Sunnudagur 25.04.2010 - 23:08 - FB ummæli ()

Skynsemin ræður

trabantVið hjónin áttum einu sinni þrjá Trabanta í röð. Þetta var fyrir meira en þremur áratugum. Góðir bílar og á góðu verði. Bílinn kostaði aðeins sem samsvaraði 3-4 mánaðarlaunum. Flestir höfðu þannig efni á þeim. Þeir voru mjög sparneytnir á eldsneyti og nokkuð öruggir. Einkunnarorð þessara bíla báru orð með rentu, „Skynsemin ræður“. Aðrir hefðu sagt í dag að sníða sér „stakk eftir vexti“. Í dag fær maður fær að minsta kosti einkennilegt óbragð í munninn við að sjá alla nýju og flottu bílana í bílaflota landsmanna. Að vísu ekki neina glænýja. En, allt í lagi, kannski getum við farið einhvern milliveg. Í dag eigum við hjónin hálfan rafmagnsbíl, frábæran bíl sem heitir Príus en sem því miður er allt of dýr.

Hvernig væri að sameina kosti rafmagnsbíls og trabantsins gamla sem var afar einfaldur í allri uppbyggingu og ekki svo ljótur?  Af rafmagninu höfum við nóg og tækninni fleygir fram. Rafhlöðurnar eru sífellt að verða betri og endingarbetri en því miður fulldýrar enn sem komið er. Hvernig væri að taka frumkvæðið í því að gera Ísland að fyrsta ríki veraldar sem keyrir allan sinn bílaflota á endurnýtanlegri orku. Ýmsir hafa bent á þennan möguleika um árabil.  Forsetinn, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson hefur haft mikið til þessara mála að leggja sl. misseri. Við fáum ekki betri kynningu út í heim eins og dæmin nú nýlega sönnuðu. Nú getum við komið á fót nýrri útrás á íslensku hugviti sem byggir á brennheitu og áþreifanlegu sviði, jarðorkunni. Ekki peningum sem aldrei voru til. Orkan og eldfjöll eru okkar sérsvið, forsetan höfum við og nú vantar okkur bara fjármagn og örugga fjárfesta til að láta drauminn rætast.

Í Fréttablaðinu í dag er frábær grein eftir Svavar Hávarðsson sem ber heitið, Eldklerkurinn Jón og „hrunið“ sem ég ætla að fá að vita beint í: …Með öðrum orðum höfðu menn það gott. Allir nutu ávaxtanna af góðærinu og undu glaðir við sitt. En ofgnótt fylgir græðgi á öllum tímum, ef marka má þessi orð Jóns: „En hvílíkt stjórnarleysi, andvara- og iðrunarleysi hér í Vestri-Skaftafellssýslu var um þann tíma, sérdeilis í þessu Kirkjubæjar- eður Kleifarþinglagi, hjá allmörgum, er sorglegra til frásagnar, en ég geti þar orðum eytt að. Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra beztu og krydduðu fæðu, drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska“, skrifar eldklerkurinn og sendir glósu til nútímans sem enginn Íslendingur getur misskilið.

Ástandið í þjóðfélaginu nú er auðvitað engan veginn sambærilegt og var í Skaftáreldum 1783 og móðuharðindunum sem á eftir fylgdu og gerð er svo vel grein fyrir í greininni hans Svavars. Allt að fimmtungur landsmanna dó úr vosbúð og milljónir manna úti í hinum stóra heimi vegna uppskerubrests af völdum ösku úr Lagargígum og kólnunar af hennar völdum. En eru „skilaboðin“ önnur nú en fólust í boðskapnum sem Jón eldklerkur flutti landsmönnum fyrir rúmlega 2 öldum. Getur verið að guð, af góðsemi sinni og vorkunsemi, vegna þess hvernig fyrir okkur er nú komið, vilji gefa okkur annað tækifæri. Jafnframt að benda okkur á, í leiðinni, á þá möguleika sem felast í orku jarðarinnar. Ég hef tilhneigingu að líta frekar svo á málin, svona til að vera aðeins jákvæður. Þegar höfum við verið guði þóknanleg að einu leiti, þar sem við nýtum jarðvarmann vel til húshitunar. En við getum nýtt orkuna sem fellst í fallvötnunum og jarðorkunni betur. Einbeitum okkur næst að bílaflotanum. Eitthvað sem sameinar fyrsta bílinn minni, Trabatinn og Príusinn minn í dag. Ódýr rafmagnsbíll skal það vera, knúinn af HREINNI orku.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn