Mánudagur 14.01.2019 - 21:54 - FB ummæli ()

Raddgerð og framburður

 

Mikilsvert er fyrir þá sem hafa atvinnu af því að tala – eða láta í sér heyra – að hafa þægilega rödd.  Útvarps- og sjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum, Bretlandi og Þýskalandi hafa lengi lagt áherslu á skýran framburð og velja því þuli og þulur með tilliti til raddgerðar og framburðar. Í gamla Ríkisútvarpinu, bæði í sjónvarpi og útvarpi, hafa oftast verið góðir þulir. Enn muna margir eftir „útvarpsrödd Íslands“ Jóni Múla, og Jóhannesi Arasyni sem vandaði framburð sinn og lestur framar flestum öðrum. Enn eru margir þulir í sjónvarpi og útvarpi til fyrirmyndar. Fremstan má telja Sigvalda Júlíusson en norðlenskur framburður hans er skýr og hljómmikill, auk þess sem hann hefur sérlega áheyrilega rödd, svo Brodda Broddason og Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur.

Nú færist í vöxt að þulir og fréttamenn íslenskra sjónvarps- og útvarpsstöðva tala hratt, að ekki sé minnst á íþróttaþjálfara og ýmsa íþróttamenn, eins og Björgvin Pál, sem tala í belg og byðu svo naumast skilst orð af því sem sagt er.

Þegar heyrn okkar fer að dofna, er gott að hlusta á fólk sem hefur þægilega rödd og góða raddbeitingu, er skýrmælt og kann að ljúka setningum án þess að „draga niður í sér”, sem eins konar stílbragð í framsögn nokkurra fréttamanna.  Þá eru þagnir afar mikilsverðar.  Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á nokkra fyrirlestra herra Karls Sigurbjörnssonar biskups.  Hann kunni afar vel að flytja mál sitt, var skýrmæltur og notaði þagnir, þannig að ekkert fór fram hjá áheyrendum. Vonandi verður bættur framburður hluti af endurreisn íslenskrar tungu á nýrri öld.

 

Flokkar: Menning og listir

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar