Þriðjudagur 04.02.2014 - 18:38 - FB ummæli ()

Þjóðremban einangrar og veikir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febr. s.l.

Þjóðremban einangrar og veikir

Hjá flestum þjóðum verður til pólitísk meginkenning eða leiðarvísir sem myndar umgjörð  utan um hugmyndir hennar og athafnir. Hún framkvæmir og hugsar innan þessa ramma. Þjóð sem ekki veit hvað hún vill eða hvert hún stefnir er á flæðiskeri.Hún rekur fyrir innlendri og erlendri ágengni.Skortur á framtíðarsýn er kjörástæða fyrir  snöggsoðnar skyndilausnir eða að uppvakin þjóðernishyggja fylli tómarúmið.Þjóðir þurfa skýra hugsun og skynsemi.Þetta hvorttveggja á erfitt uppdráttar,nema helst hjá þroskuðum þjóðum.Þroski er uppsöfnuð reynsla,bæði jákvæð og neikvæð,sem þjóð hefur unnið úr og ræktað svo úr varð pólitísk menning.Í þeirri úrvinnslu er hvorki þjóðernishyggja né pólitískar kreddur hollir ráðgjafar.Þjóð þarf að þekkja takmörk sín.Hún þarf að kunna að búa sig í góðu veðri.

Kreddur og þjóðernishyggja

Þjóðir sem ná ekki tökum á skynsemishyggju grípa oft til hrásoðinnar en fyrirheitaríkra kenninga eða ganga í tilfinningabanka þjóðhyggjunnar.Nítjánda öldin var öld pólitískra öfga. Gangsettar voru allar hugsanlegar kenningar s.s. kommúnismi,fasismi, nazismi svo og margar útgáfur af sósíalisma og kapítalisma. Þjóðernishyggjan tók á sig margar sérkennilegar myndir,sem risu hæst í þýska nazismanum.Engin pólitísk sérhyggja hefur leitt til meiri úlfúðar né átaka þjóða í millum en þjóðernishyggjan.Aðeins pólitísk vanþroska þjóðir féllu í þá banvænu gryfju að taka upp og útfæra öfgafyllstu hugmyndakreddurnar.Þær guldu þess dýru verði.Við Íslendingar heyrðum bergmál þessa tíma, þegar Sovét-Ísland var sett hér á dagskrá, og fengum að kenna á því, þegar hrá nýfrjálshyggjan fékk að leika hér lausum hala. Hún varð okkur dýrkeypt.

Þjóðrembingur smáþjóðar

Með þeim umskiptum sem urðu í landstjórninni eftir síðustu kosningar var þjóðernisstefna sett á blótstallinn að nýju. Hún hafði að vísu verið notuð ótæpilega sem eldsneyti til að kynda undir fjárglæfraútrás íslenskra bankamanna fyrsta áratug aldarinnar.Þá höfðum við,að eigin sögn, yfirburði yfir aðrar þjóðir,einkum á sviði hnattvæddra fjármálaviðskipta.Forsvarsmenn þjóðarinnar voru ötulir við að kynda eldana.Nú er þjóðbusastefna notuð til að fjarlægja landið Evrópu,einangra landið frá nágrönnum okkar.Hún er beitt pólitískt vopn. Hún er ekki eðlislæg þjóðum. Þjóðrækni er það hins vegar, sem er væntumþykja og ræktarsemi við arf og endurminningar.Þjóðbusastefna er lúðalegt stærilæti og lítillækkun annarra þjóða.Hún verður að þjóðrembu,þegar við teljum okkur yfir aðra hafna. Stundum er haft á orði, að það skaði engan, því við séum bæði fá og smá. Skyldi þeim erlendu sparifjáreigendum og fjárfestum sem treystu íslensku bönkunum fyrir peningum sínum hafa fundist íslensku bankarnir vera smáir í sniðum og lítillátir? Eins og eingisprettur fóru þeir ránshendi um peningahirslur Evrópu og hirtu allt sem á vegi þeirra varð, með íslenskan þjóðrembing í veganesti. Engir voru stórtækari í erlendu fjárnámi en forkólfar íslensku bankanna á jafn skömmum tíma. Þeir fengu með sér bæði forseta og ríkisstjórnir til að undirstrika tigin þjóðargen, og þar með gæði viðskiptanna.Svo segja menn að þjóðrembingur smáþjóða sé saklaus.

Deilum með öðrum.

Smáþjóðir þurfa á heilbrigðu sjálftrausti að halda til að verða ekki áhrifalausar.Einar og sér eru þær ætíð veikari en í samstarfi við aðrar.Við urðum áþreifanlega vör við þetta í samningunum um EES. Þegar að því kemur að þjóð eigi náið samstarf við aðrar, þá er sjálfsmyndin viðkvæmust. Sé hún slök, þá er gripið til þjóðernishyggjunnar.Sé hún traust þá gengur flest upp.Það er ekki hættulegt lítilli þjóð að semja af styrkleika, en háskalegt að þora það ekki vegna kjarkleysis.Við Íslendingar erum bernskir hvað samstarf við aðrar þjóðir áhrærir.Við höfum aldrei lært að lifa við og þroskast í nánu samstarfi og samlífi við aðrar þjóðir. Þjóðin þarf að læra að deila með öðrum og gefa – ekki bara heimta og þiggja. Við lærum það  ekki með því að loka okkur af. Það þekkjum við nægilega sem eyjarskeggar langt úti á rúmsjó,með hafið eitt sem nágranna. Við höfum aldrei viljað gefa hafinu neitt eða deila með því nokkru. Við höfum bara tekið. Þau einkenni eru því miður afar rík í framkomu gagnvart og mati okkar á erlendum þjóðum. Engin Evrópuþjóð ein og sér, ekki einu sinni Þjóðverjar, er nægilega öflug til að standast ógnanir hnattvæðingarinnar, hvað þá smáþjóð eins og við. Náið samstarf við evrópskar vinaþjóðir er okkur lífsnauðsynlegt; þjóðir sem deila með okkur gildum, lýðræðis, valddreifingar, mannréttinda og frjálsra viðskipta. Þar eigum við heima.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur