Sunnudagur 06.06.2010 - 09:45 - FB ummæli ()

Hrun og heilsa þjóðar, fyrr og nú

fánastöngNú nálgast 17. júní, þjóðhátíðardags okkar Íslendinga og visst stjórnleysi ríkir í höfuðborginni. Því verður manni hugsað til sögunnar. Eins hef ég alltaf haft dálæti á íslenska fánanum og ungur lærði ég að umgangast hann af mikilli virðingu hjá skátunum. Síðar fékk ég stundum af flagga á hátíðisdögum hjá afa mínum. Mig hefur reyndar alltaf langað til að eiga fánastöng til að geta flaggað íslenska fánanum þegar það á við. Tvisvar hefur verið flaggað fyrir mér, einu sinni á fermingardaginn minn og einu sinni fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þessar stundir eru mér hjartfólgnar og segja mér að ég tilheyri íslensku þjóðinni. En maður þarf að hafa tilefni til að flagga.

Sagan endurtekur sig oft á mismunandi hátt. Nú eru rétt 300 ár frá mestu hörmungunum í Íslandssögunni. Stórabóla (smallpox) sem oft var kölluð bólusótt, gekk þá yfir íslenska þjóð sem faraldur og felldi þriðjung landsmanna á aðeins tveimur árum. Hrun meðal þjóðar getur vart orðið meira. Flestir á besta aldri. Þá var læknisfræðin ekki komin til landsins í nútímalegum skilningi. Um miðja 18. öld (1760) var landlæknisembættið síðan stofnað með fyrsta læknislærða lækninum, Bjarna Pálssyni og fljótlega fóru undur og stórmerki að gerast og Læknaskólinn í Nesi var stofnaður. Þá gerðu menn mikið gagn úr litlu. Bólusetning sem ónæmisaðgerð var innleidd og sem er enn í dag ein merkilegasta aðgerð læknavísindanna. Í dag óskum við hins vegar eftir eilífðaræsku og erum  meira og meira háð ofvirk þjóðgerviþörfum. Jafnvel tímamótalyf sem voru talin kraftaverkalyf þegar þau komu fyrst fram á sjónarsviðið og lengdu meðalævi manna um 10 ár að meðaltali í hinum vestræna heimi, eru ofnotuð svo þau eru að missa virkni sína. Við treystum sífellt meira á tæknina og vísindin á kostnað mannlegra gilda. Margir telja líka þjóðina ofvirka og skjótráða. Þar sé skýringuna m.a. að finna á óláni þjóðarinnar nú. Sennilega voru það einmitt ólátaseggirnir sem flúðu frá Noreg á sínum tíma frekar en rólyndisfólkið. Nýtt kynningarmyndband ber þessu glöggt merki þar sem mætti ætla að allir sem fram koma séu bullandi ofvirkir eða þá á örvandi efnum eða undir áhrifum íslenskra orkudrykkja sem nú eru mikið auglýstir. Miklum fjármunum er nú varið í kynningarverkefnið fyrir útlendinga af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeirri von að það bjargi landinu frá glötun.

Fyrir nokkrum árum töldum við okkur fremst meðal þjóða á flestum sviðum. Sagan segir okkur, engu að síður, að stundum höfum við þurft á hjálp að halda. Áður höfum við jafnvel þurft að gangast undir vald annarra þjóða meðan birti til. Ekki einu sinni ákveðnir heimsfaraldrar gátu tekið hér fasta bólfestu vegna fámennis og dreifðar byggðar eins og hjá öðrum þjóðum, en skullu á okkur með ofurþunga þegar síst skyldi.

FlorentinoviruelaTalið er að bólusótt hafi borist fyrst til Íslands snemma á 13 öld og síðan gengið yfir sem faraldrar tvisvar til þrisvar á öld. Veikin var alvarlegust hjá fullorðna fólkinu. Af þessu leiti minnir þetta á hlaupabóluna sem getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá fullorðnum en yfirleitt vægur hjá börnum, þótt auðvitað bólusótt hafi verið miklu alvarlegri smitsjúkdómur. Vegna fámennis þjóðarinnar náði bólusótt ekki að vera landlægur sjúkdómur hér á landi eins og í öðrum löndum eins og áður sagði. Þá hefði þjóðin sennilega þurft að vera að minnsta kosti helmingi fjölmennari en hún var. Þess í stað gekk hún yfir í faröldrum með löngum millibilum. Ef langt var á milli faraldra veiktust hlutfallslega fleiri og faraldurinn varð skæðari.

1707 – 1709  er talið að allt að þriðjungur þjóðarinnar, 18.000 manns, hafi  hafi dáið úr faraldri af bólusótt sem barst með fötum manns sem dó á leið til landsins. Var faraldurinn einn sá versti í heiminum á þeim tíma. „Svo einkennilega sem það hljómar að þá mátti bæta barnamissirinn með að eignast fleiri börn en fullorðna var ekki hægt að bæta og afleiðingarnar urðu skelfilegar fyrir þjóðina. Mannfallið var einna mest hjá ungu og fullfrísku fólki og því varð mikill skortur á vinnuafli, auk þess sem fólki á barneignaraldri fækkaði mikið og fjölgunin varð því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði. Á árunum fyrir bólusóttina í upphafi 17 aldar höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu leyti á sjósókn en mikill afturkippur kom í þessa þróun með bólusóttinni. Jafnframt urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárbúskapur og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst“ (wikipedia-saga Íslands 17 öldin).

Bólusótt hafði þannig gríðarlega mikil áhrif á þróun íslensku þjóðarinnar og áhrif hennar á 18 öldina sennilega mikið vanmetin í Íslandssögunni. Leitt hefur verið að því líkum að bólusóttin hafi einnig átt ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld með því að draga svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd. Þannig var hrunið með örðum hætti á Þjóðveldisöld og ekki hægt að jafna við hrunið í dag sem er tilbúið efnahagshrun af okkar eigin völdum, en sem getur engu að síður stofnað fullveldi þjóðarinnar í mikla hættu.

Árið 1802, aðeins 6 árum eftir að bretinn Edward Jenner sýndi fram á að nota mætti kúabólusmitefni til bólusetningar gegn bólusótt 1796, var tekin upp kúabólusetning á Íslandi. Af tilstuðlan danakonungs sem sá aumur með þjóðinni og hve illa hún hafði farið út úr bólusótt í upphafi aldarinnar og miklu verr en aðrar Evrópuþjóðir, var kúabóluefni útvegað til landsins fyrst þjóða. Á svipuðum tíma eða 1803 var farin fyrsta heimsreisa sögunar í þeim tilgangi að bæta heilsu annarra þjáðra þjóða og sem tók 3 ár en það gerðu Spánverjar til að vernda nýlenduherrana og þræla sína gegn bólusóttinni í Suður- og  Mið-Ameríku  (Balmis leiðangurinn). Vert er að benda á söguna um litlu stúlkuna frá Haítí í þessu samhengi og áþján innfæddra í nýlendunum. Þá var Landlæknisembættið eins og áður segir nýstofnað hér á landi og eitt af fyrstu verkum læknanna sem útskrifuðust úr Læknaskólanum á Nesi var að sjá um bólusetningar hér á landi. Menn geta rétt ímyndað sér hvað sveitasamfélaginu var mikill akkur í því að fá þessa bólusetningu innleidda og sem á næstu öldum smá dró úr möguleikum á nýjum faröldrum (síðasti 1839). Um 1970 var bólusetningunum síðan hætt og 1977 var talið að búið væri að útrýma sjúkdómnum í öllum heiminum, eða svo var talið.

Eftir hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í Bandaríkjunum 2001 fóru af stað sögusagnir um að bólusóttarvírusinn Stórabóla væri enn til á rannsóknastofum stórveldanna og mögulega gætu þessir stofnar komist undir hendur hryðjuverkamanna, sérstaklega í gömlu Sovétríkjunum sem þá voru að liðast í sundur. Aðgerðir ríkisstjórna um heim allan miðuð þá að því fá bóluefni til taks ef á þyrfti að halda m.a. hér á landi þar sem 10.000 skammtar voru fluttir til landsins frá Danmörku.

kranarEfnahagshrunið nú er mjög alvarlegt og kemur a.m.k. fjórðungi þjóðarinnar á vergang í fjárhagslegum skilningi. Angistin í dag er ekki vegna dauðsfalla vina og ættingja vegna smitsjúkdóma heldur óvissu fólks um afkomu sína í framtíðinni og barnanna sinna. Þjóðin hefur aldrei skuldað annað eins og ekkert alvarlegt má upp á í þjóðarbúskapnum til að illa geti farið. Hjákot bankanna eru að tæmast og aftur þurfum við treysta meira og meira á þá ríku, á fiskinn okkar, sauðfjárrækt og nágranalöndin, vinina okkar. Þjóðin er aftur lítil og brothætt.

Samtenging við nútímann er ekkert síður athyglisverð ef við skoðum þann vanda sem maðurinn stendur frammi fyrir í dag. Flestum alvarlegum farsóttum hefur verið rutt úr veigi með bóluefnum um stundar sakir a.m.k. Í vaxandi mæli er farið a bólusetja gegn öðrum algengum sýkingarvöldum sem í flestum tilfellum veldur ekki lífhættulegum sýkingum. Kraftaverkalyfið penicillín, sem kom fram á sjónarsviðið rétt fyrir miðja síðustu öld, gjörbreytti stöðu mannsins gegn algengustu bakteríusýkingunum eins og áður sagði. En Adam var ekki lengi í paradís því að um leið og hægt var að verksmiðjuframleiða penicillínið var farið að ofnota það, jafnvel við kvefsýkingum sem það virkaði ekkert á. Og smá saman urðu bakteríurnar ónæmar fyrir lyfjunum. Ísland er hvað verst statt meðal nágranaþjóðanna í þessu tilliti en allt að 40% algengustu sýkla er með ónæmi fyrir penicillín og helstu varalyfjum. Líklegasta skýringin eru ofnotkun lyfjanna. Og sýklalyfjaónæmið er að verða að helstu heilbrigðisógnum framtíðar að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO. Nú eru að vísu að koma bóluefni gegn sumum af þessum bakteríum sem valda flestum alvarlegum öndunarfærasýkingum og eyrnabólgum og sem geta hjálpað okkur, að minnsta kosti tímabundið. Vandamálið er samt að hluta okkur sjálfum að kenna og í upphafi skyldi endinn skoða.

En nú er öldin önnur og enginn danakonungur til að hjálpa íslenskri þjóð. Við höfum ekki einu sinni efni á að bólusetja börnin okkar gegn þeim sýkingum sem oftast herjar á þau. Nú erum við ekki fyrst þjóða með tímamótabólusetningu, heldur verðum síðust norræna þjóða. En sem betur fer er ungbarnadauði meðal þess sem lægst gerist í heiminum. Þökk sé víkingablóðinu, landinu góða og mæðra- og ungbarnaheilsuverndinni. En botninum er því miður ekki náð.

Ekki hefur verið minnst á aðrar hörmunagar sem gengið hafa yfir þjóðina á undanförnum öldum svo sem móðuharðindin 1783-1785 með Skaftáreldum, einu mesta eldgosi íslandsögunnar. Þá dó fimmti hver Íslendingur úr vesöld og áhrifa harðindanna gætti langt framm á 19 öld. Nú verður okkur hugsað til þeirra tíma í öllu öskufallinu. Hrunið er rétt að byrja og gosið ekki búið!

Fyrstu læknarnir önnuðust starfið sitt vel fyrir rúmum tveimur öldum. Forgangsatriðið var að ná niður ungbarnadauða og bólusetja gegn bólusóttinni sem tókst vel. Lögð var áhersla á að mennta aðrar heilbrigðisstéttir svo sem ljósmæður. Prestarnir hjálpuðu einnig til. Í dag er heilbrigðiskerfið öflugt miðað við í þá daga. En blikur er á lofti og atgerfisflótti er brostin á í stétt lækna. Hætt er að svipað verði upp á teningnum hjá öðru vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Og margir kvarta í dag að geta ekki talað við lækninn sinn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn