Föstudagur 25.5.2018 - 17:59 - FB ummæli ()

Hvað mun veröldin vilja?

Í tilefni kosninga til sveitastjórna á morgun og atburðanna úti í hinum stóra heimi langar gamlan barnakennara og siðaprédikara að norðan að minna á upphaf ádeilukvæðisins Heimsósómi eftir Skáld-Svein þar sem segir:

Hvað mun veröldin vilja.

Hún veltist um svo fast

að hennar hjólið snýr.

Skepnan tekur að skilja

að skapleg setning brast

og gamlan farveg flýr.

Hamingjan vendir hjóli niður til jarðar.

Háfur eru til einskis vansa sparðar.

Leggst í spenning lönd og gull og garðar,

en gætt er síður hins er meira varðar.

Talið er að Skáld-Sveinn hafi verið uppi á 15. öld og í kvæðinu bregður hann upp lýsingu á þjóðfélagi samtíðar sinnar. Kvæðið er talin elsta heimsádeila eða þjóðfélagsádeila á íslensku, sem nokkuð kveður að, og skáldið segir „stórbokkum aldar sinnar til syndanna af heilum hug og mikilli andagift, svo að setja verður hann á bekk með helztu skáldum vorum fyrir þetta eina kvæði,” eins og Sigurður Nordal segir í Sýnisbók íslenzkra bókmennta.

 

Í erindinu spyr Skáld-Sveinn, hvert í ósköpunum veröldin stefni, því að hamingjan – hamingjuhjólið – virðist snúast samtímanum í óhag, allt skynsamlegt skipulag skorti og mútur – háfur – eru hvergi til sparaðar til illverka og almenningur sökkvir sé peningaeyðslu og gætir þess ekki sem skiptir meira máli.  Þetta er glögg lýsing á því, sem við barnakennarar og siðaprédikarar, þykjumst sjá nú á dögum

 

Til þess að leggja enn meiri áherslu á siðaprédikun okkar Skáld-Sveins má benda á, hverja undirrót að þessu öllu sálugi séra Hallgrímur Pétursson telur vera en í sextánda Passíusálmi sínum segir hann:

 

Undirrót allra lasta

ágirndin kölluð er.

Frómleik frá sér kasta

fjárplógsmenn ágjarnir,

sem freklega elska féð,

auði með okri safna

andlegri blessun hafna,

en setja sál í veð.

Og til að bæta einum prédikaranum við þá segir Jón biskup Vídalín í Postillu sinni: „Ágirndin er framsýni kölluð, drambsemin höfðingsskapur, hræsnin viska.”

En ungt og vel menntað fólk og konur hafa komið fram á sjónarsviðið til þess að auka réttlæti og jafnrétti á öllum sviðum – og vonandi er sumarið í nánd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.5.2018 - 21:45 - FB ummæli ()

Að frelsa heiminn

Eftir að hafa horft á fréttir síðustu vikna í vefmiðlum heimsins um hörmungar víða um þennan volaða heim – nú síðast skelfingarnar í Jemen – og þurfa síðan að horfa á kvöldi uppstigningardags á sýndarmennsku okkar vesturlandabúa á EUROVISION, þar sem verið er að sýna brjóst og læri á hæfileikalausum körlum og konum með undirleik hæfileikalausra tónlistarmanna. Þá vaknar spurning sveitadrengs austan af landi, hvers vegna í andskotanum „þjóðir heimsins”, sem svo eru kallaðar, og þá ekki síst þetta fyrirbæri sem kallast EUROVISION, sameinast ekki um að eyða fjármunum sínum – milljörðum dala – í að hjálpa fátæku fólki um allan þennan volaða heim að lifa af. Ef til vill þarf að þó áður að vinna bug á auðvaldi heimsins sem byggir nú einkum á því að selja vopn til heimskra valdhafa sem byggja vald sitt á ofbeldi gegn fátæku fólki. For helvede.

Flokkar: Stjónmál

Þriðjudagur 24.4.2018 - 18:20 - FB ummæli ()

Framtíð íslenskrar tungu – íslensk málstefna

Enn er rætt um framtíð íslenskrar tungu – svo og um framtíð fjölmargra af um 6000 tungumálum heimsins.  Margir óttast að íslenskan deyi út á næstu áratugum ásamt þriðjungi annarra tungumála heimsins.  Hins vegar er á það bent, að þau tungumál standi sterkar sem eiga sér bókmenntahefð og þar sem áhugi er á málinu – enda þótt þau samfélög séu ekki fjölmenn.

Árið 1994 gaf bandaríski félagsfræðingurinn John Naisbitt [f 1929] út bók sem hann nefndi Global Paradox.  Þar segir hann, að aukin samskipti þjóða í verslun og viðskiptum muni styrkja þjóðernisvitund og tungumál einstakra þjóða svo og þjóðríkin sjálf.  Þá hélt hann því fram, að því víðtækari sem samvinna á sviði viðskipta yrði, þeim mun mikilsverðari yrði hver einstaklingur.  Einnig taldi hann að ný upplýsingatækni leysti alþjóðlega gjaldmiðla af hólmi, sem nú er komið fram, og að þýðingarvélar myndu styrkja einstakar þjóðtungur, af því að alþjóðleg samskiptamál yrðu óþörf með öflugum þýðingarvélum, sem einnig er komið fram.  Auk þessa taldi John Naisbitt, að því alþjóðlegra sem starfsumhverfi manna yrði, þeim mun þjóðlegri yrðu menn í hugsun.  Lítil málsamfélög í Evrópu fengju aukinn styrk vegna þess að fólk legði meiri rækt við menningarlega arfleifð til mótvægis við alþjóðavæðinguna.  Þetta hefur þegar gerst, þótt sums staðar hafi þessi aukna vitund um þjóðerni birst í neikvæðum myndum, m.a. vegna aukinnar andúðar á innflytjendum og á flóttafólki.

 

„Purity of the Icelandic language”

John Naisbitt minnist í bók sinni Global Paradox sérstaklega á Íslendinga og íslenska tungu og bendir á, að margir Íslendingar tali ensku og jafnvel önnur tungumál.  Engu að síður varðveiti Íslendingar hreinleika íslenskunnar – „purity of the Icelandic language” eins og hann orðar þetta – og byggi þar á gamalli bókmenntahefð.

Í mínum huga er engin vafi á, að íslenska mun lifa enn um ókomna tíð og muni vega þyngst í því að varðveita stjórnarfarsleg fullveldi Íslands.  Íslenskt þjóðfélag hefur breyst mikið á fáum áratugum – eins og eðlilegt er – og alþjóðahyggja hefur sett svip sinn á viðhorf Íslendinga – ekki síst viðhorf ungs fólks sem eru meiri „heimsborgarar” en fyrrum og ef til vill óbundnari heimahögum en fyrri kynslóðir, enda var á tímabili talað um „hinn nýja Íslending” sem léti sér í léttu rúmi liggja hvar hann væri búsettur og hvaða mál hann talaði, aðeins ef hann hefði starf og laun við hæfi og gæti lifað því lífi sem hann kýs.  Þetta virðist hins vegar vera að breytast.

 

Íslensk málstefna

Enginn vafi leikur á, að margvísleg hætta steðjar að íslenskri tungu.  Því þarf að móta málstefnu sem víðtækt samkomulag yrði um.  Til þess verður að efna til umræðu um íslenskt mál og íslenska málstefnu.  Þurfa sem flestir að taka þátt í þeirri umræðu.  Auk stjórnvalda þurfa rithöfundar, skáld, kennarar, skólayfirvöld, málvísindamenn, bókmenntafræðingar, sagnfræðingar, félagsfræðingar, læknar, lögfræðingar og prestar svo og fulltrúar atvinnulífs og viðskipta.  Og til þess minnast á máltækni í þessum fáu orðum mun hún ekki skera úr um líf nokkurrar þjóðtungu.  Þar verða fundnar leiðir til að geta átt samskipti við tæki og tól á hverri þjóðtungu fyrir sig.

En að lokum lítið dæmi um ferskleika íslenskrar tungu: rappið sem í margra eyrum er óskiljanlegt, framburður afkáralegur og reglur um málfræði og hljóðfræði virtar að vettugi.  Raunin er hins vegar sú, að rappið er eitt dæmi af mörgum um áhuga á íslenskri tungu og ferskleika hennar.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.3.2018 - 10:25 - FB ummæli ()

Hugarafl – opið samtal

Undanfarin fimmtán ár hefur fagfólk innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: sálfræðingur, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og jógakennari starfað í teymi í samvinnu við Hugarafl, sem eru frjáls samtök þeirra sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu.  Starf teymisins er nefnt „geðheilsa-eftirfylgd” og er hornsteinn þjónustustarfs sem byggir á nýrri leið innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins í samræmi við áherslur í aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum, ályktun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, þar sem megináhersla er lögð á opin úrræði og samstarf við þá sem á hjálp þurfa að halda – og fjölskyldur þeirra – sem geta leitað eftir þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.  Orðið valdefling felur í sér að hafa vald til þess að taka ákvarðanir sjálfur, hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum og læra að hugsa á gagnrýninn hátt og hafa áhrif á eigin líf og efla jákvæða sjálfsmynd sína og vinna bug á fordómum.

Nú hefur yfirstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ákveðið að leggja niður fjögur stöðugildi, sem tengst hafa þessu hjálparstarfi – án rökstuðnings – og heilbrigðisráðherra hefur enn ekki lagt til lausn á málinu sem henni ber skylda til.  Fella á þetta hjálparstarf undir tilvísanakerfi og þeir, sem á hjálp þurfa að halda, geta ekki lengur leitað beint til þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.

Fimmtán ára starfi kastað fyrir róða

Árið 2016 fengu á sjötta hundrað einstaklingar reglubundna þjónustu „geðheilsu-eftirfylgdar”. Það ár leituðu nær 900 einstaklingar beint til Hugarafls.  Voru komur þessa fólks yfir 12 þúsund.  Veitt voru yfir 2000 viðtöl (símaviðtöl ekki meðtalin), auk vitjana, þjálfunar á vettvangi og útkalla vegna bráðatilfella.

Nú á að kasta fyrir róða fimmtán ára starfi þar sem brotið var blað í hjálp við þá sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu sinnar.  Guðný Björk Eydal, prófessor við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, telja starfið sé einstök þjónusta sem ekkert annað úrræði veitir með sama hætti. „Aðferðir sem byggja á hugmyndafræði valdeflingar og aðferðum batalíkans hafa á undanförnum árum verið grunnstef í alþjóðlegri stefnumótun í geðheilbrigðismálum,” eins og segir í greinargerð Guðnýjar Bjarkar og Steinunnar Hrafnsdóttur.

Áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar

Sem kennari hálfa öld, þar sem ég horfði upp á vanmátt nemenda sem máttu sín minna og áttu fáa úrkosti, og sem aðstandandi einstaklinga sem hafa þurft á hjálp að halda vegna geðheilsu, skora ég á forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, Alþingi og Verferðarsvið Reykjavíkurborgar að reka af sér slyðruorðið og gefa Hugarafli kost á að vinna áfram að „geðheilsueftirfylgd”, sem er hornsteinn þjónustustarfs við þá sem glíma við geðheilsu og byggir á nýrri leið, bæði innan hins  íslenska og hins alþjóðlega geðheilbrigðiskerfis.

Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri

 

 

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.2.2018 - 12:36 - FB ummæli ()

Henri de Monpezat

Henri Marie Jean André de Laborde de Monpezat lést í Fredensborgarhöll á Norður Sjálandi 13. þ.m., 83 ára að aldri.  Er útför hans gerð í dag frá Hallarkirkjunni, Christiansborg Slotskirke, í Kaupmannahöfn.

Henri de Monpezat var fæddur 11. júní 1934 í héraðinu Talence í Frakklandi, skammt suður af Bordeaux, kominn af gamalli aðalsætt, Laborde de Monpezats.  Þegar hann var á barnsaldri bjó fjölskylda hans í Hanoi, en um það leyti sem síðari heimsstyrjöldinni hófst, hafði fjölskyldan flust á gamlan herragarð í Le Cayrou við Miðjarðarhaf, skammt frá landamærum Frakklands og Spánar.  Eftir stríð fluttist fjölskyldan aftur til Hanoi þar sem Henri lauk stúdentsprófi árið 1952. Í lok Víetnamstríðsins fluttist fjölskyldan enn til Frakklands. Henri de Monpezat las lögfræði og stjórnmálafræði við Sorbonne, en hafði áður stundað nám píanóleik í tónlistaháskólanum í París.  Herskyldu gegndi hann í Alsír á sjöunda áratugnum, en hóf síðan störf í utanríkisþjónustu Frakka og var sendur til Lundúna 1963, þar sem hann hitti Margrétu krónprinsessu árið, þar sem hún var einnig við nám.  Þau opinberuðu trúlofun sína í nóvember 1966 og gengu í hjónaband í Holmens Kirke 10. júní 1967.

Lengi gerðu Danir gys að „prinsgemalen”, eins og þeir völdu að kalla hann, og lýstu honum jafnvel sem seinfærum og félagslega vanþroska – „lidt tilbagestående og socialt handicappet” eins og séra Kristian Ditlev Jensen, sóknarprestur í Holbøl og rithöfundur segir, en hann lýsir Henri de Monpezat á annan veg en flestir aðrir: sem vingjarnlegum og orðvísum manni, margfróðum og vel menntuðum sem hlustaði með eftirtekt á viðmælendur sína og var  bæði hlýlegur og einlægur í viðmóti – „og hann notaði dönsk orð sem ég hafði aldrei heyrt áður”, eins og Kristian Ditlev Jensen segir og heldur áfram: „Maðurinn sem ég talaði við og hafði fengið orð fyrir að vera lítill málamaður, af því að hann talaði dönsku með frönskum hreim, var mikill málamaður, talaði þýsku, ensku og spænsku – og auk þess víetnömsku og kínversku reiprennandi – og dönsku með frönskum hreim, tungumál sem erfitt er flestum útlendingum að ná tökum á.” Lesa má um æviferil Henri de Monpezat í bókinni „Enegænger. Portræt af en Prins” eftir blaðakonuna Stéphanie Surrugue, en bókin kom út  hjá Politikens Forlag árið 2010 og þar er enn lýst miklum hæfileikar hans.

Henri de Monpezat hlaut óvenjulegt hlutskipti í lífinu. Hann kom ungur til Danmerkur og stóð alla tíð við hlið konu sinnar, en vildi ekki standa í skugga af neinum og storkaði ýmsum Dönum með franskri framkomu sinni.  Danmörk, hið mikla menningarland, hefur nú misst gáfaðan, svipmikinn, listfengan – en viðkvæman son sem reyndi að þjóna landi og þjóð eiginkonu sinnar af bestu getu.

Flokkar: Stjónmál

Laugardagur 20.1.2018 - 13:43 - FB ummæli ()

Sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018

Þingsályktunartillaga Alþingis

Í október 2016 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um, hvernig minnast skyldi aldarafmælis fullveldis Íslands.  Kosin var nefnd fulltrú allra þingflokka er undirbúa skyldi hátíðahöld árið 2018.  Fullveldisnefndinni var falið að taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd og rit um inntak fullveldisréttar, stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna þannig að fornar bókmenntir Íslendinga væru jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem í stafrænu formi, og hvetja skóla að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.  Að auki fól Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun um uppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

 

Ljóðaarfur Íslendinga

Í haust auglýsti fullveldisnefndin eftir tillögum að vönduðum verkefnum í tilefni afmælis fullveldisins.  Nokkrir ljóðaunnendur sendu nefndinni sundurliðaða áætlun um útgáfu sýnisbókar íslenskra ljóða 1918 til 2018 sem hefðu birst á öld íslensks fullveldis.  Nefnd kennara og fræðafólks skyldi velja ljóðin.

Gert var áð fyrir að í sýnisbókinni yrðu um þrjú hundruð ljóð með einfaldri myndskreytingu, skýringum og örstuttu æviágripi skáldanna.  Bókin yrði gefin út á vegum Menntamálastofnunar og Ríkisútgáfu námsbóka og afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla hinn 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í öllum skólum landsins.  Síðan yrði bókin notuð sem skólaljóð fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og seld ljóðaunnendum – og öðru áhugafólki á almennum markaði.  Í greinargerðinni var tekið fram, að með útgáfu bókarinnar væri ætlunin að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum einstaka ljóðaarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefði verið meiri.

Haft var samband við Rithöfundasamband Íslands til þess að kanna hvort unnt væri að slaka á kröfu ljóðskálda og annarra réttindahafa um höfundarlaun vegna birtingar ljóðanna.  Auk þess var haft samband við ýmis fyrirtæki og landssamtök til þess að leita eftir fjárstyrk til útgáfunnar sem brugðust vel við.

 

Svar fullveldisnefndar

Í svari fullveldisnefndar í nóvember s.l. segir: „Við val á verkefnum var litið til auglýstra áherslna þar sem segir m.a.: „Verkefni sem síður er litið til: Útgáfuverkefni, s.s. undirbúningur eða útgáfa bóka, starfslaun, útgáfa geisladiska eða rafræn (stafræn) útgáfa eða gerð sjálfstæðs námsefnis. Verkefni sem fela í sér skráningu upplýsinga eða skráningu á menningarminjum. Slíkt fellur utanafmælisársins. Ekki eru veittir beinir stofn- eða rekstrarstyrkir.” Einnig lítur nefndin til gæða verkefna, vandaðra áætlana og landfræðilegrar dreifingar.  Það tilkynnist hér með að ekki er unnt að styðja við tillöguna Sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018.”

Þessum dómi verður hópur áhugafólks um íslenskt mál og ljóðlist að hlíta – sætta sig við dóminn – þótt sumt í ummælum nefndarinnar stangist á því að á vegum nefndarinn verður unnið að útgáfuverkefnum, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna, rit um inntak fullveldisréttar og stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna – en ljóðin finna ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

 

Sýnisbók um íslensk ljóð

Í ljósi þess sem sagt er hér að ofan er hvatt til umræðu um, hvort ástæða er til að gefa út sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018 vegna þess að íslenskt fullveldi byggist á sjálfstæðu, lifandi tungumáli og skilningi á mikilvægi tungumálsins, en dýrmætustu perlur íslenskrar tungu eru ljóð, og aldrei hefur íslensk ljóðagerð staðið sterkar en síðustu 100 ár, ár fullveldisins.

Flokkar: Menning og listir

Föstudagur 12.1.2018 - 18:01 - FB ummæli ()

„Það sem dvelur í þögninni” – áhrifamikil bók um konur

Margar góðar bækur komu út á liðnu hausti: skáldsögur, minningarbækur og fræðirit – að ógleymdum ljóðabókum sem skipta tugum, enda hefur íslensk tunga aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú.  Staðhæfingin er reist á þeirri staðreynd að ekki aðeins á liðnu hausti heldur undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð, kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta, stendur með miklum blóma. Þá hafa nýmæli komið fram í ljóðagerð, vísnasöng og rappi, svo og  í auglýsinga­gerð í útvarpi og sjóvarpi, þar sem frumleiki, orðaleikir og fyndni, sem áður var óþekkt í málinu, hafa auðgað tunguna.

Ein bók frá liðnu hausti hefur sérstöðu fyrir margra hluta sakir, bók Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur sem hún nefnir Það sem dvelur í þögninni. Ásta Kristrún er brautryðjandi í námsráðgjöf á Íslandi og starfaði tæp tuttugu ár við uppbyggingu þjónustu Háskóla Íslands og allt frá bernsku hafa listir verið henni hjartfólgnar, svo og bækur, myndlist og tónlist.

Bókin Það sem dvelur í þögninni fjallar um ævi og örlög íslenskra kvenna á 19du og 20ustu öld.  Í upphafi bókainnar segir, að hvert sem litið sé í sögunni sé sjaldan getið um afrek kvenna og þær, sem komist hafi á spjöld sögunnar, hafi flestar komist þangað sakir grimmdar, lævísi eða galdra. Margar mikilhæfar konur dvelji hins vegar í hinum djúpa þagnarhyl aldanna.  Með bókinni vildi Ásta Kristrún einnig svipta hulunni af  þögninni um þrjár formæður sínar, Kristrúnu Jónsdóttur [1806-1881], Ástu Júlíu Thorgrímsen [1842-1893] og Kristrúnu Tómasdóttur [1878-1959], auk þess sem hún fjallar á nærfærin hátt um Jakobínu Jónsdóttur [1835-1919], eiginkonu Gríms Thomsens [1820-1896].  Kristrún Jónsdóttir var heitbundinn Baldvin Einarssyni [1801-1833] og beið hans í festum sjö ár, en hann gekk að eiga aðra konu í Kaupmannahöfn.  Sjö árum eftir heitrofið gekk Kristrún að eiga séra Hallgrím Jónsson [1811-1880] mikinn lærdómsmann, en Kristrún syrgði hins vegar Baldvin Einarsson  alla ævi.  Þá er mikill fegur að frásögn Ástu Kristrúnar um Guðnýju Jónsdóttur, skáldkonu frá Klömbrum í Aðaldal, en hún var systir  Kristrúnar og lést langt fyrir aldur fram eftir barnamissi og harðræði í hjónabandi.

Bókin Það sem dvelur í þögninni er skrifuð meðan barátta kvenna um allan heim gegn ofbeldi karla og kynferðislegri mismunun var að brjótast fram, og þótt bókin sé ekki skrifuð í tengslum við þá baráttu veitir hún þeirri mikilsverðu baráttu meiri dýpt.  Ásta Kristrún segir að frásagnir bókarinnar um þær merku konur sem skópu viðhorf hennar og tengingar við fortíðina séu ritaðar í minningu foreldra hennar, Jónínu Vigdísar Schram [1924-2007] og Ragnars Tómasar Árnasonar [1917-1984].

Næmni höfundar og tilfinning fyrir öðru fólki, aðstæðum þess og umhverfi mótast af einlægni og skáldlegum innblæstri af fólki úr lífi hennar svo að á stundum greinir lesandinn ekki milli skáldskapar og raunveruleika sem gerir bókina enn meira hrífandi.  Þá eiga þjóðfélagsmyndir bókarinnar og lýsingar á lífi fólks erindi við alla, karla og konur á nýrri öld nýrra réttinda og jöfnuðar þjóða og einstaklinga.

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 10.1.2018 - 18:25 - FB ummæli ()

Opinber tungumál heims

Mismunandi er hve mörg opinber tungumál eru í hverju sjálfstæðu ríki heims.  Samkvæmt skrá Sameinuðu þjóðanna eru aðildarríki þeirra nú 193 talsins.  Ísland var um tveggja áratuga skeið fámennasta ríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.  Nú eru 20 ríki fámennari.  Eins og lesendur þekkja, eru íbúar á Íslandi um 340 þúsund en aðeins eitt opinbert tungumál.  Á landinu eru hins vegar töluð um 100 – eitt hundrað – tungumál og á landinu býr samkvæmt skrá Hagstofu Íslands fólk sem fætt er í um 160 þjóðlöndum, flestir í Póllandi eða 13.811.  3.412 eru fæddir í Danmörku, 2001 í Svíþjóð, 1.132 í Noregi og 213 í Finnlandi.  1.751 eru fæddir í Þýskalandi, 1.489 í Bretlandi, 2.187 í Bandaríkjunum, 399 í Rússlandi, 682 á Spáni, 635 í Frakklandi og 342 á Ítalíu, 77 í Eþíópíu, 84 í Gabon og 90 í Kenía – og þannig mætti lengi telja.

Þetta er mikil breyting á 50 árum og hefur áhrif á málsamfélagið.  Engar kröfur hafa enn verið gerðar um annað – eða önnur opinber tungumál á þessu fámenna landi, enda sennilega tómt mál um að tala af ýmsum ástæðum.  Hins vegar er heimsmálið enska sífellt notað í auknum mæli í samskiptum fólks á Íslandi, s.s. í verslunum, veitingastöðum og á vinnustöðum.

Í Noregi eru íbúar um 5.2 milljónir og eru opinber tungumál tvö, norska og samíska.  Norska skiptist í tvennt: nýnorsku, sem er runnin frá gamla norræna málinu – eins og íslenska, og bókmál, sem er danska með sænskum framburði, eins og gárungarnir segja.  Í Danmörku eru íbúar nær 5.7 milljónir.  Opinbert tungumál er þar aðeins eitt, danska, enda þótt íbúar í landsins tali um 50 mállýskur og yfir 100 tungumál eins og á Íslandi.  Í Svíþjóð eru íbúar um 10 milljónir.  Frá 2009 er sænska eina staðfesta opinbera tungumálið í landinu.  Hins vegar eru samíska, finnsk-úgríska tungumálið meankieli, finnska, rómani og jiddiska, sem er mál Gyðinga frá Mið og Austur Evrópu,  viðurkennd sem mál minnihlutahópa sem búið hafa í landinu um langt skeið.  Að auki eru í Svíþjóð að sjálfsögðu töluð á annað hundrað mál innflytjenda eins og í flestum öðrum Evrópulöndum.

Til gamans má geta þess að í Tógó, sem er eitt minnsta og fámennasta land í Afríku með um 8 milljónir íbúa, eru töluð um 40 tungumál, en franska er þar opinbert tungumál auk tveggja annarra tungumála, evé í suðri og kabiyé.  Í Kína er íbúafjöldi um 1,4 milljarðar.  Þar eru nær 300 tungumál sem töluð eru víðs vegar um þetta víðfeðma land sem er um 9.6 milljarðar ferkílómetra, 9.596.961 km2.  Flestir tala mandarín, sem er af kínversk-tíbetanska málaflokknum, og er það hið opinbera mál í Kína.

Í Belgíu búa um 6.5 milljónir íbúa.  Þar eru töluð þrjú tungumál þeirra sem fæddir eru í landinu: hollenska sem um 60% tala og oft er kölluð flæmska; franska eða vallónska sem um 40% íbúanna talar, og þýska er töluð af um einu prósent íbúa.  Öll þessi þrjú tungumál eru talin opinber tungumál í Belgíu.

Opinber tungumál ríkja heims eru því með ýmsum hætti, eins og sjá má af þessum dæmum, en tungumál heimsins eru talin nær 7000.   Tungumál heims eru því mörg og misjöfn – ólík eins og mannfólkið.

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 1.12.2017 - 15:40 - FB ummæli ()

Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018

Á næsta ári „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, eins og segir í þingsályktunartillögu Alþingis 13. október 2016. Haldinn verður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag árið 1918 var samningnum um fullveldi Íslands lokið. Einnig verður efnt til hátíðahalda 1. desember 2018 í tilefni þessara tímamóta.

Alþingi kaus nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöldin á næsta ári í samræmi við þingsályktunartillöguna, ráði framkvæmdastjóri og starfslið eftir þörfum og eins og fjárveiting leyfir. Nefndinni var falið að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna og „stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafna öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi, og hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.”

Alþingi fól ríkisstjórn að gera í fjármálaáætlun næstu fimm ára ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns og undirbúa tillögu um fimm ára áætlun uppbyggingu innviða máltækni fyrir íslenska tungu og fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar og efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.

Undirbúningsnefndin auglýsti í haust eftir „hugmyndum að vönduðu verkefni á dagskrá afmælisársins” vegna fullveldisins. Hópur áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu sendi nefndinni tillögu um að gefin yrði út Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, sem hefði að geyma ljóð er birst hafa á öld íslensks fullveldis. Skyldi sýnisbókin afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í hverjum skóla landsins. Sýnisbókin yrði síðan gefin út sem skólaljóð fyrir grunnskóla, er Ríkisútgáfa námsbóka gæfi út. Tekið var fram að til verkefnisins væri stofnað „til að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum lifandi ljóðarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefur verið meiri.”

Undirbúningsefndin um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands svaraði tillögu áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu fyrir viku og tilkynnti, að ekki væri unnt að styðja við tillöguna um Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, enda hefðu 169 tillögur borist og sótt um rúmlega 200 milljónir króna.

Fróðlegt verður að sjá, hvaða tillögur hljóta náð fyrir augum nefndarinnar „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, en grundvöllur íslenskrar menningar og forsenda sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar er tungumálið: ástkæra ylhýra málið, eins og Jónas Hallgrímsson segir í ljóði sínu „Ásta”, ljóði sem ort er til skáldgyðjunnar.

Flokkar: Stjónmál

Laugardagur 4.11.2017 - 13:40 - FB ummæli ()

Hún hefur svo sem alveg heimild til þess að sækja um embætti dómkirkjuprests

Einkennileg voru ummæli Þorvalds Víðissonar biskupsritara, sem höfð voru eftir honum í hádegisfréttum RÚV í dag laugardag 4rða nóvember AD 2017, þegar hann var spurður um það, hvort séra Eva Björk Valdimarsdóttir gæti sótt um embætti dómkirkjuprests þegar það verður auglýst að nýju – og hann svaraði:

„Hún hefur svo sem alveg [sic] heimild til þess þegar embættið í Dómkirkjunni verður auglýst, það er ekkert sem útilokar það í sjálfu sér. En hún hefur tekið við nýju embætti þannig að það væri kannski svolítið skrýtið [sic], en hún hefur alveg heimild til þess.“

Gætinn biskupsritari hefði átt að haga orðum sínum á annan hátt, því að eins og gefur að skilja getur séra Eva Björk Valdimarsdóttir að sjálfsögðu sótt aftur um embætti dómkirkjuprests.  Auk þess þarf Þjóðkirkjan á varfærni, skilningi og hógværð að halda – sem aldrei fyrr.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar