Miðvikudagur 28.04.2010 - 16:34 - FB ummæli ()

Hjarðáhrif og hjarðónæmi

Ég hlustaði á athyglisvert viðtal við Dr. Huldu Þórisdóttur, félagssálfræðing í mannlegri hegðun í gær, í Kastljósþætti RÚV. Þar var fjallað um hugsanlegar skýringar á því sem gerðist fyrir hrun og sem reyndar var komið inn á í siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis. Hjarðhegðun var mikil hjá einsleitinni og fámennri þjóð sem auk þess var stoltust allra Evrópuþjóða. Það var erfitt að skera sig út úr og synda á móti straumnum. Góðar útskýringar komu fram í viðtalinu á þessari náttúru okkar að láta sefjast. Það sem mér fannst þó athyglisverðast er samsvörun við mínar rannsóknir og félaga um áratuga skeið undir öðrum formerkjum, nánar tiltekið hvernig við meðhöndlum sýkingar barna eftir búsetu á landinu. Þannig gat munurinn verið 300% hvort búsetan var á Egilstöðum eða í Vestmannaeyjum. Þarna voru klárlega um hjarðáhrif að ræða. Sami munur kom einnig fram ef litið er til sýklalyfjaónæmisins sem endurspeglaðist af sýklalyfja(of)notkuninni. Þróun sýklalyfjaónæmis er einmitt óvíða meira en hér á landi, ekki síst ef aðeins er litið til Norðurlandanna enda eigum við met í notkun sýklalyfja.

Reyndar er um annars konar hjarðáhrif að ræða þegar þegar litið er til smitsjúkdómafræðinnar. Þá er verið að skoða hvernig bakteríurnar ná til okkar mannanna og veikja okkur eða börnin okkar t.d. með eyrnabólgum sem mikið hefur verið í umræðunni meðal annars vegna möguleika á bólusetningu gegn pneumokokkum. Hjarðónæmi (herd immunity) skapast síðan ef flestir eru bólusettir og bera þá ekki bakteríuna til annarra, jafnvel þeirra sem eru óbólusettir. Þannig er hægt að veita jafnvel öldruðum vörn þótt aðeins ungbörn séu bólusett. Að sama skapi hafa sýklalyfjaónæmir stofnar takmarkaðri tækifæri á að smitast og dreifast um þjóðfélagið.

Því miður er víst ekki hægt að bólusetja okkur mennina fyrir slæmum sál- og félagslegum áhrifum. Þar kemur fyrst og fremst til uppeldisáhrifanna og styrkleika þjóðarsálarinnar. Hjarðáhrifin eru þannig geinilega „misgóð“ eftir því hvernig á þau er litið. Eins fyrir eða eftir hrun, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn