Þriðjudagur 20.02.2018 - 12:36 - FB ummæli ()

Henri de Monpezat

Henri Marie Jean André de Laborde de Monpezat lést í Fredensborgarhöll á Norður Sjálandi 13. þ.m., 83 ára að aldri.  Er útför hans gerð í dag frá Hallarkirkjunni, Christiansborg Slotskirke, í Kaupmannahöfn.

Henri de Monpezat var fæddur 11. júní 1934 í héraðinu Talence í Frakklandi, skammt suður af Bordeaux, kominn af gamalli aðalsætt, Laborde de Monpezats.  Þegar hann var á barnsaldri bjó fjölskylda hans í Hanoi, en um það leyti sem síðari heimsstyrjöldinni hófst, hafði fjölskyldan flust á gamlan herragarð í Le Cayrou við Miðjarðarhaf, skammt frá landamærum Frakklands og Spánar.  Eftir stríð fluttist fjölskyldan aftur til Hanoi þar sem Henri lauk stúdentsprófi árið 1952. Í lok Víetnamstríðsins fluttist fjölskyldan enn til Frakklands. Henri de Monpezat las lögfræði og stjórnmálafræði við Sorbonne, en hafði áður stundað nám píanóleik í tónlistaháskólanum í París.  Herskyldu gegndi hann í Alsír á sjöunda áratugnum, en hóf síðan störf í utanríkisþjónustu Frakka og var sendur til Lundúna 1963, þar sem hann hitti Margrétu krónprinsessu árið, þar sem hún var einnig við nám.  Þau opinberuðu trúlofun sína í nóvember 1966 og gengu í hjónaband í Holmens Kirke 10. júní 1967.

Lengi gerðu Danir gys að „prinsgemalen”, eins og þeir völdu að kalla hann, og lýstu honum jafnvel sem seinfærum og félagslega vanþroska – „lidt tilbagestående og socialt handicappet” eins og séra Kristian Ditlev Jensen, sóknarprestur í Holbøl og rithöfundur segir, en hann lýsir Henri de Monpezat á annan veg en flestir aðrir: sem vingjarnlegum og orðvísum manni, margfróðum og vel menntuðum sem hlustaði með eftirtekt á viðmælendur sína og var  bæði hlýlegur og einlægur í viðmóti – „og hann notaði dönsk orð sem ég hafði aldrei heyrt áður”, eins og Kristian Ditlev Jensen segir og heldur áfram: „Maðurinn sem ég talaði við og hafði fengið orð fyrir að vera lítill málamaður, af því að hann talaði dönsku með frönskum hreim, var mikill málamaður, talaði þýsku, ensku og spænsku – og auk þess víetnömsku og kínversku reiprennandi – og dönsku með frönskum hreim, tungumál sem erfitt er flestum útlendingum að ná tökum á.” Lesa má um æviferil Henri de Monpezat í bókinni „Enegænger. Portræt af en Prins” eftir blaðakonuna Stéphanie Surrugue, en bókin kom út  hjá Politikens Forlag árið 2010 og þar er enn lýst miklum hæfileikar hans.

Henri de Monpezat hlaut óvenjulegt hlutskipti í lífinu. Hann kom ungur til Danmerkur og stóð alla tíð við hlið konu sinnar, en vildi ekki standa í skugga af neinum og storkaði ýmsum Dönum með franskri framkomu sinni.  Danmörk, hið mikla menningarland, hefur nú misst gáfaðan, svipmikinn, listfengan – en viðkvæman son sem reyndi að þjóna landi og þjóð eiginkonu sinnar af bestu getu.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar