Sunnudagur 07.03.2010 - 18:17 - FB ummæli ()

Ný forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni

forgangsröðunÍ gær var hinn árlegi Heimilislæknadagur sem er fræðadagur Félags íslenskra heimilislækna (FÍH). Heimilislæknir er í dag gjarnan nefndur heilsugæslulæknir en heilsugæslulækningar er lögvernduð sérgrein eins og aðrar sérgreinalækningar á Íslandi.  Í ár var mestum tíma varið í að ræða verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu og hlutverk heilsugæslunnar í þátíð, nútíð og framtíð sem grunnstoð heilbrigðiskerfisins sem á að annast grunnþjónustuna en nýlega fjallaði ég um óraunhæfan læknis- og lyfjakostnað tengt kreppunni nú og einkavæðingu hér á blogginu mínu. Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins sátu fundinn í boði félagsins ásamt öldrunarlæknum sem var einnig boðið á fundinn. Á undanförnum árum hefur verulega verið þrengt að heilsugæslunni, sérstaklega í samanburði við útþenslu sérfræði- og hátækniþjónustunnar. Formaður félagsins Halldór Jónsson líkti hugmyndum um frekari sparnaði í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nú við að það væri svipað og að senda sjúkling með lystarstol í megrun. Búið væri að skafa af beinum heilsugæslunnar lengi og eins og hægt væri og það löngu fyrir kreppu. Sameining allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokrum árum átti að vera liður í hagræðingu og sparnaði hins opinbera en kom niður á sjálfstæði stöðvanna og frumkvöðlastarfi. Eins var bent á, á fundinum, að heilsugæslan hafi alltaf verið reiðubúin að taka að sér meiri verkefni eins og tíðkast í nágranalöndunum og viljað koma meira að stefnumótun heilbrigðismála en ekki fengið. Heilbrigðisyfirvöld eru nú loks farin að átta sig á afskiftaleysinu til áratuga og mikilvægi heilsugæslunnar til framtíðar.  Aftur er farið að ræða hugsanlegt tilvísunarkerfi sem stýrikerfi á hagkvæmustu  þjónustuna hverju sinni að eigin frumkvæði og skipuð hefur verið stafsnefnd á vegum ráðuneytisins um fyrirhugað tilvísunarkerfi og aukið hlutverk heilsugæslunnar í því sambandi.  Stórlega þarf samt að efla heilsugæsluna til að hún geti tekið við nýjum verkefnum á næstunni enda hefur hún ekki verði byggð upp af yfirvöldum um árabil sem skildi og því veikburða.  Verkefnin hafa samt lengi verið skilgreind hjá FÍH í heilsugæslunni meðal annars í stöðlum félagsins um starfshætti og aðstöðu og sem eru endurnýjaðir reglulega og voru gefnir síðast út 2008 ásamt marklýsingu fyrir sérfræðinám á Íslandi. Lagt hefur verið í ýmsa aðra stefnumótunarvinnu og fyrir nokkrum árum var t.d. lögð fram fjölskyldustefna félagsins. Áður hef ég líka fjallað um hér á blogginu um afleiðingar á niðurskurði í heilsugæslunni og m.a. afleiðingar á að auka eingöngu skyndiþjónustu á vöktum sem er dýrara og óhagkvæmara þjónustustig þegar til lengri tíma er litið.

Skilgreina þarf nú aftur betur verkskiptinguna milli sviða og kerfa. Of mörg svið starfa of mikið sjálfstætt og því oft ekki hægt tala um gagnvirkt kerfi sem heilbrigðiskerfi hlýtur að eiga að vera.  Kerfin tala oft einfaldlega ekki saman. Benda má t.d. á að enn vantar verulega á að læknabréf berist heimilislæknum frá sérfræðilæknum sem samt hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur.  Þá má t..d. má nefna að áætlað er að um helmingur af verkefnum  Slysa- og bráðamóttöku á heima á heimilislæknavöktum eins og gerist úti á landi. Með því að heimilislæknirinn sinni þessum erindum er oft hægt að fækka óþarfa innlögnum og rannsóknum á „Hátæknisjúkrahúsinu í Reykjavík“. Of mikil áhersla hefur verið lögð á hátæknina í stað „lágtækni“ þar sem meiri áhersla er lögð á samspil sálar og líkama. Ódýrari „lágtæknisjúkrahús“ gætu auðveldlega sinnt meira af minna veiku fólki og gömlu fólki sem ekki fær hvort sem er pláss á hátæknisjúkrahúsinu.  Auk þess ættu síðan heimilislæknirinn að geta lagt beint inn á sjúkrahús og jafnvel annast sjúklinga á sjúkrahúsunum ef þannig ber við og þekkist víða erlendis. Eins má nefna þá stöðu sem er uppi í dag að margir sérfræðilæknar hafa lokað á að sjá nýja sjúklinga og annast gömlu sjúklingana sína eins og heimilislæknar ættu að gera en á sérfræðitöxtum.  Á sama tíma koma heimilislæknar oft ekki skjólstæðingi sínum að hjá sérfræðilæknum þegar á þarf að halda og þrátt fyrir að oft miklu fleiri sérfræðilæknar séu starfandi hér á landi en í nágranalöndunum. Þessu gætu tilvísanir breytt sem yrðu þá skilyrði fyrir greiðslum frá því opinbera.

Lítil endurnýjun hefur átt sér stað í röðum heimilislækna, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu sl. áratugi og miklu færri heimilislæknar eru hlutfallslega hér á landi miðað  við íbúatölu en í nágranalöndunum. Þegar heilsugæslan var mest þurfandi fyrir öfluga uppbyggingu fyrir ca 20 árum var mikill áhugi unglækna (ég þar á meðal) og allt að 10-15 sérmenntaðir heilsugæslulæknar sóttu um hverja stöðu sem losnaði en fáir komust að. Sumir sneru sér þá að annarri sérgrein sem ég var nærri búin að gera einnig. Skilaboð heilbrigðiskerfisins voru einfaldlega þau að unglæknar ættu að velja sér aðrar sérgreinar en heimilislækningar varðandi atvinnumöguleika síðar meir og hefur Læknadeildin heldur ekki verið saklaus í þessum efnum og gert sérgreinunum mishátt undir höfði. Margir töldu t.d. mikla afturför þegar héraðsskyldan var aflögð með þrýstingi ýmissa sérfræðilækna og þar með komið í veg fyrir að unglæknnar kynntust störfum heilsugæslunnar. Með því átti að tryggja mönnun sérgreinadeildanna á spítölunum. Eins hefur viðvera læknanema verið ábótavant í heilsugæslunni sjálfri í læknanáminu hér á landi þótt verulega hafi það batnað hin síðustu ár. Í dag er meðalaldur starfandi heimilislækna hár og margir hætta á næstu árum. Yngstu kynslóðirnar vantar innan þeirra raða svo erfitt verður að fylla í stöður sem losna nema veruleg breyting verði á á næstu árum.  Læknadeildin verður að forgangsraða hjá sér og leggja miklu meiri áherslu á nám lækna í heilsugæslunni. Á síðustu árum hefur þó verið tekið til hendinni í öflun námsstaða á vegum heilbrigðisráðuneytisins og er til að mynda 5 stöður nú auglýstar lausar hjá ráðuneytinu og möguleiki er á að fjölga um fimm til viðbótar ef áhugi lækna er fyrir hendi eins og kom fram í erindi ráðherra í gær.

Um þessi atriði öll og miklu fleiri verður væntanlega einnig rætt á þjóðfundi lækna 10. mars næstkomandi en síðan mun Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur sem standa að fundinum beina niðurstöðunni til heilbrigðisyfirvalda um stefnumótun sína og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn