Fimmtudagur 10.12.2015 - 21:38 - FB ummæli ()

Dauði íslenskrar tungu – og máltækni

Formælendur máltækni draga upp ófagra mynd af stöðu íslenskrar tungu og fullyrða, að ef ekkert verði að gert, sé íslensk tunga í bráðri lífshættu og verði ekki notuð í tómstundastarfi, framhaldsnámi og störfum tengdum ferðamönnum, eins og þeir orða þetta. Einn formælenda þessa hræðsluáróðurs segir á heimasíðu sinni:

Ég tel að íslenskan sé “dauð” ef við gerum ekkert. En dauðastríð hennar mun taka áratugi, og svipa til andláts latínu … Það er fyrirsjáanlegt að breytingar á notkun íslenskunnar munu gerast hratt og fljótlega gæti verið of seint að grípa í taumana – enda lifa yngstu kynslóðirnar í allt öðruvísu málumhverfi nú en bara fyrir áratug síðan. Þannig að það má með sanni segja að íslenskan geti átt stutt eftir.

Satt er og rétt að málumhverfi ungs fólks er annað en fyrir áratug, að ekki sé talað um fyrir hálfri öld eða 100 árum. En þjóðmálin hafa lagað sig að breyttum aðstæðum – breyttu málumhverfi, auk þess sem það er mikill misskilningur sérfræðinga í máltækni, að latína sé dautt mál. Latína lifir meðal þúsunda fólks, þótt hún sé ekki lengur mál nokkurs þjóðfélags eða lingva franca, sameiginlegt mál lærða manna um allan heim.

Þessi hræðsluáróður fulltrúa máltækni nær einnig til annarra landa, því að í greinargerð, sem Menntamálaráðuneytið birtir á heimasíðu sinni þar sem segir, að „rannsókn fremstu máltæknisérfræðinga Evrópu bendi til þess að flest Evrópumál séu í útrýningarhættu á stafrænni öld” – hvað sem „stafræn öld” kann að merkja. Þessi rannsókn er sögð unnin af meira en 200 sérfræðingum í máltækni og niðurstöður birtar í röð META-NET, 30 binda ritsafni sem bæði kemur út á prenti og er að finna á netinu, eins og þar segir. Minna má nú ekki gagn gera. Þegar hagsmunasamtök „fremstu máltæknisérfræðinga Evrópu” tala á þennan hátt, vakna sterkar grunsemdir.

Fulltrúar máltækni segja, að uppvaxandi kynslóð á Íslandi sé tvítyngd og hafi náð góðum tökum á ensku áður en þetta unga fólk er fullfært í íslensku. Þetta er víðs fjarri nokkrum sanni, sem tungumálakennarar í grunnskólum og framhaldsskólum staðfesta. Uppvaxandi kynslóð er ekki tvítyngd. Nokkur hluti ungs fólks (einkum drengir á kynþroskaaldri) bregður fyrir sig ensku, en getur ekki tjáð sig nema á takmörkuðum sviðum mannlegs samfélags á því góða heimsmáli.

Haft eftir danska teiknaranum og heimspekingnum Storm P: „Det er svært at spå, især om fremtiden.“ Sannarlega er erfitt að spá um framtíðina, en á grundvelli þess, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga í margskiptu þjóðfélagi en nú, leyfi ég mér að spá því, að máltækni verði dauð, gleymd og grafin innan fárra ára, en íslenska og önnur Evrópumál muni lifa um ófyrisjáanlega framtíð. Leiðir til þess tala við farsímann sinn, bílinn, eldavélina, ískápinn og brauðristina verða heldur aldrei nema brot af málnotkun samfélagsins. Það þurfa postular máltækni – hvar sem þá er að finna – að átta sig á og þó einkum þurfa þeir að hugsa áður en þeir tala.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar