Föstudagur 18.05.2018 - 14:27 - FB ummæli ()

Staðreyndir um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2012 var undirritaður samningur milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Þá var við völd ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Vinstri meirihluti sat í borginni og var Jón Gnarr titlaður borgarstjóri, þó allir vita að Dagur B. Eggertsson hafi gengt staðgengilshlutverki hans.

Hér er samningurinn eins og hann var samþykktur 7. maí 2012

Við undirritun afsöluðu sveitarfélögin öllu framkvæmdafé til viðhalds og uppbyggingar sem ríkið þó er ábyrgt fyrir. Samingurinn átti að efla almenningssamgöngur, 10 milljarðar á 10 árum.  Allt fjármagnið rennur til Strætó en fjölgun farþega hefur ekki orðið og verkefnið því ónýtt. Þessum 10 milljörðum er hent út um gluggan. Á meðfylgjandi mynd eftir Viðar Frey Guðmundsson, sést glögg myndrænt hversu samningurinn var galinn fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hætt var við Miklubraut í stokk og Hlíðarfótsgöng þó þær samgöngubætur væru algjör forsenda uppbyggingar Landsspítalans við Hringbraut. Við í Miðflokknum lítum mjög alvarlegum augum á að Sundabraut hafi verið slegin út af borðinu og skiljum ekki þann gjörning að fórna henni fyrir tilraunaverkefnið með Strætó. Einnig var fjórum breikkunum á lykil stofnbrautum fórnað og sex mislægum gatnamótum þar sem slysatíðni er mjög há.

Líklega er Strætósamningurinn dýrasta og afdrifaríkasta tilraunaverkefni öryggislega séð, sem farið hefur verið í á Íslandi með tilheyrandi tapi fyrir íbúa höfuðborgarasvæðisins alls. Öryggi allra var fórnað því Vegagerðin lagði hart að borginni að hefja sína vinnu vegna lagningar Sundabrautar vegna öryggissjónarmiða.

Miðflokkurinn beitir sér fyrir fjölskylduvænum samgöngum og að öryggi allra vegfarenda verður að vera í öndvegi. Það ríkir ófremdarástand í borginni og hefur núverandi meirihluti markvisst unnið að því að tefja för fjölskyldubílsins með þrengingu gatna og óstilltra umferðarljósa. Miðflokkurinn ætlar að leysa almennan flæðisvanda umferðar í borginni með bestun umferðarljósa, fjölgun hringtorga og/eða mislægra gatnamóta og lagningu Sundabrautar um Sundagöng. Kjörnum fulltrúum ber skylda til þess að að hafa umferðarmál sveitarfélaganna í lagi til að gera tímann út i umferðinni sem bærilegastan fyrir fjölskyldurnar sem í sveitarfélaginu búa. Hindrunum umferðarflæðis á stofnæðum verður að ryðja úr vegi því allar óþarfa tafir auka mjög mengun í borginni. Göngubrýr eða undirgöng eru nauðsynleg t.d. á Miklubraut/Hringbraut. Óskiljanlegt er að ekki skuli vera búið að gera neitt í þessum málum svo árum skiptir nema að fjölga gönguljósum. Öryggi allra er í húfi – gangandi, hjólandi og keyrandi.

Við í Miðflokknum gerum alvarlegar athugasemdir við það hvernig samgöngumálum í borginni er háttað. Meirihlutinn skýlir sér á bak við ríkið í flestum málum er að samgöngum snúa og talar eingöngu fyrir borgarlínu og að hún eigi að leysa allan samgönguvanda.  Það er fullkomið ábyrgðarleysi og uppgjöf fyrir verkefninu og klúðrinu sem þau hafa komið borginni í. Þau eru ófær um að leysa málin og því er lífsnauðsynlegt að skipta nýju liði inn á völlinn. X-M fyrir fjölskyldurnar og fjölskyldubílinn.

Þessi grein birtist í DV þann 18. maí 2018

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins, hún sat á þingi á árunum 2009 til 2016 og var meðal annars formaður fjárlaganefndar frá 2013.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir