Sunnudagur 21.05.2017 - 20:08 - FB ummæli ()

Nú er vonandi lag

 

Mikið er fárast yfir ákvörðun HB Granda um að sameina bolfiskvinnslu fyrirtækisins í Reykjavík. Stór orð falla um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og frjálsu framsali kennt oftast kennt um. Á árunum 1984-1986, þegar aflamarkskerfið var í smíðum tók sá, sem þessar línur ritar þátt í vinnu nefndar sem m.a. ræddi og gerði tillögu um hvar binda ætti aflamarksheimildir. Mikill meirihluti  nefndarmanna var þeirrar skoðunar að festa ætti þær alfarið við skip. Ég lagði til að skipta ætti  þeim upp,bæði milli skipa og fiskvinnslustöðva, hvort tveggja í samræmi við afla- eða  vinnslureynslu síðustu ára. Þótt megin tilgangur kerfisins væri að draga úr sókn þurfti jafnframt að hanna fiskveiðikerfi sem ýtti undir afkomubata í greininni. Öllum átti að vera ljóst að hagræðing þýddi fækkun skipa og samþjöppun aflaheimilda. Enginn sem umfjallaði og horfði á málið með opnum augum gat blekkt sig bak við vanþekkingu. Ljóst var að kerfið myndi leiða til fækkunar útgerða og aflaheimildir myndu flytjast milli útgerðstaða og landshluta. Tillaga mín hefði eflaust dregið eitthvað úr hagræðingarferlinu og viðspyrna fiskvinnslustaða víðs vegar um land orðið raunhæfari. Þessir staðir hefðu fengið mikilvægt vopn í hendur. Lögin voru síðan samþykkt án nokkurrar tilvísunar til kvótabindingar í landi. Ítrasta hagræðingakrafa réð ferð. Það var vissuleg mikilvægt sjónarmið.

Samþjöppun aflaheimilda

Þessum umbyltingarþætti fiskveiðistjórnunarkerfisins er enn ekki lokið, heldur ekki samþjöppun aflaheimilda.Þetta á því ekki að koma stjórnmálamönnum í opna skjöldu. Samþjöppun vinnslu og veiða er kjarninn í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þeir sem reka upp ramakvein nú, hafa ekki skilið kerfið. Það breytir því ekki að þessar tilfærslur koma ætíð afar ill niður á þeim sem fyrir þeim verða. Þau eru varnarlaus. Þau hafa engin vopn nem ályktanir og yfirlýsingar, eins áhrifaríkar og þær eru, þegar rekstrarhagsmunir eru annars vegar. Mannanna lögum  geta menn þó alltaf breytt. Komin er ágæt reynsla á kerfið. Það hefur virkað eins og því var ætlað.Þegar það var sett á,voru ástæður þær að mikilvægir fiskistofnar voru að hruni komnir. Afkoma útgerða var slæm. Heildar skuldir þeirra voru á þessum árum vel yfir 200 m.kr. Án samþjöppunar aflaheimilda hefðu þær flestar orðið gjaldþrota. Vegna mikilvægi sjávarútvegs í afkomu þjóðarinnar skipti það öllu að um leið og heildaraflamark var lækkað um nokkur hundruð þúsund tonn, varð að hanna kerfi sem sneri þessu við, og það hratt. Einbeitingin á hagræði var því skiljanleg – já, nauðsynleg.

Umbylting veiða og vinnslu

Fiskveiðstjórnunarkerfið hefur umbylt  veiðum og vinnslu sjávarafurða. Útgerðarfyrirtækin eru orðið afar stöndug og greiða eigendum sínum myndarlegan arð. Þau ráða yfir gjöfulum aflaheimildum hér heima og ráðskast jafnvel með fiskveiðiheimildir út um heim. Þau standa nú fjárhagslega styrkari fótum en sams konar evrópsk fyrirtæki. Þótt margir útgerðmenn hafa leitt fyrirtæki sín farsællega gegnum þessi ár, þá er það ekki rekstrarsnilld útgerðamanna, sem mestu máli hefur skipt. Það er hafið yfir allan vafa að fiskveiðistjórnunarkerfið eigi þar lang stærsta hluta að máli.  Sjávarútvegurinn dvelur ekki lengur á bráðamóttöku .Fiskurinn  í sjónum kring um landið er í eigu íslensku þjóðarinnar. Ekkert er eðlilegra en að þjóðin fái alvöru gjald fyrir að heimila að miðin séu nýtt. Allir borga fyrir að fá að nýta annarra eign og það án beintengingar við afkomu. Fólk þarf að borga húsleigu þótt afkoman þess sé bágborin. Laxveiðileyfið verður að borga, þótt ekkert veiðist. Þetta er megin regla. Þegar svonefnd tvíhöfðanefnd var að störfum 1992/3 voru bæði fyrrnefnd atriði , auðlindagjald og lágmarks binding aflaheinmilda við vinnslustaði  sett á dagskrá. Þeim var að lokum báðum ýtt útaf borðinu, því ekki náðist samkomulag  þar um. Þetta eru enn þau tvö atriði sem mest koma í veg fyrir að sátt náist um kerfið. Nú er vonandi lag.

Birtist i Mbl. 18. 5. s.l.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur