Þriðjudagur 13.09.2016 - 10:35 - FB ummæli ()

Ábyrgðarlaust valdaembætti ?

 

Svanur Kristjánsson prófessor hefur sett fram nýja túlkun á forsetaembættinu og stöðu þess í stjórnkerfinu. Snemmsumars  var endurtekið við hann áhugavert viðtal um fyrrnefnt efni. Hann hefur, að eigin sögn, lagt að baki mikla vinnu og stundað ítarlegar rannsóknir á skjölum frá þeim tíma er stjórnarskráin var rædd og afgreidd á alþingi og komist að þeirri niðurstöðu að embættið hafi verið hugsað sem valdaembætti og fyrsti forseti lýðveldisins hafa beitt því þannig, ekki hvað síst við meðhöndlun utanríkismála. Þetta ver í lok mesta hildaraleiks tuttugustu aldarinnar  og Ísland orðið lýðveldi. Sjálfstætt eða fullvalda var það naumast, því trauðla verður þjóð sem ekki ræður eigin vörnum talist sjálfstæð. Svanur segir að Sveinn Björnsson hafi í reynd sjálfur samið við Roosevelt um áframhaldandi dvöl bandaríska hersins á landinu og boðið  honum 99 ára samning þar að lútandi. Þarna gekk forsetinn ótvírætt gegn stefnu þáverandi ríkisstjórnar, enda þurfti ekkert minna til, en að koma henni frá, til að ná fram samþykki Keflavíkursamningsins. Allt gerðist þetta á bak við tjöldin að þjóðinni forspurðri. Hún fékk ekkert að vita af þessu brölti forsetans, fyrr en nú á yfirstandandi áratug. Svanur færir einnig rök fyrir því að embættið hafi verið hannað sem mótvægi við vald þingsins, sem eins konar öryggisventill, til að grípa til , sé sannalega mikil gjá milli ákvarðana alþingis og skoðana forsetans (þjóðarinnar ?). Við búum þannig við takmarkað þingræði. Þetta er eflaust rétt hjá Svani. En duga þessi rök til að geirnegla þá túlkun,að þar með sé ljóst að forsetaembættið hafi verið hannað sem valdaembætti ? Mér sýnist vanta eitt mikilvægt atriði í framsetningu Svans.

Ábyrgðarlaus af öllum stjórnarathöfnum

Það sem vantaði í annars merka rannsóknarumsögn var umfjöllun um ábyrgðarleysi forsetans og afskipti hans af stjórn landsins. Það eina sem er kýrskírt í stjórnarskránni varðandi forsetaembættið er, að sá sem situr embættið er ábyrgðarlaus af öllum stjórnarathöfnum. Út frá því verður að álykta um stöðu embættisins. Hvernig má það vera að mikið valdaembætti sé ábyrgðarlaust af öllum stjórnarathöfnum ? Það er andstætt öllum gildum ábyrgrar stjórnsýslu og lýðræðisfyrirkomulagsins sem slíks, að til sé valdasembætti án ábyrgðar. Án skilgreindrar ábyrgðar er lýðræðið varhugavert stjórnarform. Við hljótum að mega draga það í efa, að hugsunin á bak við hönnun embættisins í stjórnarskránni hafi verið þessi. Ef ábyrgðarleysið felst í því að flytja ábyrgðina yfir til þjóðarinnar, þá verður ábyrgðin aðeins þá virk þegar þjóðin  fær að greiða atkvæði um ágreiningsatriðið. Um leið og forsetinn neitar að undirrita lög, færðist ábyrgðin yfir til þjóðarinnar, sem afgreiðir málið. Að því er virðist, felast í því ákveðin rök, sem bera vott um nokkra víðsýni og jafnvel framsýni þeirra sem um þetta fjölluðu. Við höfum hins vegar verið þáttakendur í því að forsetinn hefur neitað undirskrift og ríkisstjórn dregið  lögin til baka. Þjóðin  fékk aldrei að segja sitt álit. Forsetar hafa vissulega leikið sér með þá veikleika sem eru í stjórnarskránni hvað forsetaembættið varðar.

Takmörkun valdsins

En eins og dæmin hér að framan sýna en einnig ekkik hvað síst í nýrri fortíð, þá eru fingraför forsetans, þegar að annars konar stjórnarathöfnum kemur, víðar en með því að synja um undirskrift. Bæði Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson voru á kafi í afskiptum af stjórnarmyndunum og stefnumótun  í meginmálum. Sveinn í öryggismálum þjóðarinnar við endalok heimsstríðsins. Ásgeir í eftirmála gjaldþrots haftastefnunnar við upphaf viðreisnar. Ólafur Ragnar með bein afskipti af uppgjöri við hrunið og mótun utanríkistefenunnar. Hafi hugsunin með 26. grein stjórnarskrárinnar verið sú, sem túlka má af orðum doktors Svans, þá ætti að takmarka stjórnarafskipti forsetans við það eitt að undirrita eða neita að undirrita lög, sem síðan yrði vísað í dóm þjóðarinnar. Annari aðkomu forseta að stjórnarathöfnum verður trauðla vísað til þjóðarinnar. Þau verða ábyrgðarlaus afskipti. Það er og hefur verið andstætt öllum heilbrigðum sjónarmiðum og grundvallargildum lýðræðisins að ábyrgðarlausir menn séu að vasast í stjórnarathöfnum. Hver var ábyrgð Sveins Björnssonar,þegar hann samdi við Roosvelt ? Ekki var þeim samningum vísað til þjóðarinnar. Ábyrgðalaus maður skuldbindur þjóðina  gagnvart erlendu stórveldi til langframa. Er það í anda eðlilegrar ákvörðunartöku? Var það á þeim tíma virkilega talið sjálfsagt ? Er það svo að stjórnarskráin leyfi að ábyrgðarlaus maður hafi nánast frjálst spil í samskiptum sínum við erlend ríki og eftir aðstæðum gagnvart alþingi og ríkisstjórn. Svo rugluð erum við orðin í hugsun um valdsvið forsetaembættisins, að við áttum fullt í fangi með að fylgjast með pólitískum nýjungum sem frambjóðendur til forseta höfðu á prjónunum, ef þeir yrðu kosnir til embættisins. Þetta þóttust þau hafa lært að stjórnarafskiptum síðasta forseta. Sé ályktun doktor Svans rétt,að forsetaembættið sé valdaembætti, sem ég er ekki sannfærður um, verður við fyrsta tækifæri að gera forsetann ábyrgan gerða sinna, með einum eða öðrum hætti. Hin leiðin er sú að takmarka afskipti hans með skýrum hætti og án mikils svigrúms til túlkana. Til þess þurfum við nýja stjórnarskrá.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur