Mánudagur 23.07.2018 - 21:50 - FB ummæli ()

Líf sat hjá við ráðningu borgarlögmanns – ferill málsins

Þann 10. ágúst 2017 var haldinn fundur í borgarráði þar sem m.a. var gengið frá ráðningu borgarlögmanns

Ég tel að það sé nauðsynlegt að birta umræður og bókanir sem voru á þeim fundi eftir að úrskurður kærunefndar jafréttismála var birtur – þessi fundur varpar ljósi á hvers vegna kærunefndin kemst að þessari niðurstöðu nú.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Þegar samþykkt var í borgarráði að auglýsa stöðu borgarlögmanns var ekkert sem fram kom um efni auglýsingarinnar eða umsóknarfrest.  Á fundi borgarráðs 20.  júlí var í trúnaði rætt um umsækjendur, en þá höfðu fulltrúar minnihlutans ekki vitneskju um það að sautján dagar væru liðnir frá lokum auglýsts umsóknarfrests og gátu því á engan hátt brugðist við eða komið með tillögur um bætt verklag í því efni. Í ljósi óvandaðrar málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar ráðningar borgarlögmanns er lagt til að ferlið verði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Enn fremur er lagt til að betur verði staðið að auglýsingu stöðunnar en gert var í júní sl.  R17080023

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í tillögunni felst fullyrðing um að málsmeðferð við ráðningu borgarlögmanns hafi verið óvönduð – og það óvönduð að lagt er til að allt ferlið verði tekið upp að nýju. Ekki er hægt að fallast á að málefnaleg sjónarmið fyrir endurupptöku alls ferilsins séu til staðar. Jafnvel má leiða að því rök að endurupptaka á þessu stigi ferilsins, þegar umsóknarfrestur er liðinn og rætt hefur verið við umsækjendur, myndi ganga í bága við góða stjórnsýsluhætti. Markmiðið með því að auglýsa starf er að fá hæfa umsækjendur og hefur þetta ferli skilað tveimur hæfum umsækjendum. Tillagan er því ekki tæk til afgreiðslu.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að ráðningu borgarlögmanns verði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. R17080023

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. ágúst 2017:

Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Ebbu Schram hrl. í starf borgarlögmanns. Greinargerð fylgir tillögunni. R1708002

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fylgigögn

PDF iconTillaga að ráðningu borgarlögmanns

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:Við greiðum Ebbu Schram atkvæði okkar  í embætti borgarlögmanns og óskum henni velfarnaðar í starfi.  Við teljum þó að betur hefði mátt standa að auglýsingu á stöðunni og rétt hefði verið af hálfu æðstu stjórnenda borgarinnar að framlengja umsóknarfrestinn í ljósi þess að aðeins tveir aðilar hefðu sótt um stöðuna.  Eftir fund borgarráðs 20. júlí 2017 sendi borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina  tölvupóst til borgarstjóra og borgarritara til að vekja athygli á vandmeðfarinni stöðu að velja á milli tveggja hæfra umsækjenda í svo veigamikið embætti og því væri það fullkomlega eðlilegur rökstuðningur að framlengja umsóknarfrestinn. Í ljós hefur síðan komið að auglýsingin var aðeins birt einu sinni í Fréttablaðinu 17. júní og að umsóknarfresturinn var til 3. júlí.  Borgarráðsfulltrúar fengu ekki upplýsingar um umsækjendur fyrr en 17 dögum síðar og er það ekki til eftirbreytni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við óvönduð vinnubrögð vegna ráðningar borgarlögmanns. Athygli vekur að einungis tveir einstaklingar sóttu um embættið, sem er eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna. Mörg fordæmi eru fyrir því hjá Reykjavíkurborg að umsóknarfrestur sé framlengdur eða stöður auglýstar að nýju þegar um fáa umsækjendur er að ræða eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni eins og um er að ræða í þessu tilviki. Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað óskað eftir því að fá öll gögn málsins afhent var ekki orðið við því fyrr en í lok þessa fundar þegar málið var tekið á dagskrá. Sum gögn málsins voru að vísu send öðrum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kl. 19.38 í gærkvöldi en þar var hvorki að finna lágmarks grunngögn í ráðningarmálum, þ.e. umsóknir, þótt umsækjendur séu einungis tveir, né staðlaða samantektartöflu í ráðningarmálum þar sem helstu upplýsingar koma fram um umsækjendur, þ.e. nafn, aldur, menntun, fyrri störf og núverandi staða. Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær.

Flokkar: Stjórnsýsla borgarinnar

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins, hún sat á þingi á árunum 2009 til 2016 og var meðal annars formaður fjárlaganefndar frá 2013.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir