Laugardagur 14.08.2010 - 11:31 - FB ummæli ()

Ofurbakteríur þrífast best í veiku þjóðfélagi

kubbarSkildum við Íslendingar þurfa að fá hjálp frá Evrópusambandinu til að ráða niðurlögum ofurbaktería hér á landi eins og við þurftum hjálp Dana til að ráða niðurlögum bólusóttar fyrir rúmlega tveimur öldum síðan þegar við vorum undir þeirra forræði? Eða höfum við burði til að ráða við vandamálin á eigin forsendum?

Margt gott hefur verið gert í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins hér á landi allt frá því embætti Landlæknis var stofnað fyrir 250 árum síðan, ekki síst í smitvörnum, mæðra- og ungbarnavernd. Á  ýmsum heilsukvörðum stöndum við Íslendingar nú vel að vígi í samanburði við önnur lönd. Meðal annars er spítalaþjónustan góð þegar kemur að bráðveikindum, mæðraverndin er góð og ungbarnadauði er með því sem lægst gerist í heiminum. Almennt eru Íslendingar auk þess hraust þjóð, börnin fæðast stór og heilbrigð, húsnæðið gott og sama má segja um næringu og hreinlæti. En það eru blikur á lofti sem bent geta til að við séum ekki að gera hlutina nógu vel.  Á síðustu misserum hefur borið á alvarlegum brestum sem hægt er að kenna við nútímavanda í ómarkvissri heilsuvernd að mínu mati. Virðist vera um að kenna  stjórnleysi og takmörkunum á eðlilegu aðgengi að grunnþjónustunni en í staðinn vísað á frjálst aðgengi að þjónustu sérfræðinga úti í bæ og á vaktþjónustuna. Víða erlendis þar sem heilbrigðisþjónustan hefur verið talin veik og ekki talin standast samanburð við okkur á flesta mælikvarða eru lyfjaávísanir óagaðar og þar hefur einmitt sýklalyfjaónæmi verið hvað mest. Í sumum þessara landa getur almenningur jafnvel keypt sýklalyf beint úr apótekunum. Há tíðni fjölónæmra berkla, fjölónæmra sárabaktería og annarra sýkla sem valda algengustu sýkingunum er afleiðingin.

Heilsugæslan er hugsuð til að fást við algengustu meinin í þjóðfélaginu, svokallaða alþýðusjúkdóma. Kvefpestir og öndunarfærasýkingar eru dæmigerðir slíkir sjúkdómar. Ef þessir sjúkdómar eru afgreiddir í vaxandi mæli sem flóknir sjúkdómar hjá sérfræðilæknum og sjúkrastofnunum er hætt við að meira sé gert úr vandanum en efni standa til.  Rannsóknir verða meiri og meðferðarúrræði flóknari og dýrari. Hraðafgreiðsla á vöktum þar sem ekki er boðið upp á eftirlit og fræðslu er ekki ásættanleg, sérstaklega ef henni er ætlað að mestu að létta á dagþjónustu heilsugæslunnar þar sem ekki fást tímar. Í dag vantar tugþúsunda höfuðborgabúa heimilislækni og allt of margir skjólstæðingar eru skráðir á hvern lækni sem þar eru ennþá eru starfandi. Mikill niðurskurður á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir rúmu ári síðan og takmarkanir á síðdegisopnunum auka enn á þennan vanda.

Vandamálið sem snýr að þróun ofurbaktería hér á landi sem venjulega hafa verið kallaðir fjölónæmir pneumókokkar endurspegla nákvæmlega þann vanda sem getur skapast þegar ekki er rétt að farið í nálgun þessara sjúkdóma og eins og átt hefur sér stað í meðferð miðeyrnabólgu barna hér á landi á síðustu áratugum og sýklalyfin notuð óhóflega. Þetta á ekki síst við hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem flest börn og foreldar þeirra leita lækninga á Læknavaktinni og Barnalæknavaktinni í stað þess að fá þjónustu hjá heilsugæslunni sem ætti að hafa meiri yfirsýn á vandamálunum og meiri möguleika á ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgni með einkennum í stað þess að og grípa strax til inngripsmikilla meðferða eins og sýklalyfjameðferðar, enda oftast um sjálflæknandi sjúkdóma að ræða eða sjúkdóma sem þarfnast fyrst og fremst ráðgjafar. Þetta ásamt ungbarna- og mæðraeftirliti, eftirliti með krónískum sjúkdómum, geðhjálp, einfaldri slysahjálp og ráðleggingum um heilbrigðan lífstíl er meginhlutverk heilsugæslunnar í dag. Gæðaþróun í heilbrigðum lífstíl og forvörnum ásamt skynsamlegri lyfjanotkun er aðalsmerki greinarinnar. Heimilislæknar fá sérfræðimenntun í 4 ár til að geta annast þessa hluti vel. Sú þjónusta tilheyrir 1.stigs heilbrigðisþjónustunni og sem er í eðli sínu allt annað en sérfræðihjálpin sem er 2.stigs þjónusta og spítalaþjónustan sem er 3.stigs heilbrigðisþjónusta. Flóknara er það nú ekki.

Vandamálið varðandi hraða og hættulega þróun ofurbaktería á Íslandi endurspegla þannig úrlausnir á algengasta heilsuvanda íslenskra barna í heilbrigðiskerfinu sem ég hef mikið rannsakað gegnum árin ásamt félögum mínum og skrifað margar greinar um í íslensk og erlend læknatímarit, nú síðast í sumar í norræna læknablað heimilislækna (SJPHC). Um þessar rannsóknir hefur líka töluvert verið skrifað af erlendum aðilum og vitnað til slæmrar reynslu okkar Íslendinga. Endurtekið hefur verið varað við þróuninni. Um þetta vil ég aðeins fjalla um nánar vegna síðasta bloggsins míns og umræðunnar á fréttavef Eyjunnar í kjölfarið. Stóra máli sem er grafalvarlegt að mínu mati snýr þannig að loftvegasýkingunum, úrlausnum og notkun sýklalyfja sem tengist takmörkuðu aðgengi barna að heilsugæslu og samfelldri heilbrigðisþjónustu. Afleiðingarnar er hátt hlutfall ofurbaktería og miklu hærra en þekkist í nágranalöndunum.  Allar nýjar leiðbeiningar um góða heilsugæslu m.a. meðferð á öndunarfærasýkingum leggja einmitt mikla áherslu á samfellu í þjónustunni með möguleika á eftirliti í stað lyfja af minnsta tilefni. En það er ekki nóg að skrifa leiðbeiningar, aðstæður til að hægt sé að fara eftir leiðbeiningunum þurfa að vera fyrir hendi hér á landi og nýlega hefur verið til umfjöllunar erlendis. Í dag, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, er fyrst og fremst boðið upp á hefðbundna ungbarnheilsuvernd og bólusetningar frískra barna annars vegar og hins vegar þjónustu við veik börn á barnalæknavöktum og á Læknavaktinni, með fullri virðingu fyrir þessum aðilum enda Læknavaktin m.a. minn vinnustaður.

Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Um er að ræða tugþúsundir tilfella hjá börnum á hverju ári. Flestar bólgurnar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum, stundum með takmörkuðum árangri enda mikið sýklalyfjaónæmi hér á landi og hvergi er sýklalyfjanotkunin meiri á Norðurlöndunum en einmitt á Íslandi. Eyrnabólgur eru auk þess ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna þótt meðferð eigi í flestum tilvikum að vera óþörf þegar um vægar sýkingar er að ræða.

Á síðasta ári hefur verið mikið fjallað um nauðsyn þess að taka upp nýja bólusetningu hér á landi og sem hefur verið tekin upp á öllum hinum Norðurlöndunum án endurgjalds. Um er að ræða bólusetningu gegn algengasta sýkingarvaldi barna um þessar mundir sem er lungnabólgubakterían (pneumókokkur) sem fyrir utan að valda alvarlegum sýkingum eins og lungnabólgum, blóðsýkingum og heilahimnubólgum, veldur flestum miðeyrnabólgum meðal barna. Börnin sjálf eru helsti smitberi þessarar bakteríu í þjóðfélaginu og smita því gjarnan hvort annað og gamla fólkið. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur eftir að þingsályktunartillaga Siv Friðleifsdóttur og félaga var samþykkt í vetur, stefnt að því að taka hana upp á nýju ári. Stefnt er að bjóða aðeins börnum sem fæðast á næsta ári bólusetninguna enda gagnast bólusetningin best yngstu börnunum. Bólusetningin í dag stendur hins vegar aðeins börnum foreldra til boða sem óska eftir og hafa efni á að greiða fyrir hana. Full bólusetning á fyrsta ári kostar um 38.000 kr. Sóttvarnarlæknir hefur einnig kynnt bólusetninguna í Farsóttartíðindum á vef Landlæknisembættisins nýlega.

Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% og heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu fækkað um allt að helming. Því má sjá hvað almenn þátttaka í þessari bólusetningu gegn algengustu stofnum lungnabólgubakteríunnar getur haft gríðarmikil áhrif auk þess að skapa skilyrði fyrir að hægt sé að draga úr sýklalyfjanotkun og þannig stuðlað velferð barna og annarra á Íslandi.

Mikill og vaxandi áhugi foreldra er nú á bólusetningunni og bólusetningin vel kynnt læknum. Það er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldranna þar sem greinilega hafa ekki allir foreldrar efni á að kaupa þessar bólusetningar fyrir börnin sín í dag. Hætt er við að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til heilsuverndarinnar almennt sem svo aftur getur dregið úr þátttöku í öðrum nauðsynlegum bólusetningum barna.

Þeirri leið hefur verið hafnað hér á landi að þeir efnameiri geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en aðrir. Sama gildir um þá þjónustu sem stendur börnum til boða. Til skamms tíma hefur ungbarnaheilsuverndin og bólusetningar ekki verið þar undanskilin en því miður tannheilsuvernd barna. Tannlæknakostnaður barna er hár enda tannheilsa íslenskra barna léleg og miklu verri en á hinum Norðurlöndunum sem einnig vekur upp álitnar spurningar um veikt þjóðfélag. Ekki hefur verið deilt um að allar ungbarnabólusetningarnar sem heilbrigðisyfirvöld mæla með að séu ókeypis enda hagsmunir barnsins í húfi og þjóðfélagsins alls til að gott hjarðónæmi skapist.

Leggja ber áherslu á að bólusetningin sé ekki síst framkvæmd sem aðgerð stjórnvalda til að sporna gegn miklu sýklalyfjaónæmi hér á landi sem tengist eins og áður segir mikilli sýklalyfjanotkun um árabil, ekki síst meðal barna og sem á stærstan þátt í þeirri alvarlegri stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir sem er mikið sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda þjóðfélagsins. Um stórhættulega þjóðfélagsþróun er að ræða sem ekki sér fyrir endann á og bregðast hefði þurft við miklu fyrr. Bara þessi ástæða ætti að vera nóg til að flýta upptöku á bólusetningunni hér á landi eins og kostur er. Þjóðhagslegur sparnaður verður einnig mikill á öðrum mælikvörðum. Minni lyfjakostnaðar, minni fjarverur foreldra frá vinnu vegna veikinda barna og fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga sem hvergi eru algengari en á Íslandi og sem rakið er m.a. til endurtekinna eyrnabólgusýkinga. Ekki má gleyma bætum lífsgæðum barna og fjölskylda þeirra og með hjarðáhrifunum græða ekki síst afi og amma enda um helstu lungnabólgubakteríuna að ræða í þjóðfélaginu.

Mjög mikilvægt er að endurskipuleggja ávísanavenjur lækna á sýklalyf þegar kemur að meðferð algengust sýkinga í þjóðfélaginu, ekki síst öndunarfærasýkingum og eyrnabólgum barna sem er hátt í fjórðungur ástæða fyrir komu almennings til heilsugæslunnar og sem skýrir yfir helming af allri sýklalyfjanotkuninni í þjóðfélaginu. Í meirihluta tilfella er sýklalyfjanotkunin óþörf. Veita þarf miklu meiri fræðslu um skynsamlega notkun sýklalyfja hér á landi. Við verðum að koma í veg fyrir að við förum úr öskunni í eldinn sem gerist ef aðrir sýklalyfjaónæmir stofnar sem ekki eru í bóluefnunum ná sér á strik í kjölfarið vegna þess eins að ekki er dregið úr óþarfa notkun sýklalyfja um leið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn