Mánudagur 09.10.2017 - 18:24 - FB ummæli ()

Kosningamál númer eitt

Aftur kosningar, aftur kosningamál númer eitt; Heilbrigðiskerfið

Las mér til um stefnu flokkanna um daginn og svör þeirra t.d. við spurningum Læknablaðsins varðandi Landspítala, mönnun og húsakost auk þess að spurt var um hvert ætti viðmiðið að vera um hlutfall þjóðartekna sem færu til heilbrigðismála.

Svörin voru eðlilega jákvæð varðandi uppbyggingu og styrkingu heilbrigðiskerfisins almennt sem er vel, spurningin er svo alltaf með efndir. Okkur heilbrigðisstarfsfólki og almenningi líkar illa við það þegar menn lofa upp í ermina á sér til að tryggja sér sæti næstu mánuði eða ár á þingi.

Píratar svöruðu „Betri aðbúnaður til að sinna sjúklingum. Minna vaktaálag til að eiga líf utan vinnu. Og hærri laun“ það hljómar vel í eyrum læknisins og líklega allra heilbrigðisstarfsmanna. Spurningin sem kemur strax á eftir er hvernig?? Þá vantar svarið auðvitað eins og hjá flestum þegar spurt er um útfærslu.

VG segir „efla annars vegar sérgreinalækningar inni á sjúkrahúsunum og taka upp valfrjálst tilvísanakerfi samhliða styrkingu heilsugæslunnar þannig að heilsugæslan fari raunverulega að virka sem fyrsti valkostur. Að lokum má benda á að bygging nýs Landspítala með viðunandi vinnuaðstæðum fyrir lækna er auðvitað forsenda þess að hægt verði að bæta mönnunina á spítalanum.“ Gott og blessað en heilbrigðiskerfið samanstendur af mun fleiri stéttum en læknum og merkilegt að nær öll framboðin missa marks um þann veruleika sem felst í skorti á öðru fagmenntuðu fólki, svosem hjúkrunarfræðingum og svo kemur spurningin hvernig á að gera þetta konkret?

Framsókn kom með þessi svör „Mæta má bráðavanda Landspítala með að nýta auðar deildir á þeim heilbrigðisstofnunum sem eru í nágrenni Reykjavíkur“ maður spyr sig af hverju þeir gerðu það ekki þegar þeir voru í ríkisstjórn?

Samfylkingin svarar „Það verður að reisa nýjan Landspítala strax og heilsugæslan verður að fá peninga til að sinna verkefnum sínum“ Líka mjúkir tónar fyrir heilbrigðisstarfsfólk, spurningin er hvernig verður þetta raunverulega útfært? Strax er áhugavert og mjög teygjanlegt hugtak í pólitík skilst mér.

Sjálfstæðisflokkur kemur með þessa nálgun „stytta legutíma sjúklinga meðal annars  með  bættari mönnun sérfræðinga á Landspítala, áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarrýma, öflugri heimahjúkrun og fjölgun endurhæfingarrýma. Þá verður að halda áfram að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og létta þannig álagi af LSH.“ Heilbrigðisráðuneytið var undir stjórn Sjálfstæðisflokks fyrir ekki alls löngu, efndirnar hefðu mátt vera talsvert meiri þó eitthvað af þessu hafi mjakast áfram. Spurningin væri þá hversu mörg rými, á að dekka þörfina eða ekki? Hvernig á nákvæmlega að styrkja heilsugæsluna, að minnsta kosti hefur fé ekki fylgt hug um slíkt.

Björt framtíð „þarf að bæta samskipti og stjórnun með áherslu á vellíðan starfsfólks og tækifæri til að þróast í starfi. Allur aðbúnaður starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda þarf að auka tækifæri einstaklinganna til að líða vel á spítalanum, andlega, félagslega og líkamlega“ Frábært, hvernig?

Viðreisn notar færri orð en flestir „Stefna Viðreisnar er að uppbyggingu Landspítala við -Hringbraut verði flýtt og lokið eigi síðar en árið 2022“ það eru stór orð og vonandi geta menn staðið við þetta á 5 árum, húrra ef það tekst að klára spítala á þessum tíma, hvar sem hann verður fyrir rest.

Ætla ekki að dekka önnur framboð í þessum pistli eins og er það kemur mögulega næst. Þetta eru máttarstólparnir  sem hafa haft völdin á hinu háa Alþingi síðustu ár og merkilegt nokk virðist heilbrigðiskerfið enn glíma við sömu vandamál og fyrir síðustu og þarsíðustu og jafnvel þarþarsíðustu kosningar, ætla ekki að beita fleir þarþarþar en þið skiljið hvað ég á við.

Vona innilega að þau framboð sem munu njóta brautargengis í kosningunum framundan standi undir væntingum og að við séum ekki í einhverj lélegu Deja Vu um innantóm loforð eina ferðina enn

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Teitur Guðmundsson
Nánar um höfund ...

Læknir með áhuga á heilbrigðismálum, forvörnum, heilsueflingu og svo auðvitað öllu mögulegu milli himins og jarðar. Ég hef ritað um nokkurra ára skeið greinar og fræðsluefni í blöð og á vefi víða. Hér vil ég gjarnan nota tækifærið til að taka þátt í umræðu á annan hátt en ég hef gert. Vona að þið hafið gaman af..
RSS straumur: RSS straumur