Mánudagur 26.07.2010 - 14:32 - FB ummæli ()

Vatnið og orkan okkar

Fátt er meira rætt um þessa daganna en Magma-málið. En einu sinni er hið opinbera að klúðra málum og ráðuneyti orkumála gjörsamlega sofandi yfir gjörningi sem bæði virðist hafa verið lögleysa í upphafi, strangt til tekið, og sem er að minnsta kosti siðlaus aðgerð gagnvart almenningi landsins. Sala á meirihluta auðlindar þjóðarinnar og blóði landsins á ákveðnum svæðum til langs tíma og þannig yfirráðum er forkastanleg aðgerð sem dæmir nú sig sjálf enda mikið um fjallað. Fordæmið átti aldrei að skapa og sagan átti að hafa kennt okkur hvernig standa mætti betur að nýtingu og varðveislu vatns og hita í framtíðinni. Þetta er okkar sérsvið. Án þessarar auðlindar til eigin neyslu og yfirráða verður heldur vart búið hér á köldu landinu, a.m.k. ekki sem sjálfstæð þjóð sem elur á og aflar á eigin forsendum og verðleikum. Þessi auðlind er í dag e.t.v. eitthvað vannýtt en framtíðin býður upp á óteljandi möguleika sem er sífellt að verða verðmætari og í raun gulls ígildi. Útflutningur og meiri verðmætasköpun er handan við hornið.

Suðurnesin og Reykjavíkursvæðið hlýtur að teljast ein heild þegar litið er til þessara mála. Hagsmunir höfuðborgarsvæðisins hljóta því að liggja undir. Sem almennur neytandi á svæðinu teldi ég algjörlega óásættanlegt að þurfa að kaupa rafmagn og hita frá erlendu stórfyrirtæki í framtíðinni. Saga annarra landa sýnir mikið vægðarleysi í þessum efnum og miskunnarlaust er lokað á nauðsynleg orkuaðföng ef fólk er ekki tilbúið til að borga uppsett verð sem væntanlega yrði nálægt heimsmarkaðsverði. Gassjálfsalar erlendra orkufyrirtækja í fátæktarhverfum þróunarríkja er t.d. glöggt dæmi um þetta. Og hvað skyldi þá verða um allan annan almennan aðgang að heitu og köldu vatni eins og t.d. í sundlaugunum okkar. Hver væri samkeppnisfær um að reka slíka staði ef miða á við heimsmarkaðsverð á vatni og orku. Á þessari orku þrífumst við nú og er okkur aldrei mikilvægari enda þrengt að okkur á flestum sviðum. Sundstaðirnir eru auk þess okkur mörgum eins og heilögustu vé og þangað leitum við huggunar og sækjum innri orku, ekki síst í skemmdeginu. Vatnið og orkan er líka það sem þjóðin öll á, hvar sem vatn og orku er að finna á og í landinu, hvað sem hver segir. Frekar sveltum við í nokkra daga en láta stinga upp í okkur dúsu og láta þessi fjöregg frá okkur fara.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn