Miðvikudagur 23.03.2016 - 00:08 - FB ummæli ()

Hvað er . . . . Alþingi? Hvað er vantraust?

Ofangreindur titill má standa eins og hann er eða það má bæta inn í hann eftir vild, hver svo sem skoðun manna er á Alþingi. Það er hins vegar rétt að benda á í tilefni skattaskjólsreiknings fjölskyldu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að Alþingið okkar og þingmennirnir okkar, með umboð frá þjóðinni, mun ekki taka á því máli eins og þarf. Ekki vegna þess að einstaka þingmenn vilja það ekki og ekki vegna þess að það sé ekki rétt. Heldur vegna þess að íslensk stjórnmálastétt er sjálf svo innvikluð inn í það pólitíska jábræðralag sem ræður ríkjum á Alþingi, að hún er siðferðilega ófær um að leysa málið.

Ástæðan er harla einföld og menn þurfa aðeins að spyrja sig einnar spurningar. Hvað myndi Samfylkingin gera ef hún væri í ríkisstjórn með Framsókn þegar þetta mál kom upp? Eða Vinstri-græn? Eða Björt framtíð? Þau myndu gera nákvæmlega það sama og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú. Draga sig aðeins til baka og láta Framsókn taka slaginn en taka samt aldrei í mál að fórna ríkisstjórnarsamstarfinu, þ.e. völdunum. Hér má að sjálfsögðu víxla nöfnum allra Fjórflokkana að vild í hvað áttir sem menn vilja en niðurstaðan yrði alltaf sú sama. Hvaða samstarfsflokkur sem er með hvaða forsætisráðherra sem væri, í núverandi kálgarði Fjórflokksins, myndi ekki slíta stjórnarsamstarfi út af svona máli.

Því er það nauðsynlegt að það verði Píratar sem leggi fram vantrausttillögu á forsætisráðherra svo hún hafi eitthvert vægi, og já það er nauðsynlegt að slík tillaga komi fram. Fyrst og fremst af prinsippástæðum, því þó ekki séu miklar líkur á því að hún verði samþykkt, þá kallar slík tillaga fram þá umræðu sem þarf um málið. Sú umræða þarf að fara fram þar sem forsætisráðherra sjálfur neitar að ræða það, sem og varaformaður Framsóknarflokksins og ritari hans líka. Sú náhirð Fjórflokksins sem kallar sig stjórnarandstöðu ætti svo að sjálfsögðu að vera með á málinu og styðja það alla leið, fyrir siðasakir, þar sem það er ólíðandi að svona skattaskjólsleyndarhjúpur fái að hvíla í þögn yfir fjármálum milljarðamæringsins sem er forsætisráðherra landsins.

Það er líka hefð fyrir því að RÚV sjónvarpi beint frá umræðum á Alþingi um vantraust og því mun slík tillaga og umræðurnar um hana vera upplýsandi fyrir almenning í landinu um viðhorf alþingismanna til málsins, sem og að varpa ljósi á það hvað formanni Sjálfstæðisflokksins finnst um það, en hann hefur, eins og kunnugt er, dregið lappirnar í að kaupa gögn um íslendinga sem eiga eignir í skattaskjólum. Slík umræða dregur líka fram þá undarlegu niðurstöðu síðustu kosninga, að meirihluti þjóðarinnar kaus sér tvo milljarðamæringa til að stýra landinu og neyðir almenning (vonandi) til að mynda sér skoðun á því hvort slíkt hafi verið æskilegt, og sé æskilegt í næstu kosningum að ári.

Með nýju stjórnarskránni hefði almenningur getað krafist þingrofs og kosninga með undiskriftasöfnun, í stað þess að horfa bjargarlaus á. En einmitt þess vegna kastaði Fjórflokkurinn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í ruslið og við sitjum því enn upp með beyglað Alþingi og brogað þingræði sem er ófært um að taka á málum. Vantrausttillaga skerpir á því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur