Sunnudagur 28.03.2010 - 17:35 - FB ummæli ()

Ávaxta og grænmetisverslun Ríkisins (ÁGVR)

Strawberry_1024x768[1]Um daginn ætlaði ég að kaupa jarðaber fyrir konuna mína til að skreyta afmælistertu. Sex jarðarber í bakka kostuð 800 kr. Ég lét þau eiga sig og konan sleppti að skreyta marenskökuna en sem því miður jafnframt dró þá úr hollustu hennar og fegurð.

Rétt og gott mataræði er einn mikilvægasti þátturinn í að viðhalda góðri heilsu. Þarna erum við jafnframt að tala um aðal áhrifavalda á algengustu dánarsjúkdómana,  hjarta- og æðasjúkdóma og flest krabbamein, auk meltingarfærasjúkdóma, stoð- og gigtarsjúkdóma og jafnvel geðsjúkdóma.

Á hverju ári niðurgreiðir Sjúkratryggingar Íslands milljarði króna í kostnaði sjúklinga á blóðfitulækkandi lyfjum en há blóðfita er ein af megin ástæðum fyrir þróun æðakölkunar og tilurð kransæðasjúkdóma. Margir sem taka blóðfitulækkandi lyf í dag gætu þó lækkað sínar blóðfitur nægjanlega með breyttu mataræði einu saman, með minni neyslu á fitu, meiri neyslu á grænmeti og mikið meiri hreyfingu. Afleiðuáhrifin tengt róttækum lífstílsbreytingum eru auðvitað miklu meiri en sem mælist eingöngu í lágu kólesteróli. Því miður lifa samt margir í þeirri trú að það sé nóg að taka blóðfitulækkandi lyf og fá kólesterólgildið niður. Eins trúa margir á reglubundna rútínuskoðun á hjarta og æðakerfinu og fá því til staðfestingar stimpil á að allt sé í lagi með útskrift á mæligildum hverskonar. Saga sjúklings segir samt oft allt sem segja þarf og mælingar eru oft aðeins til frekari stuðnings, ekki sannleikinn. Alveg eins og með röntgenmyndina og æxli í lunga að þá er sannleikurinn ekki svarthvítur.

Málefni Áfengis og tóbaksverslunar Ríkisins (ÁTVR) hefur oft verið til umfjöllunar vegna einokunar í ríkisrekstri og vegna tvíræðna auglýsinga þar sem í raun er verið að auglýsa áfenga drykki og sem er bannað með lögum. Nýlegt frumvarp til laga gerir t.d. ráð fyrir að koma eigi í veg fyrir dulbúnar áfengisauglýsingar. Deila má auðvitað líka á að ríkið standi að og hagnist af sölu heilsuspillandi efna sem áfengi oft er auk þess að vera vímuefni sem veldur oft miklum félagslegum vandræðum og er þjóðfélaginu öllu mjög dýrkeypt. En að ríkið skuli síðan standa fyrir sölu á eitri sem tóbakið er, er í raun óskiljanlegt með öllu. En e.t.v. eru þó rök fyrir því að betra sé að hafa miðstýrða stjórn á þessu en enga stjórn. Þá er erfitt að banna sölu tóbaks hér á landi ef hún er leyfð í nágranlöndunum. Hvað sem þessu öllu líður virðist ÁTVR hafa staðið sig vel hvað sölutakmarkanir varðar vegna ungs aldurs. Eins er boðið upp á gott úrval vína og góða og betri þjónustu en þekkist þar sem áfengissalan er frjáls í matvörumörkuðum erlendis. Ekki má heldur gleyma því að góð borðvín geta verið bæði holl og menningarauðgandi sé þeirra neytt í hófi. Auglýsingar hvetja hins vegar alltaf til meiri neyslu en hollt getur talist og því mikil þörf á aðhaldi og takmörkunum hvað þessi mál varðar.

Til þess að almenningur geti neytt ávaxta og grænmetis í því mæli sem manneldisráð mælir fyrir og aðrar þjóðir gera sem við viljum bera okkur saman við, þarf hins vegar eitthvað róttækt að gerast hér á landi. Almenningur hefur einfaldlega ekki orðið efni á að kaupa þessa nauðsynjavöru dagsdaglega eins og mælt er fyrir um út frá hollustusjónarmiðum. Skyndibiti og ruslfæði svo ekki sé talað um sætindi er bæði miklu aðgengilegri og ódýrara en holt og gott fæði hér á landi. En hvað þá ef við tækjum upp hugmyndafræði og sölutækni ÁTVR til fyrirmyndar. Hvað með þá hugmynd að sala á ávöxtum og grænmeti  hér á landi verði stunduð af ríkinu til að tryggja gæðin og ásættanlegt verð til neytenda. Samkeppnisráð gæti skilgreint ríkissöluna sem nauðsynlega út frá mannverndarsjónarmiðum og leyft einokun. Sem stór innflytjandi væri örugglega hægt að fá hana miklu ódýrari til landsins og tryggja þannig lægra söluverð til neytenda. Eins mætti niðurgreiða hana að einhverju marki til að örva söluna enn frekar og ekkert síður en gert er með aðrar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi. Styrkja ætti innlenda framleiðendur á gæðagrænmeti og lækka raforkukostnað til framleiðslu yfir vetrartímann. Hluti af niðurgreiðslum gæti verið mögulegur þar sem lægri þörf yrði væntanlega á niðurgreiðslum á lyfjakostnaði á blóðfitulækkandi lyfjum.

Fyrst ríkið getur og kemst upp með einokun á innflutning á áfengi sem síður telst til nauðsynjavöru af hverju þá ekki á nauðsynlegri heilsuvöru og þegar jafnvel heilsa þjóðarinnar sjálfrar er í húfi á krepputímum. Góð næring er ekkert síður mikilvæg en lyf og í raun miklu mikilvægari og minnkar líkur á ofnotkun. Í sumu verður ríkisrekstur að vera forgangsatriði, einfaldlega vegna þess að hinum frjálsa markaði er ekki lengur treystandi og þegar okrað er á nauðsynjavörum. Áður hef ég lagt til að Lyfjastofnun Ríkisins verði endurreist vegna þess glundroða sem hefur ríkt um árabil í innflutningi lyfja. Þar sem  það er nær daglegt brauð að nauðsynleg lyf séu ekki lengur til. Vísað er til hins frjálsa markaðar í því sambandi.

Ekkert væri betra fyrir líkamlega heilsu þjóðarinnar en gott aðgengi að góðu og ódýru grænmeti og ávöxtum. Þannig gætum við gengið betur í gegnum þær þrengingar sem fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum. Eins til fyrirbyggjandi ráðstafana gegn helstu faraldssjúkdómunum, offiitunni sem er óumdeilanleg staðreynd hér á landi. Ekki er síður mikilvægt að börnum landsins verði ekki mismunað í heilsu hvað lífsnauðsynleg næringarefni á grundvelli efnahag foreldra. Meiri neysla grænmetis og ávaxta barna í stað sælgætis dregur jafnframt úr tannskemmdum þeirra sem líka er mikið vandamál hér á landi.  Verði ykkur að góðu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn