Laugardagur 27.04.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Að leiðarlokum vinstri stjórnar

Það er auðvelt að vera vitur eftir á – ekki síst fyrir annarra hönd. Nú hefur vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs runnið skeið sitt á enda. Eftirmælin verða misjöfn, einkum eftir því hvar í flokki menn standa.

Eins og lesendur þekkja, varð sterk vinstri sveifla í kosningunum 2009. VG varð sigurvegari, hlaut 14 þingmenn og bætti við sig fimm þingmönnum. Samfylkingin fékk 20 þingmenn og bætti við sig tveimur og varð stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð, fékk 16 þingmenn, tapaði níu. Ástæður þess voru augljósar. Kjósendur töldu Sjálfstæðisflokkinn eiga mesta sök á Hruninu þar sem spilling, græðgi og einkavinavæðing lá að baki og brýna nauðsyn bæri til að fá ný öfl, nýtt fólk og viðhorf að stjórn landsmála.

Í framhaldinu mynduðu Samfylkingin og VG meirihlutastjórn og birtu sjö þúsund orða samstarfsyfirlýsingu. Galli yfirlýsingarinnar – auk þess að vera allt of löng – er að í henni er allt nefnt – allt frá stöðugleika og þjóðarsamstöðu til þess að setja heildstæð lög um fjölmiðla þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna væru tryggð. Í stað þessarar langloku átti stjórnin að lýsa yfir í örfáum orðum að meginverkefni stjórnarinnar væri að bjarga þjóðarskútunni af strandstað frjálshyggjunnar og slökkva elda sem peningahyggja, græðgi, svik og glæpir auðvaldsins höfðu kveikt.

Flestum stefnuskrármálum ríkisstjórnar Samfylkingar og VG hefur verið komið í kring og stjórnin unnið kraftaverk í efnahags- og atvinnumálum, enda eru framtíðarhorfur þjóðarinnar góðar. Ný viðhorf eru komin fram um grundvallaratriði lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda. Ungt og vel menntað fólk flytur með sér nýjan andblæ og setur svip á stjórnmála- og þjóðmálaumræðuna og nýtt Ísland er í augsýn. Engu að síður virðast stjórnarflokkarnir ætla að gjalda afhroð í kosningunum í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, sem átti mestan þátt í endurreisnar- og björgunarstarfi undanfarinna ára, hefur ekki hlotið miklar þakkir fyrir dugnað sinn og ósérplægni. Hann hefur verið settur af sem formaður umbótaflokksins, sem hann stofnaði fyrir áratug, og flokkurinn virðist auk þess gjalda afhroð. Í stað 22% fylgis 2009 sýna skoðanakannanir nú um 10% fylgi VG. Í stað 14 þingmanna 2009 virðist flokkurinn aðeins fá sjö þingmenn. Hvað veldur ?

Vafalaust er margt sem veldur, s.s. áróðursmáttur Sjálfstæðisflokksins, mistök VG að semja við Samfylkinguna um, að aðildarviðræður yrðu settar á oddinn, svo og – og ekki síst sundurlyndi og einstaklingshyggja – svo ekki sé sagt þverlyndi sem virðist fylgja vinstra fólki. Þá er alkunna að kjósendur eru fljótir að gleyma – vika er langur tími í stjórnmálum – auk þess sem þjóðarleiðtogar á stríðstímum hafa mátt þola afneitun og undanfarið kjörtímabil voru stríðstímar. Þá er einnig ljóst að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, eins og Davíð frá Fagraskógi segir.

En auðvitað átti VG ekki að semja um það við Samfylkinguna að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið á þessum stríðstímum Hrunsins.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar