmargir aldraðir einstaklingar sem eru í þörf fyrir slík úrræði fastir heima hjá sér. Aukin heimahjúkrun og þjónusta í heimahúsi er liður í því að draga úr slíkri þörf, sem er vel en betur má ef duga skal. Við vitum að vandinn er ekki að leysast nógu hratt, nýtt sjúkrahús verður ekki plássmeira en það gamla, rúmum fjölgar lítið sem ekkert og áætlanir gera ráð fyrir árinu 2023 eða síðar í fullri notkun. Við höfum ekki þann tíma og vandinn verður áfram til staðar nema tekið verði af skarið í uppbyggingu í öldrunargeiranum. Við heyrum af nýjum hjúkrunarheimilum, en það tekur mörg ár að byggja þau og jafnvel þegar þau verða komin í fullan rekstur duga þau ekki til að leysa þann vanda sem við glímum þegar við. Of fá pláss eru skipulögð inn í allra næstu ár. Þarna kemur bersýnilega í ljós strútshegðun stjórnmálamanna. Ég átta mig vel á þvi að það eru alltaf einhverjir sem vilja meira fé til sinna málaflokka, heilbrigðismálin voru sett á oddinn í síðustu kosningum en við erum ekki að sjá efndir þeirra loforða ennþá því miður. Tökum Vaðlaheiðargöng sem hluta af kolrangri forgangsröðun fjármuna, nokkur hjúkrunarheimili þar í fjárveitingum svo dæmi séu tekin. Þá má spyrja hvort það séu til leiðir til að leysa úr þessu, eflaust klóra menn sér í hausnum í ráðuneytinu með það, en ég ætla að leggja til grundvallarbreytingu í öldrunarþjónustu. Í stað þess kerfis sem við fylgjum í dag sem byggir á greiðslum til hjúkrunarheimila og stofnana vegna þeirra skilgreindu plássa sem þau reka ætti að skilgreina að fé fylgi sjúklingi. Hjúkrunarheimili í dag hvort heldur sem þau eru rekin af sveitarfélagi, sjálfseignarstofnun eða einkaaðilum búa öll við það að þeim er ómögulegt að stækka eða bæta þjónustuna þar sem þau eru á því sem næst föstum ramma fjárveitinga. Mun eðlilegra væri að fjármunirnir fylgdu sjúklingnum og þeirri þörf sem hann er skilgreindur með líkt og er núna í heilsugæslunni. Þannig myndi vandinn að vissu leyti leysast að sjálfu sér. Það yrði þá hvati til staðar að búa svo í haginn að einstaklingar þyrftu ekki að bíða jafnvel mánuðum saman eftir eðlilegri þjónustu. Landspítali myndi geta útskrifað sjúklinga með eðlilegum hætti og flæði þeirra væri tryggt. Nú þegar liggur fyrir rammasamningur um þessa þjónustu, búið er að skilgreina verð, umfang og eftirlitið. Ráðherra ber einn ákvörðun um að opna inn á þann samning, sem ekki hefur verið gert fyrir neinn af ofangreindum rekstraraðilum. Það er því dagljóst að það er pólitísk ákvörðun að láta sjúklinga liggja á göngum Landspítala. Búið er að bjóða margar lausnir á vandanum en allar verið daufheyrðar í raun og ekki er búið að ná utan um vandann ennþá. Sú ákvörðun að láta fé fylgja sjúklingi samanber í heilsugæslu væri líklega best til þess fallin að bæði bæta aðgengi aldraðra að eðlilegri þjónustu hvort heldur sem það væri á hjúkrunarheimili eða í heimahúsi. Hinn aldraði og fjölskylda hans myndi stýra að vissu leyti þeirri þjónustu sem viðkomandi yrði veitt og það væri samkeppni um að þjónusta hann og tryggt að úrræði væru í boði. Núverandi ástand gengur ekki lengur, kostnaðurinn við hvern aldraðan er þekkt stærð, hún fer ekki neitt. Það að láta sjúklingana liggja á göngum Landspítala eða í heimahúsi með mjög skerta getu og tilheyrandi vinnutapi ættingja við að sinna umönnum er algerlega óviðunandi ástand og mun dýrara en að bjóða þeim í úrræði við hæfi. Stjórnmálamenn með heilbrigðisráðherra fremstan í flokki þurfa að breyta þessu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Teitur Guðmundsson
Nánar um höfund ...

Læknir með áhuga á heilbrigðismálum, forvörnum, heilsueflingu og svo auðvitað öllu mögulegu milli himins og jarðar. Ég hef ritað um nokkurra ára skeið greinar og fræðsluefni í blöð og á vefi víða. Hér vil ég gjarnan nota tækifærið til að taka þátt í umræðu á annan hátt en ég hef gert. Vona að þið hafið gaman af..
RSS straumur: RSS straumur